Magnús Jóhannsson læknir - almenningsfræðsla        <til baka>

Almenn atriði

Pistlar:

- Áhrif rafsegulsviðs á lifandi verur
- Fósturþyngd og sjúkdómar
- Höfuðverkur
- Kostnaður við heilbrigðiskerfið
- Lækningar með hjúpuðum frumum
- Rannsóknir í læknisfræði
- Sjúkdómar og fordómar
- Skipulagður frumudauði og öldrun
- Skottulækningar
- Sótthiti
- Upplýsingar
- Upplýsingar um læknisfræði
- Verkir
-

Spurningar og svör:

- Flís úr gleri
- Gnístir tönnum
- Handanudd 
- Heilsufar
- Hreyfing
- Líkamshiti 
- Nætursviti
- Sólarljósið
- Stærð á typpi
- Sveppaóþol
- Vatnsdrykkja
- Verkir undan hringum

 

 

 

Handanudd

Spurning: Eru einhver læknisfræðileg rök fyrir því að hægt sé að lina þjáningar manna, t.d. höfuðverk, tannpínu, magaverk eða vöðvabólgu með því að nudda ákveðin svæði í lófum og á höndum?

Svar: Að nudda ákveðin svæði í lófum og á höndum er skylt kínverskum nálastungulækningum. Þó að þessar aðferðir séu oftast kenndar við nálastungur er ekki nærri því alltaf beitt nálum vegna þess að það hefur sömu eða svipuð áhrif að stinga, klípa, þrýsta eða nudda viðkomandi stað eða svæði. Þessum aðferðum má skipta í tvo meginflokka, þær sem beinast að því að stilla sársauka og þær sem eiga að lækna sjúkdóma, en á þessu tvennu er eðlismunur. Í Kína er það raunar svo að nálastungur til að lina sársauka eru útbreiddar og almennt viðurkenndar en aðferðir til að lækna sjúkdóma eru minna útbreiddar og ekki almennt viðurkenndar. Læknar á vesturlöndum voru lengi ákaflega vantrúaðir á þessar aðferðir og ekki var farið að rannsaka þær sem nokkru nemur fyrr en eftir 1970. Þær rannsóknir leiddu fljótlega í ljós að hægt var að draga úr sársauka með því að erta vissa staði víðs vegar á líkamanum og ekki skipti miklu máli hvort ert var með nálastungum eða annarri tegund ertingar. Ein þessara rannsókna var framkvæmd þannig að framkallaður var sársauki í tönn með því að hleypa rafstraum gegnum tönnina. Nálastunga á ákveðnum stað á hendi deyfði þennan sársauka, það tók að meðaltali 15 mínútna ertingu þar til þessi áhrif fengust og þau stóðu að meðaltali í 30 mínútur eftir að ertingu með nál var hætt. Það er einnig þekkt í stórum dráttum á hvern hátt þetta gerist: Við ertingu ákveðinna staða á líkamanum, berast boð eftir sársaukataugum til miðtaugakerfisins, þessi taugaboð valda losun boðefna í miðtaugakerfinu sem hamla flutningi sársaukaboða frá öðrum líkamshlutum. Þannig getur erting eða sársauki á einum stað deyft sársauka á öðrum stað. Í gamla daga var notuð svo nefnd spanskfluga sem var ertandi plástur sem settur var t.d. á bakið á sjúklingnum og sársaukinn sem hann olli gerði aðra verki bærilegri. Þetta er ekki það sama og hér er til umræðu, nálastungur eða aðrar skyldar aðferðir geta veitt mun öflugri og markvissari verkjadeyfingu en spanskflugan. Það er einnig ljóst að þessar aðferðir duga ekki á alla verki, þær geta dugað vel á tannpínu og höfuðverk en mun síður á verki frá maga, hjarta eða gallblöðru, svo að fáein dæmi séu nefnd. Ekki hefur tekist að sýna fram á að nálastungur eða skyldar aðferðir geti læknað sjúkdóma enda er það annars eðlis eins og nefnt var í upphafi.

 

 

Gnístir tönnum

Spurning: Sonur minn hefur gníst tönnum í svefni frá unga aldri. Nú er hann 17 ára og gnístir enn tönnum þannig að hann vaknar örþreyttur á morgnana. Slökun fyrir svefn virðist ekki duga til. Eru til einhver önnur ráð?

Svar: Við nýlega rannsókn í Bandaríkjunum kom í ljós að 15% barna og unglinga og allt að 95% fullorðinna höfðu átt við það vandamál að stríða að gnísta tönnum. Oftast gnístir fólk tönnum í svefni og veit þess vegna ekki af þessu en glímir við vandamál svo sem aumar eða jafnvel brotnar tennur, óþægindi í tannholdi, auma tyggingarvöðva, verki í kjálkaliðum eða höfuðverk. Eymsli eða verkir í kjálkaliðum eða tönnum geta verið merki um að viðkomandi gnísti tönnum í svefni. Ef óþægindin eru mest frá tönnum eða tannholdi er rétt að fara til tannlæknis og láta hann athuga málið.
Ekki er vitað af hverju fólk gnístir tönnum en margt bendir til að orsökin sé oftast einhvers konar streita. Einnig er til í dæminu að þetta stafi af skökku biti, ofnæmi eða óheppilegri svefnstellingu og vitað er að sum lyf, þreyta og áfengi geta gert ástandið verra. Stundum er ástæða til að útvega bitvörn sem sofið er með til að hlífa tönnum og tannholdi og bitvörn getur einnig hlíft kjálkaliðunum. Stundum er hjálp í því að breyta um svefnstellingu. Ef allt annað bregst er stundum ástæða til að grípa til kvíðastillandi lyfja í stuttan tíma. Besta lausnin er þó oftast fólgin í því að ná tökum á lífi sínu og losna þar með við streitu.

 

Flís úr gleri

Spurning: Ég fékk lítið glerbrot í fingur fyrir skömmu. Ég finn ekkert fyrir þessu nema þegar ég þrýsti á blettinn, þar sem glerbrotið fór inn. Mun það grafa út af sjálfu sér? Hversu langan tíma tekur það?

Svar: Flestir aðskotahlutir sem stingast inn í eða rétt inn fyrir húðina skila sér út aftur að lokum. Þetta er þó undir ýmsu komið eins og stærð og gerð aðskotahlutarins, staðsetningu á líkamanum og hversu djúpt hluturinn fór. Hlutir sem eru tiltölulega hreinir og vel afmarkaðir, eins og t.d. hlutir úr gleri, plasti eða málmi þurfa ekki að valda ertingu þar sem þeir eru staðsettir og fólk getur þess vegna gengið með þá mjög lengi eða jafnvel það sem eftir er ævinnar. Ef slíkir hlutir eru ekki í snertingu við liði, taugar eða æðar geta þeir verið án vandræða og viðkomandi einstaklingur veit jafnvel ekki af aðskotahlutnum. Þekkt dæmi um slíka hluti eru byssukúlur eða sprengjubrot sem fólk fær í sig í hernaði. Allt öðru máli gegnir um hluti sem eru ekki eins vel afmarkaðir eins og t.d. tréflísar. Inni í slíkum flísum eru svæði sem blóðrás líkamans nær ekki til og eru þar með varin fyrir ónæmiskerfinu. Þar myndast gjarnan ákjósanlegar aðstæður fyrir bakteríur sem geta vaxið og dafnað í friði fyrir ónæmiskerfi líkamans. Lítið gagnar að gefa sýklalyf vegna þess að lyfin komast illa inn í svona svæði. Flísar af þessu tagi valda þess vegna stöðugri ertingu og sýkingu sem endar gjarnan í graftarkýli sem opnast út á það yfirborð sem næst liggur, hvort sem það er húðin eða eitthvað innra líffæri. Ekki er öruggt að lítil glerflís í fingri grafi út af sjálfu sér og valdi hún óþægindum er réttast að láta fjarlægja hana.

 

Verkir undan hringum

Spurning: Að undanförnu hef ég fundið fyrir eins konar beinverkjum undan tveimur gullhringum á sitt hvorri hendi. Verkirnir hverfa svo smám saman eftir að ég tek hringina niður. Er einhver eðlileg skýring á þessu?

Svar: Það er örugglega einhver eðlileg skýring á þessu en hún er ekki augljós. Það er hins vegar alveg ljóst að hringar, einkum ef þeir eru stórir og þungir, geta valdið nokkru álagi á fingur og hendur. Þetta gildir þó einkum um þá sem eru komnir nokkuð til ára sinna eða eru með slitgigt í höndum. Kannski er þetta eitthvað tilfallandi sem verður horfið eftir nokkra daga eða vikur án þess að við vitum hver ástæðan var. Það er alveg óhætt að bíða í nokkrar vikur og sjá til hvort þetta lagast ekki, ef það gengur ekki eftir þá er sjálfsagt að fara til læknis.

 

Hreyfing

Spurning: Ég er 70 ára kona og hef mikla þörf fyrir hreyfingu, ég geng 6 daga í viku, um klukkustund á dag, og þar af í um 10 mínútur upp bratta brekku og síðan geri ég leikfimi í 10 mínútur. Er þetta of mikið fyrir minn aldur? Svo er annað: Þegar ég sit í ró og næði er púlsinn 50-60 slög á mínútu en þegar ég labba upp brekkuna fer hann í 100 slög. Er þetta eðlilegt?

Svar: Það sem þú gerir er örugglega eitt af því besta sem hægt er að gera til að halda heilsu. Margir sem komnir eru á þinn aldur hreyfa sig allt of lítið en það skal einnig tekið fram að það er einstaklingsbundið hve mikil hreyfing er hæfileg, það er svolítið sem hver og einn verður að finna sjálfur. Hæfileg hreyfing er, ásamt hollu mataræði, eitt af því sem hver og einn getur gert til að minnka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum og einnig beinþynningu. Sú hreyfing sem lýst er er hreint ekki of mikil fyrir 70 ára gamla konu sem ekki er haldin einhverjum sjúkdómi sem gæti gert áreynslu óæskilega. Púlsinn eða hjartsláttartíðnin er að vissu marki mælikvarði á það í hve góðri líkamsþjálfun við erum. Við líkamsþjálfun styrkist hjartavöðvinn eins og aðrir vöðvar líkamans og við það þarf hjartað ekki að slá eins hratt til að dæla því magni af blóði sem þarf hverju sinni. Púls sem er 50-60 slög á mínútu í hvíld og hækkar ekki nema í 100 slög við talsverða áreynslu er ekki bara eðlilegt heldur merki um gott líkamlegt ástand.

 

Sólarljósið

Spurning: Hver er lækningamáttur sólarljóssins? Mig minnir að hafa heyrt að Niels Finsen hafi stundað rannsóknir á þessu sviði. Er ef til vill skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að stunda ljósaböð í hæfilegum mæli yfir vetrartímann?

Svar: Niels R. Finsen var danskur læknir af íslenskum ættum, sem varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1882. Hann stundaði rannsóknir á lækningamætti sólarljóssins og fékk Nóbelsverlaunin í læknisfræði 1903 en dó ári síðar aðeins 44 ára gamall. Eitt af því sem þótti merkilegt við rannsóknir Nielsar R. Finsen var að hann notaði útfjólublátt ljós með góðum árangri við að lækna húðberkla. Nú á tímum er vitað að útfjólublátt ljós, m.a. sólarljós, drepur ýmsar tegundir sýkla auk þess sem það stuðlar að myndun D-vítamíns í húðinni. Útfjólublátt ljós bætir suma sjúkdóma eins og t.d. sóríasis (psoriasis) en gerir aðra verri. Fyrir heilbrigt fólk á öllum aldri gildir almennt að útfjólublátt ljós er ekki hollt nema í mjög litlum skömmtum. Skaðleg áhrif útfjólublás ljóss eru að það stuðlar að húðkrabbameini og gerir það að verkum að húðin eldist óeðlilega fljótt og verður hrukkótt. Sumir eru viðkvæmari fyrir þessu en aðrir og má þar nefna einstaklinga með ljósa húð, blá augu og ljóst eða rautt hár en þeir hafa oft tilhneigingu til að sólbrenna en verða síður brúnir. Einnig má nefna fólk með vissa sjúkdóma eða þá sem taka sum lyf. Af þessum ástæðum er ekki hægt að mæla með ljósaböðum yfir veturinn og sólböðum að sumri til ætti einnig að stilla mjög í hóf. Hér má einnig geta þess að þynning ózonlagsins leiðir til aukins magns útfjólublárra geisla í sólarljósinu og gerir sólböð enn varasamari.

 

Hvað er venjuleg stærð á typpi?

Spurning: Mig langar að spyrja um það hvort typpi á litlum drengjum eigi ekki að vaxa eðlilega eins og aðrir partar líkamans og þá er ég ekki að tala um kynþroskavöxt.
Ég á dreng sem er 8 ára og í nokkur ár hef ég haft af þessu áhyggjur því ég tel typpið á honum vera í sömu stærð og þegar hann fæddist, hann er mjög stór eftir aldri, stærstur í bekknum. Ég á tvo aðra drengi, yngri og eldri, og tel mig því hafa samanburð þar. Á þessum eldri hef ég séð eðlilegar breytingar í gegnum árin (hann er 10 ára) og þessi litli (sem er 2 ára) hefur stærra typpi en þessi 8 ára. Sá sem er 8 ára hefur tekið eftir þessu sjálfur og nú er svo komið að hann kemur grátandi til mín og segist ekki fara í leikfimi út af þessu og í skólasundi beið hann þar til allir voru búnir í sturtu og fór þá sjálfur. Fyrir stuttu fór ég með hann til heimilislæknis okkar útaf öðru og spurði þá að þessu í leiðinni. Læknirinn gerði það lítið úr þessu að mér fannst ég kjánaleg að spyrja, athugaði hvort forhúðin kæmist upp, sem er reyndar nýtilkomið. Drengurinn sat á meðan svo hann gat ekki hafa séð stærðina vel, hann sagði mér að gleyma þessu og talaði um kynþroska. Ég hef samt áhyggjur af þessu ennþá þar sem ég sé að barninu líður illa yfir þessu og vona að þú getir hjálpað mér eða bent mér á einhvern sem getur það ef þú sérð ástæðu til þess.

Svar: Áhyggjurnar sem lýst er eru mjög eðlilegar og algengar. Þær snúast almennt um það hvort við séum eðlileg eða á einhvern hátt afbrigðileg og þegar um er að ræða viss líffæri geta áhyggjurnar verið meiri en annars. Allir foreldrar hafa af þessu meiri eða minni áhyggjur. Við fæðingu og á fyrstu vikum og mánuðum að henni lokinni hefur fólk áhyggjur af því hvort hvort barnið sé eðlilega skapað eða hvort um sé að ræða vansköpun, sýnilega eða á innri líffærum. Síðan taka við áhyggjur af því hvort barnið sé eðlilegt andlega og hvort það þroskist eðlilega, líkamlega og andlega. Sem betur fer er hver einstaklingur einstakur, bæði líkamlega og andlega, engir tveir eru eins (nema eineggja tvíburar, þó aðeins að vissu marki). Við erum öll ólík í vexti, t.d. hvað varðar líkamshæð, holdafar, háralit, nefstærð, eyru og síðan það sem einkennir stelpur og stráka eins og brjóst og typpi. Breytileiki milli einstaklinga er mikill og þess vegna getur verið erfitt að átta sig á því hvað er innan eðlilegra marka og hvað getur talist afbrigðilegt. Hvort typpi eru stór eða lítil ákvarðast ekki af sjúkdómum frekar en það hversu útstæð eyru fólks eru. Börn og unglingar eru þekkt að því að vera miskunnarlaus í sambandi við allt óvenjulegt í líkamsbyggingu og þeir sem á einhvern hátt eru óvenjulegir óttast aðkast og stríðni jafnvel þó ekki hafi komið til slíks. Þeim sem eru há- og lágvaxnastir í hverjum skóla er oft strítt og sama gildir um útstæð eyru, stórt eða lítið nef, litla eða stóra höku og hvaðeina sem er aðeins öðruvísi en hjá flestum. Þegar kemur að séreinkennum í vaxtarlagi kynjanna, hvort sem það er fyrir kynþroska eða eftir að hann hefst, getur verið um sérstaklega viðkvæm mál að ræða. Flest börn og unglingar standa ágætlega af sér slíka stríðni og áreiti en í versta falli getur þetta leitt til eineltis og þá verða foreldrar og kennarar að taka í taumana. Sem betur fer eru áhyggjur foreldra af börnum sínum oft eða kannski oftast ástæðulausar en þeim á aldrei að þurfa að finnast þær vera kjánalegar eins og bréfritari lýsir. Í þessu tilviki er væntanlega ástæðulaust að hafa áhyggjur en auðvitað mætti láta annan lækni líta á drenginn til öryggis.

Sumir halda áfram að hafa áhyggjur af typpisstærð sinni eftir að þeir hafa náð fullum líkamlegum þroska þó að það sé löngu sannað að slíkt skipti ekki máli, t.d. fyrir kynlíf. Þessar áhyggjur lýsa sér m.a. í ótal könnunum á lengd þessa líffæris við fulla reisn en þar hefur komið í ljós að meðallengd er 13-16 cm en breytileikinn er mikill, frá 9 og upp í 23 cm.

Nætursviti

Spurning: Sæll, ég er 64 ára og síðastliðið eitt og hálft ár hef ég svitnað svo mikið á nóttinni að stundum þarf ég að skifta um náttkjól á miðri nóttu, þetta er ekki allar nætur og virðist vera kaldur sviti, mér hefur ekki orðið misdægurt á þessum tíma, er mjög hraust, veistu nokkuð af hverju þetta stafar ?
Svar: Nætursviti getur átt sér fjölmargar orsakir, hann getur verið sauðmeinlaus en hann getur líka stundum verið merki um alvarlegan sjúkdóm. Nætursviti stafar oft af því að of heitt er í herberginu eða viðkomandi notar of heit náttföt eða of heita sæng. Stundum þarf einungis að opna glugga eða fá sér kaldari sæng. Aukin svitamyndun, og þar með talinn nætursviti, fylgir oftast sótthita, jafnvel þó aðeins sé um að ræða smávægilega hitahækkun. Nætursviti er algengt og stundum mjög bagalegt vandamál hjá sjúklingum með lungnaberkla og getur einnig fylgt ýmsum öðrum sýkingum í öndunarfærum. Þeir sem eru með ofstarfsemi skjaldkirtils verða oft heitfengir og svitna mikið, líka á nóttunni, og þetta getur fylgt fleiri hormónatruflunum. Nætursviti getur fylgt lágum blóðsykri, en það getur gerst hjá sykursýkisjúklingum sem taka of stóra lyfjaskammta og það getur líka gerst af óþekktum ástæðum. Í sjaldgæfum tilfellum stafar nætursviti af æxlum eða öðrum sjúkdómum í heilanum. Allt það sem talið hefur verið upp getur gerst á hvaða aldri sem er og einnig geta verið fleiri ástæður fyrir nætursvita en raktar hafa verið. Eins og sést af lýsingu bréfritara er þetta ástand mjög óþægilegt og engin ástæða til að sætta sig við það að óreyndu. Ef einföld ráð duga ekki er full ástæða til að leita læknis og fá úr því skorið hvort finna megi orsök nætursvitans.

Sveppaóþol

Spurning: Af hverju stafar gersveppaóþol?
Svar: Um sveppaóþol (gersveppaóþol) eru mjög skiptar skoðanir og þess vegna er ekki einfalt mál að svara þessari spurningu. Sumir læknar eru þeirrar skoðunar að sveppasýkingar, einkum með sveppnum Candida albicans (hvítsveppur eða þruskusveppur), séu verulegt og vaxandi heilbrigðisvandamál sem sé undirrót alls kyns sjúkdóma og krankleika. Flestir læknar eru hins vegar vantrúaðir á þetta og benda á að traustar sannanir skorti. Þessir læknar hafa verið gagnrýndir fyrir vantrú sína á sveppaóþoli og sagt hefur verið að þessa ótrú megi rekja til þess að aðalástæður sveppaóþols séu viss lyf og þeir beri því nokkra ábyrgð á vandamálinu. Þessi rök geta varla talist gild enda þekkja læknar og viðurkenna að öll lyf hafa aukaverkanir og sumar alvarlegar.
Kenningin um sveppaóþol er í stuttu máli á þessa leið: „Mikil notkun breiðvirkra sýklalyfja, barkstera og getnaðarvarnalyfja getur valdið truflun á eðlilegum bakteríuvexti í líkamanum þannig að sveppir fari að blómstra. Þessi aukni sveppavöxtur á sér einkum stað í meltingarvegi og fæðingarvegi og hann leiðir að lokum til þess að líkaminn fer að mynda mótefni gegn sveppunum. Mótefnamyndunin leiðir smám saman til eins konar ofnæmis eða óþols sem veikir ónæmiskerfið og er undirrót alls kyns sjúkdóma og kvilla."
Sumt af þessu er þekkt og viðurkennt, en annað, einkum það síðasttalda, er ósannað og verður einnig að teljast ósennilegt. Þeir sem aðhyllast þessa kenningu telja sveppasýkingar undirrót sjúkdóma eins og alnæmis, sóra (psoriasis), fyrirtíðaspennu, blæðandi þarmabólgu, þunglyndis, mænusiggs (MS), lágs blóðsykurs, áfengissýki, síþreytu, meltingartruflana, ofnæmis og fjölda annarra. Þetta er langur listi og segja má að varla sé til sá kvilli sem einhver hefur ekki viljað tengja sveppasýkingum. Lækningin á að vera fólgin í því að taka sveppalyf og neyta fæðu sem hindrar vöxt sveppanna. Forðast á fæðutegundir eins og sykur, ferska ávexti, ávaxtasafa, þurrkaða ávexti, áfengi, ost, edik, brauð og kökur, sojasósur, hnetur, sveppi o.fl. Vandaðar rannsóknir á árangri svona meðferðar eru mjög af skornum skammti og meðan svo er hljóta flestir að efast. Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið eru margar hverjar illa skipulagðar og niðurstöðurnar hafa því ekki fengist birtar í vönduðum tímaritum. Oft er erfitt eða ógerlegt að draga ályktanir af niðurstöðum slíkra rannsókna. Sem dæmi má nefna að til eru rannsóknir sem sýna að sjúklingar með blæðandi þarmabólgur eru oftar með mótefni í blóði gegn brauðgeri en viðmiðunarhópur. Þetta gæti verið vísbending um að brauðger sé orsakaþáttur í blæðandi þarmabólgu en það gæti allt eins verið þannig til komið að vegna slímhúðarskemmda séu sjúklingar með blæðandi þarmabólgu viðkvæmir fyrir brauðgeri og myndi þess vegna mótefni fyrir því oftar en heilbrigðir.

 

Heilsufar - hvað er eðlilegt?

Spurning: Nýlega fór ég í tékkun út af blóðþrýstingi, blóðfitu og þess háttar. Ég var ekki nógu dugleg að spyrja hvað allt þetta þýddi og hvort öll sýninværu of há eða eðlileg. Það voru svo mikil læti og biðröð en útkoman varþessi:
Blóðþrýstingur 162/71. Púls: 71. Þyngd: 69.7. Blóðfita: 5,0. BMI: 28. Hlutfall vefjafitu: 41. Blóðsykur: 5,8. Hvað þýðir t.d. BMI eða vefjafita? Er þetta of hátt eða eðlilegt? Ég er 70 ára og 158 cm á hæð.

Svar: Það er á vissan hátt dapurlegt og merki um brotalöm í heilbrigðiskerfinu að sjúklingur skuli þurfa að leita svara hjá dagblaði við atriðum sem hefði átt að útskýra í ró og næði á læknastofunni. Ég skal reyna að útskýra þetta lið fyrir lið. Blóðþrýstingur er mældur í mm kvikasilfurs (mmHg) og gefinn upp sem tvö gildi það hærra og það lægra. Hærra gildið sýnir þrýstinginn í slagæðum eins og hann verður hæstur þegar hjartað dregst saman og lægra gildið sýnir lægsta þrýstinginn í slagæðunum á milli samdrátta í hjartanu. Við hvern samdrátt í hjartanu sveiflast blóðþrýstingurinn því á milli þessara gilda. Nú er talið æskilegt að hærra gildið sé undir 140 og lægra gildið undir 90. Ef blóðþrýstingurinn er yfir þessum mörkum, 140/90, er viðkomandi með of háan blóðþrýsting eða háþrýsting. Þetta þarf að staðfesta með nokkrum mælingum vegna þess að blóðþrýstingurinn sveiflast dálítið yfir daginn og frá einum degi til annars. Bréfritari ætti við tækifæri að láta endurtaka blóðþrýstingsmælinguna vegna þess að hún er nokkuð há. Púls segir til um fjölda hjartslátta á mínútu og 71 er fullkomlega eðlilegt.
Út frá hæð og þyngd er reiknað líkamsþyngdarhlutfall eða BMI (Body Mass Index). Þetta er þyngdin í kg deilt með hæð í metrum í öðru veldi. Þinn BMI er þannig 69,7/(1,58*1,58) sem gerir 28. Farið er að nota BMI sem mælikvarða á hvaða líkamsþyngd sé æskileg og er talað um ofþyngd ef BMI er yfir 25 og offitu ef BMI er yfir 30. Til að komast undir ofþyngdarmörkin (BMI=25) þyrfti bréfritari að léttast um 8 kg (í 62 kg) og telst það æskilegt.
Með blóðfitu er venjulega átt við kólesteról sem er sú blóðfita sem skiptir mestu máli. Kólesteról skiptist í nokkra flokka sem hafa ólíka þýðingu fyrir heilsufar og skipta þar mestu máli LDL-kólesteról sem stuðlar að æðakölkun og HDL-kólesteról sem er æðaverndandi. Stundum eru þessir flokkar mældir hver fyrir sig en algengast er að mælt sé heildarkólesteról eða blóðfita. Æskilegt er að blóðfita sé lægri en 5,2 mmól/l og bréfritari er því vel innan þeirra marka.
Hlutfall vefjafitu er einfaldlega hve fitan er mörg prósent af líkamsþyngdinni. Þetta hlutfall hækkar oftast með aldrinum og hjá konum hækkar það að meðaltali úr 25% hjá ungum konum í 40% hjá öldruðum. Bréfritari mældist með 41 sem er þannig aðeins í hærri kantinum.
Blóðsykursmæling að morgni (fastandi) er notuð sem vísbending um sykursýki. Ef blóðsykurinn er hár bendir það til þess að viðkomandi sé með sykursýki. Oft er miðað við að blóðsykur að morgni eigi að vera lægri en 6,1 mmól/l. Bréfritari mælist með 5,8 sem er innan eðlilegra marka.

 

Er vatnsdrykkja holl?

Spurning: Hvaða áhrif hefur vatnsdrykkja á líkama og heilsu? Af mikilli vatnsdrykkju verð ég oft þanin og á mig sest bjúgur er þetta staðreynd og hvað er þá til ráða?

Svar: Hægt er að verða uppþembdur af mikilli vatnsdrykkju en ef allt er eðlilegt fær maður ekki bjúg af henni. Bjúgur verður við það að vökvi safnast fyrir í líkamanum og sest í vefina, t.d. á ökkla. Algengar ástæður fyrir bjúgi eru hjartabilun, meðganga, nýrnasjúkdómar, blóðtappi og einnig geta sum lyf valdið bjúgi. Þeir sem fá bjúg ættu að leita læknis til að fá sjúkdómsgreiningu og viðeigandi ráðleggingar eða meðferð.
Um 60% af líkamsþyngd heilbrigðra einstaklinga er vatn. Þetta hlutfall er heldur lægra hjá konum en körlum og getur verið enn lægra hjá þeim sem eru feitir eða aldraðir. Um tveir þriðju af líkamsvatninu er inni í frumum líkamans (frumuvatn) en þriðjungur utan frumna (millifrumuvökvi). Meðalmaður er því með meira en 40 lítra af vatni í líkamanum. Dagleg vatnsneysla getur verið mjög breytileg milli einstaklinga og frá degi til dags og ákvarðast að mestu af vana, aðgangi að vatni og þorsta. Venjulegur einstaklingur með heilbrigð nýru þarf að lágmarki 400-500 ml af vatni á dag til að skilja út þau sölt og úrgangsefni sem líkaminn þarf að losa sig við en í raun er þvagið oft um 1000 ml á dag. Við bruna næringarefna myndast 200-300 ml af vatni á dag en á móti kemur að 600-800 ml tapast á dag með útöndunarlofti og svita. Þegar upp er staðið þurfum við 2-3 lítra af vatni á dag (í mat og drykk) til að bæta líkamanum upp vökvatap og gera nýrunum kleyft að losa líkamann við sölt og úrgangsefni. Vatnsdrykkja umfram þetta er eingöngu af hinu góða svo framarlega sem hún fer ekki út í algerar öfgar. Ef drukkið er mjög mikið magn af hreinu vatni (það getur þurft 10-20 lítra eða meira á dag) fer svo að lokum að styrkur natríums (í matarsalti) í blóðinu fer að lækka. Lækkað natríum í blóði gefur einkenni eins og máttleysi, rugl og krampa og ef lækkunin verður nógu mikil leiðir það til dauða. Vatnsþamb af þessari stærðargráðu er m.a. þekkt við vissa geðsjúkdóma og hjá þeim sem vinna erfiðisvinnu í miklum hita, t.d. námumenn. Á síðustu öld var algengt að námumenn sem drukku hreint vatn við þorsta urðu veikir og fengu krampa. Þegar farið var að láta þá drekka veika saltblöndu í staðinn hvarf þetta vandamál. Vatnseitrun er því þekkt en gerist aðeins við mjög öfgafullar aðstæður.
Margt fólk drekkur of lítið af vatni og gildir það sérstaklega um gamalt fólk og þá sem þjást af endurteknum nýrnasteinum. Vökvaskortur hjá gömlu fólki stuðlar að slappleika og hægðatregðu sem er algengt og alvarlegt vandamál meðal aldraðra. Fólk á öllum aldri ætti að temja sér að drekka nokkur glös af vatni á dag, það er heilsubætandi og gerir engum nema gott.

 

Hvað er eðlilegur líkamshiti?

Spurning: Getur þú sagt mér hvað veldur því að sumir eru með líkamshita undir 37 gráðu hita (allt undir 36 gráður). Er þetta algengt líka hjá börnum? Hver er þá hiti hjá svona fólki og börnum ef það veikist? Er þá 37 gráðu hiti það sama og t.d. 38-39 gráðu hiti hjá öðrum?

Svar: Eðlilegur líkamshiti, og þar af leiðandi sótthiti, er nokkuð einstaklingsbundinn hjá börnum og fullorðnum. Fyrir rúmum 120 árum gerði vísindamaður að nafni Wunderlich rannsókn á líkamshita manna og komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegur líkamshiti væri 37º C. Þetta er þó ekki alveg svona einfalt því ekki er sama hvar hitinn er mældur, hvenær sólarhrings, hvenær í tíðahring kvenna og þar að auki er hann einstaklingsbundinn. Við nánari athugun hefur komið í ljós að hiti í munnholi heilbrigðra einstaklinga á aldrinum 18-40 ára er 36,8 ± 0,4º C (meðaltal ± staðalfrávik) sem þýðir að rúmlega 95% þessara einstaklinga eru með hita á bilinu 36,0 - 37,6º C. Þessi hiti breytist þannig yfir sólarhringinn að hann er í lágmarki um kl. 6 að morgni og í hámarki um kl. 16-18. Hæsti hiti sem mælist í munnholi er 37,2º C kl. 6 og 37,7º C kl. 16 og hærri hiti en þetta er venjulega skilgreint sem óeðlilega hár líkamshiti eða sótthiti. Hiti mældur djúpt í endaþarmi er venjulega 0,6º C hærri en hiti í munnholi. Sólarhringssveiflan í líkamshita, milli morgunhita og síðdegishita, er almennt talin vera um 0,5º C en getur hjá sumum verið allt að 1º C. Þessi munur á líkamshita að morgni og síðdegi (kvöldi) helst oftast þó að um sótthita sé að ræða. Hjá konum er líkamshitinn lágur frá byrjun blæðinga og fram að egglosi en þá hækkar hann nokkuð hratt (á 1-2 dögum) um u.þ.b. 0,5º C og helst hár fram að næstu blæðingum. Mestar líkur eru á getnaði um það leyti sem líkamshitinn er að hækka. Ýmislegt fleira getur haft áhrif á líkamshitann og má nefna sem dæmi stórar máltíðir, þungun, hormónajafnvægi og aldur.
Líkamshitanum er stjórnað af undirstúku heilans (hypothalamus). Varmi myndast einkum í lifur, beinagrindarvöðvum og hjartavöðva og hann tapast út í gegnum húðina. Við ofkælingu geta vöðvarnir aukið varmamyndun með stöðugri virkni sem lýsir sér með hrolli og skjálfta og við ofhitnun eykst varmatap í húð með auknu blóðflæði (roði) og aukinni svitamyndun. Þetta er býsna öflugt kerfi sem getur haldið líkamshitanum réttum við erfiðar aðstæður, mikinn kulda og hita. Við vissar aðstæður, eins og t.d. sýkingar, verður óeðlileg hækkun á líkamshita yfir þau gildi sem eru eðlileg fyrir viðkomandi einstakling og nefnist það ástand sótthiti. Sótthiti er talinn vera hluti af varnarkerfi líkamans gegn sýklum og getur drepið eða hamið vöxt sumra sýkla.
Þetta kann að virðast flókið svar við einfaldri spurningu bréfritara en málið er nokkuð snúið ef vel er að gáð.