Stækkaður blöðruhálskirtill

Hvað er til ráða hjá körlum með þvagtregðu?

Blöðruhálskirtillinn er hluti af kynfærum karla og í honum myndast megnið af sæðisvökvanum. Hann situr undir þvagblöðrunni og umlykur þvagrásina. Ef þessi kirtill stækkar eru þess vegna talsverðar líkur á að hann þrengi að þvagrásinni og valdi erfiðleikum við þvaglát. Þessi kvilli hrjáir einkum karlmenn sem eru komnir yfir fimmtugt. Meira en helmingur karlmanna sem komnir eru yfir sextugt eru með stækkaðan blöðruhálskirtil og um áttrætt er slíka stækkun að finna hjá 8 af hverjum 10. Stækkun blöðruhálskirtils er þó iðulega einkennalaus og flestir komast af án nokkurrar meðferðar. Konur hafa ekki blöðruhálskirtil og þess vegna er ekki til samsvarandi vandamál hjá þeim.

Stækkun blöðruhálskirtils er ekki krabbamein og eykur ekki hættu á krabbameini. Krabbamein í blöðruhálskirtli er eitt algengasta krabbamein hjá körlum en það er önnur saga og hefur ekkert með að gera þá góðkynja og algengu stækkun kirtilsins sem hér er fjallað um. Um orsakir er lítið vitað en þær gætu tengst minnkandi magni karlhormóna þegar aldurinn færist yfir.

Einkenni þessa sjúkdóms eru margvísleg en tengjast flest erfiðleikum við þvaglát. Sjúklingurinn getur þurft að pissa oft, hann hefur á tilfinningunni að hann geti ekki tæmt þvagblöðruna, þvagbunan er slöpp og stoppar stundum, hann þarf að rembast til að þvagið komi, hann fær stundum skyndilega og mikla þvaglátaþörf og hann vaknar oft á nóttunni til að pissa. Stundum er blóð í þvaginu sem kemur vegna þess að bláæðar í blöðruhálskirtlinum springa. Ef um mikla þvagteppu er að ræða er aukin hætta á þvagfærasýkingu, nýrnasteinum og að lokum geta orðið skemmdir á nýrunum.

Greining er oftast tiltölulega einföld og byggist á sjúkrasögu, þreifingu á blöðruhálskirtli í gegnum endaþarminn auk rannsókna á þvagi og blóði. Nokkrir aðrir sjúkdómar geta gefið svipuð einkenni og þarf að útiloka þá. Þar er einkum um að ræða krabbamein eða sýkingu í blöðruhálskirtli, sjúkdóma í þvagblöðru eða stein í þvagblöðru.

Þegar búið er að greina sjúkdóminn þarf að ákveða hvort þörf sé á meðferð. Í mörgum tilvikum er engin þörf á meðferð, einungis fræðslu um sjúkdóminn. Einnig þarf að athuga hvort sjúklingurinn taki lyf sem gera ástandið verra. Til er talsverður fjöldi lyfja sem hafa þannig áhrif á úttaugakerfið að þvaglátaerfiðleikar geta versnað mikið. Ef sjúklingurinn hættir töku slíkra lyfja, eða skiptir um lyf, geta þvaglát orðið auðveldari. Fyrir meira en 10-20 árum var nánast eina meðferðin við stækkuðum blöðruhálskirtli stór skurðaðgerð þar sem farið var inn ofan við lífbein og hluti kirtilsins fjarlægður. Þetta hefur breyst mikið og nú er til ýmis konar lyfjameðferð auk gífurlegra framfara í skurðtækni. Nýlega kom á markað lyfið fínasteríð (selt undir nafninu Proscar) sem hefur áhrif á hormónajafnvægið í blöðruhálskirtlinum þannig að hann minnkar smám saman. Áhrifin koma því hægt og hægt og fullum árangri er yfirleitt ekki náð fyrr en eftir 3 mánuði. Annað nýlegt lyf er alfúzosín (selt undir nafninu Xatral) sem hefur áhrif á starfsemi úttaugakerfisins (alfa1-blokki) og auðveldar þannig þvaglát. Bæði þessi lyf geta gert mikið gagn og þau hafa engar alvarlegar aukaverkanir.

Þegar lyfjameðferð dugir ekki má grípa til skurðaðgerða. Algengasta skurðaðgerðin er framkvæmd þannig að hluti kirtilsins er fjarlægður í gegnum þvagrásina. Þetta er oft gert í mænudeyfingu og meðallegutími á sjúkrahúsi eftir slíka aðgerð er 4 dagar. Ef blöðruhálskirtillinn er orðinn mjög stór er ekki hægt að fjarlægja hann á þennan hátt heldur verður að gera stærri aðgerð eins og áður var lýst. Verið er að þróa ýmsar aðrar aðgerðir sem hægt er að framkvæma í staðdeyfingu án innlagnar á sjúkrahús. Þessar aðgerðir eru framkvæmdar í gegnum þvagrásina og byggjast flestar á því að frumur í hluta kirtilsins eru drepnar með hita, en hitinn er framkallaður með örbylgjum eða leysigeisla. Enn sem komið er hefur ekki fengist mikil reynsla af þessum nýju aðgerðum en þær lofa góðu.

© Magnús Jóhannsson