09 apríl, 2005

Lög Ökonomíu, félags hagfræðinema


I. kafli

1. grein.
Félagið heitir Ökonomia, félag hagfræðinema. Heimili þess og varnarþing er Háskóli Íslands.

2. grein.
Tilgangur félagsins er að annast sameiginlega hagsmuni nemenda við hagfræðiskor viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Félagið skal hafa yfirumsjón með félagsstarfi nemenda innan hagfræðiskorar og efla það sem kostur er.

3. grein.
Meðlimir félagsins eru allir nemendur við hagfræðiskor Háskóla Íslands sem greitt hafa félagsgjald á skólaári.

II. kafli

4. grein.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Til aðalfundar skal boða eigi síðar en í síðustu kennsluviku að vori ár hvert. Fundurinn skal auglýstur á áberandi hátt í Odda, húsi viðskipta- og hagfræðideildar, og á heimasíðu félagsins með að minnsta kosti viku fyrirvara.

5. grein.
Fundarstjóri skal kosinn við upphaf hvers aðalfundar og skal fráfarandi formaður stýra kosningu hans.

6. grein.
Kosninga- og framboðsrétt á aðalfundi hafa aðeins meðlimir félagsins samkvæmt 3. grein.

7. grein.
Aðalfundur hefur einn vald til lagabreytinga. Öllum kosningabærum mönnum á aðalfundi er heimilt að leggja fram tillögur til lagabreytinga og telst tillaga því aðeins samþykkt að tveir þriðju hlutar greiddra atkvæða styðja hana. Atkvæði til lagabreytinga, sem og önnur mál en kosning í stjórn, skulu greidd með handauppréttingu nema annars sé óskað á fundinum. Tillögum til lagabreytinga skal skila til stjórnar þremur dögum fyrir aðalfund. Aðalfundur getur vikið frá þeirri reglu, að tillögum til lagabreytinga skuli skila til stjórnar þremur dögum fyrir aðalfund, ef tveir þriðju hlutar greiddra atkvæða styðja það. Hægt er að stunda kaup og sölu á atkvæðum vegna lagabreytinga fyrir aðalfund. Verð ræðst af framboði og eftirspurn á hverjum tíma. Kjósandi verður að sýna fram á, svo ekki verði véfengt, að hann hafi öðlast þau atkvæði sem hann hyggst nýta á drengilegan hátt.

8. grein.
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
Kosning fundarstjóra aðalfundar
Skýrsla stjórnar
Reikningar félagsins lagðir fyrir aðalfund til samþykktar
Lagðar fyrir lagabreytingar til samþykktar
Kosið í stjórn í eftirfarandi röð:
-Gjaldkeri
-Skemmtanastjóri
-Ritari
-Formaður
Kosið um önnur embætti:
-Tveir endurskoðendur
-Fulltrúi til setu á deildar-og skorafundum
-Þrír málfundafulltrúar
-Ritstjóri Hjálmars
-Ungfrú Ökonomía
Fundi slitið af nýkjörnum formanni og hamlaus drykkja heldur áfram.

9. grein.
Á aðalfundi skal kosið í stjórn félagsins. Stjórn skal hafa æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Framboðum til embætta skal skilað til stjórnar eigi síðar en á hádegi fyrir aðalfund. Kosningar til embætta í stjórn skulu vera leynilegar.

10. grein.
Fráfarandi stjórn skal leggja fyrir aðalfund reikninga félagsins til samþykktar. Reikningar teljast samþykktir með meirihluta atkvæða.

11. grein.
Aðeins er haldinn einn aðalfundur á hverju námsári nema að minnsta kosti þriðjungur félagsmanna æski skriflega eftir að haldinn verði aukaaðalfundur. Skal þá stjórn félagsins boða til aukaaðalfundar eigi síðar en 10 dögum eftir að beiðni þess efnis hefur borist.

III. kafli

12. grein.
Stjórn félagsins er skipuð fimm mönnum. Fjórir þeirra eru kosnir á aðalfundi. 1) Formaður, 2) Ritari, 3) Gjaldkeri, 4) Skemmtanastjóri. Hlutverk ritara er að halda fundargerðir á fundum. Hlutverk gjaldkera er að halda utan um fjármál félagsins. Hlutverk skemmtanastjóra er yfirumsjón með vísindaferðum. Í forföllum formanns skal ritari gegna störfum hans.

13. grein.
Fimmti stjórnarmaðurinn, meðstjórnandi, er valinn úr hópi nýnema. Skal stjórn félagsins boða til fundar með fyrsta árs nemum fyrir lok þriðju kennsluviku að hausti þar sem kosning meðstjórnenda fer fram. Auglýsa skal fundinn með sama hætti og aðalfund.

14. grein.
Á aðalfundi skal kjósa tvo menn sem sjá um endurskoðun reikninga félagsins fyrir aðalfund við lok næsta starfsárs.

15. grein.
Kosið skal um einn fulltrúa hagfræðinema til setu á deildar- og skorarfundum. Öllum hagfræðinemum, hvort sem þeir eru félagar í Ökonomiu eða ekki, skal heimilt að taka þátt í þeirri kosningu. Fulltrúinn skal kosinn á aðalfundi Ökonomiu enda öllum hagfræðinemum frjáls seturéttur á aðalfundi. Fulltrúi skal hafa hag hagfræðinema að leiðarljósi á þessum fundum en ekki stjórnast af utanaðkomandi öflum. Stjórn Ökonomiu velur annan fulltrúa úr sínum röðum til setu á deildar-og skorarfundum.

16. grein.
Aðalfundur Ökonomiu kýs þriggja manna málfundanefnd. Nefndin skal standa fyrir reglulegum málfundum, a.m.k. einum á hvorri önn. Tilgangur fundanna er að efla umræðu um efnahagsmál og afla Ökonomiu vegsældar og virðingar.

17. grein.
Kosið skal um ritstjóra Hjálmars, málgagns Ökonomiu. Tilgangur blaðsins er að upplýsa nemendur um framgang félagsins og félagslífsins. Hlutverk ritstjóra er að sjá um útgáfu blaðsins.

18. grein.
Árlega skal kjósa ungfrú Ökonomiu.

19. grein.
Nýkjörin stjórn skal við fyrsta tækifæri ákvarða félagsgjöld fyrir komandi skólaár.

20. grein.
Atkvæði formanns ræður úrslitum ef atkvæði standa á jöfnu þegar kosið er um lagabreytingar og í stjórn félagsins.

21. grein.
Lög þessi taka þegar í gildi.

---
Lög leiðrétt 20/3 2006 skv. samþykktum lagabreytingartillögum aðalfundar sem haldinn var 17/3 2006. Stjórn Ökonomiu.