Hjartað og blóðþrýstingurinn
Hversu hættulegt er að vera með háan blóðþrýsting?
Á sama hátt og Ohms lögmál segir okkur að rafspenna sé margfeldið af rafstraum og viðnámi, er blóðþrýstingurinn margfeldið af því blóðmagni sem hjartað dælir á tímaeiningu og viðnámi æðakerfisins. Hjartað þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að dæla blóðinu um æðakerfið en auk þess myndast í hjartanu hormón sem hafa áhrif á útskilnað salta í nýrum. Hjartað er hannað sem dæla og er það ákaflega vel byggt líffæri sem þjónar hlutverki sínu vel. Ýmsar gerðir af dælum líkja eftir starfsemi hjartans með góðum árangri. Meginslagæð líkamans nefnist ósæð og dælir hjartað blóðinu út í hana. Þegar hjartað dregst saman og dælir blóði út í ósæðina hækkar þrýstingurinn í slagæðum líkamans og nær hámarki við lok hjartasamdráttarins; þetta eru efri mörk blóðþrýstingsins. Á meðan hjartað hvílist milli samdrátta, rennur blóðið út eftir slagæðakerfinu, við það lækkar slagæðaþrýstingurinn og nær lágmarki rétt áður en hjartað dregst saman næst; þetta eru neðri mörk blóðþrýstingsins. Blóðþrýstingur er því ávallt gefinn upp sem tvær tölur, efri mörk og neðri mörk, og einingin sem enn er notuð er mm Hg (millimetrar kvikasilfurs). Öll helstu atriði þess sem hér hefur verið lýst hafa verið þekkt mjög lengi og um þau er enginn ágreiningur meðal vísindamanna.
Í líkamanum eru nokkur stjórnkerfi sem halda blóðþrýstingi og æðaviðnámi í jafnvægi og hafa það að markmiði að nægjanlegt blóðmagn streymi um öll líffæri líkamans. Mikilvægasta kerfið af þessu tagi er oftast kennt við boðefnin eða hormónin renín og angíótensín og þekkt er í öllum aðalatriðum hvernig þetta kerfi starfar. Eðlilegt er að efri mörk blóðþrýstings séu undir 130 og neðri mörk undir 85. Ef efri mörkin eru 140 eða yfir eða ef neðri mörkin eru 90 eða þar yfir, er talað um að viðkomandi sé með háan blóðþrýsting eða öðru nafni háþrýsting. Hár blóðþrýstingur er í raun ekki sjúkdómur heldur sjúkdómseinkenni en um sjúkdóminn sem veldur þessu er ekki mikið vitað. Vitað er að erfðir skipta miklu máli, barn sem á báða foreldra með háþrýsting er t.d. í verulegri hættu að fá sjúkdóminn. Ýmsir umhverfisþættir skipta líka máli, t.d. hækka offita, reykingar og mikil áfengisneysla blóðþrýstinginn. Háþrýstingur er algengur, í Evrópu og Norður-Ameríku fá 10-20% fólks þennan sjúkdóm. Flestir fá sjúkdóminn á aldrinum 25 til 55 ára og hann er sjaldgæfur fyrir tvítugt.
En hverjar eru þá hætturnar við að hafa of háan blóðþrýsting? Þetta fer að vísu dálítið eftir því hversu mikil hækkunin er en ef ekkert er að gert getur þessi sjúkdómur stytt líf fólks um mörg ár og jafnvel marga áratugi. Það er þó veruleg huggun að með viðeigandi meðferð er hægt að koma í veg fyrir eða a.m.k. tefja mikið fyrir fylgikvillunum. Það er fyrst til að taka að hár blóðþrýstingur hefur mjög slæm áhrif á hjarta og æðar. Hann stuðlar að æðakölkun og eykur þannig hættu á kransæðasjúkdómi og alvarlegum hjartaáföllum. Vegna aukins álags á hjartað getur háþrýstingur valdið hjartabilun og hjartsláttartruflunum og allt þetta eykur hættu á skyndidauða. Hár blóðþrýstingur eykur hættu á heilablæðingum svo um munar en slíkar blæðingar geta valdið dauða eða örkumli. Þar að auki getur hár blóðþrýstingur valdið æðakölkun vítt og breitt um líkamann og nýrnaskemmdum sem leiða til nýrnabilunar. Með því að lækka blóðþrýstinginn er hægt að seinka eða jafnvel koma í veg fyrir alla þessa alvarlegu fylgikvilla hás blóðþrýstings.
Vægur eða í meðallagi mikill háþrýstingur getur verið einkennalaus árum saman. Algengasta einkennið er höfuðverkur, stundum er hann í hnakka með æðaslætti, verstur á morgnana, en hann getur lýst sér á annan hátt. Háan blóðþrýsting er tiltölulega einfalt að greina með því að mæla blóðþrýstinginn, stundum þarf að mæla nokkrum sinnum, jafnvel með nokkurra vikna eða mánaða millibili. Þeir sem hafa grun um að þeir séu með háan blóðþrýsting, einkum þeir sem eiga nákomna ættingja með sjúkdóminn, ættu að láta mæla blóðþrýstinginn.
Meðferð hefur það markmið að halda blóðþrýstingi innan eðlilegra marka allan sólarhringinn alla daga. Þetta er oftast mögulegt en verður þó ekki gert nema með góðri samvinnu læknis og sjúklings. Sjúklingurinn verður að fylgja samviskusamlega settum reglum og taka reglulega þau lyf sem hann hefur fengið, ef um lyfjameðferð er að ræða. Þeir sem eru of feitir ættu að grenna sig, þeir sem nota tóbak ættu skilyrðislaust að hætta allri nikótínneyslu og áfengi ætti einungis að nota mjög í hófi. Ef þetta er gert má búast við því að blóðþrýstingurinn lækki lítilsháttar en það er sjaldnast nægjanlegt þannig að oftast þarf einnig að nota lyf. Síðan er mikilvægt að fylgjast með árangrinum og þeir sem treysta sér til ættu hiklaust að verða sér úti um blóðþrýstingsmæli, þannig að þeir geti sjálfir fylgst með blóðþrýstingnum reglulega og á ýmsum tímum dagsins. Ekki má gleyma því að um langtímameðferð er að ræða, en ef allt gengur upp, eins og hér hefur verið lýst, er það nánast trygging fyrir góðum árangri.
júlí '96