mánudagur, mars 06, 2006

Spekingaspjall #5

Spekingaspjallið hitti á dögunum hagfræðinemann Magnús Ægisson sem er fæddur á þeim merka degi 14. júlí árið 1985. Magnús er fæddur og uppalinn á Akranesi og útskrifaðist þaðan úr framhaldsskólanum FVA af félagsfræði- og viðskiptabraut. Það er orðið meira en ár síðan töffarinn fluttist í Vesturbæinn og að hans sögn venst það ágætlega. Maggi er skráður í BA í hagfræði með sagnfræði sem aukagrein, en er samt ég nánast búinn með sagnfræðihlutann. Reyndar er hann djúpt hugsi hvort ekki skuli fara alla leið og taka BS, en ætlar bara að láta það ráðast á næstu árum.

Gælunafn?
„Það er þá helst Maggi, Maggi ægis, magisson eða magis. Nickname-in frá irc-tímabilinu hafa enst furðuvel innan míns vinahóps. Svo eru það fleiri sem staðið hafa yfir í skemmri tíma eins og Maggi níski, fagison, kilmar eða önnur álíka hallærisleg. Annars þykir mér nú best að vera kallaður Maggi. “

Hver eru þín helstu áhugamál?
„Helstu áhugamál mín eru held ég frekar klassísk, það er fótbolti og fara út að skemmta sér með félögunum. Hvort sem það eru vísindaferðir með hagfræðinni eða skagadjamm með vinunum. Þeim seinni hafa reyndar fækkað mjög ört undanfarið, en standa samt ávallt fyrir sínu. Eins og ég sagði þá er ég mikill fótboltaáhugamaður, er að vísu löngu hættur að æfa en fer að minnsta kosti einu sinni í viku í bolta. Síðan horfir maður að sjálfsögðu á alla leiki með Liverpool.
Að auki fylgist ég ágætlega með þjóðmálunum og efnahagslífinu. Þar hefur maður sínar skoðanir en er lítið að flagga þeim nema öðru hvoru þegar maður er í glasi. Einnig hef ég alltaf lesið nokkuð, þó meira í framhaldsskóla heldur en eftir að ég byrjaði í Háskólanum, vonandi breytist það með sumrinu.“

Af hverju lá leið þín í hagfræði?
„Að vísu byrjaði ég á náttúrufræðibraut í FVA en fannst flest sem tengdist því svo drepleiðinlegt að ég ákvað að reyna við mig á sviði hagfræðinnar. Ég sá strax að það hentaði mér vel og var bara ótrúlega skemmtilegt. Svo ég hef farið eftir þeirri braut síðan og sé ekki eftir því.“

Hvert er þitt uppáhaldsfag og kennari í hagfræðinni? Af hverju?
„Líkt og hjá mörgum þá er það þjóðhagfræði og Þorvaldur Gylfason. Þorvaldur er auðvitað ótrúlega fyndinn og skemmtilegur kennari, síðan útskýrir hann allt svo auðveldlega með frábærum líkingum. Einnig verð ég að minnast á Halldór Benjamín þó hann kenni ekki mikið, hann er alveg ótrúlega hress gaur.
Þjóðhagfræðin er síðan sú grein sem heillar mig mest í hagfræðinni, ekki of mikil stærðfræði og mér finnst ég fá meiri skilning á því sem er að gerast í efnahagslífinu almennt.“

Mest kynæsandi kvenmaður heims?
„Æii mér dettur ekkert í hug... Kannski þarna gellan í Girl next door Elisha Cuthbert, hún var frekar sæt. Annars er það breytilegt.“

Mest kynæsandi karlmaður heims?
„Örugglega Arnar Þór eða Sævar.“

Besta móment hagfræðidjamms?
„Þau hafa verið mörg góð. Ekkert eitt sem mér dettur í hug sem stendur upp úr, en vísindaferðin í mp fjárfestingar og árshátíðin eru tvö bestu djömmin. Síðan bind ég miklar vonir við aðalfund Ökonomiu þann 17. mars!“

Draumavinnustaðurinn??
„Einhvern tímann sagðist ég ætla verða aðalhagfræðingur Seðlabankans. Það væri eflaust fínt djobb. Annars finnst mér ég vera það ungur ennþá að ég þarf lítið að vera spá í þessu, bara vonandi eitthvað skemmtilegt.“

Lífsmottó?
„Ég nota ekki mottó. Eins og einn maður sagði þá eru mottó bara fyrir menn eins og Þorgrím Þráinsson.“

Og að lokum:


Á Silvía Nótt eftir að rúst’essu dæmi?
„Já, klárlega. Sama þótt hún eigi eftir að vinna eður ei, þá á eftir að verða gaman að þessu.“

Viðtalið tók Helga Guðmundsdóttir, ljósmyndari Ökonomiu

sunnudagur, mars 05, 2006

Carl Menger

Menger fæddist árið 1840 í Galiciu í suðurhluta Póllands (sem var þá hluti af Austurríska- ungverska keisaradæminu). Foreldrar hans og systkyni voru öll menntamenn og mótaðist æskuheimili Mengers mjög af því. Menger lagði stund á lögfræði við þrjá háskóla, í Vín, Prag og í Kraká. Lauk hann doktorsnámi í lögum frá Kraká árið 1867.
Það var stuttu eftir að hann lauk námi sem áhugi hans á hagfræði jókst til muna. Þá starfaði hann á upplýsingaskrifstofu forsætisráðuneytisins í Vín. Árið 1871 gaf hann út bókina Principles of Economics sem er af mörgum í dag talin til merkustu bóka um hagfræði sem út hefur komið. Tveimur árum eftir útkomu bókarinnar er Menger orðinn prófessor við Vínarháskóla. Í nokkur ár var Menger einkakennari Rúdolfs ríkisarfa Austurríkis en tók að nýju við stöðu prófessors í Vín. Á árunum um 1890 skrifaði Menger margar greinar um peningahagfræði sem áttu eftir að hljóta mikinn hljómgrunn meðal hagfræðinga næstu kynslóðar sbr. Ludwig von Mises.
Carl Menger sagði upp prófessorsstöðu sinni árið 1903 í því augnamiði að helga sig skrifum um hagfræði. Hann ætlaði að útfæra betur þær kenningar sem hann hafði sett fram í Principles of Economics og bæta við nýjum hugmyndum í eina heildstæða bók um hagfræði. Honum entist hins vegar ekki heilsa og aldur til þess að ljúka því sem hann taldi myndi fullkomna ævistarf sitt og einungis brot af þessari bók eru til í dag.
Í bók Mengers Principles of Economics koma fram margar merkilegar kenningar sem voru nýjungar á þeim tíma. Hann hafnaði til að mynda kenningum síns tíma um virði hluta sem gengu út á það að virði væri eingöngu tengt framleiðslukostnaði. Hann taldi að notagildi einstaklinga af vörum væru mismunandi. Jafnframt skrifar Menger mikið um jaðarábata og talar um það að nyt manna af vöru minnki eftir því sem meira er neytt af henni. Menger talar ekki um minnkandi jaðarnyt sem kenningu sem hann setji fram. Hann virtist ekki átta sig á því að hann var hér kominn fram með nýja kenningu innan hagfræðinnar (þó svo eitthvað hafi verið skrifað áður um minnkandi jaðarnyt). Menger þótti það svo sjálfsagt að hann hafði ekki einu sinni fyrir því að útskýra nákvæmlega sinn skilning á fyrirbrigðinu. Þess vegna er Jevons af flestum talinn sá sem útfærði fyrstur kenninguna um minnkandi jaðarnotagildi.
Menger lagði alltaf mikla áherslu á það að stærðfræðin væri hjálpartæki hagfræðingsins og að varast þyrfti það að falla í keldu stærðfræðiflækja og týna hagfræðinni sem að baki liggur. Á þessari skoðun voru jafnframt hagfræðingar næstu kynslóðar í Austurríki.
Áhrif Mengers voru mikil og voru kenningar hans grundvöllur þeirra fræða sem Austurrísku- hagfræðingarnir svokölluðu stunduðu. Kenningar Mengers féllu ekki í gleymsku eins og hann óttaðist þegar hann tók að rita hagfræðikenningar sínar um 1903, heldur voru þær útfærðar enn frekar af fjölmörgum fylgismönnum hans.

Heimildir:
Dictionery of Economics, Routledge, London, 1992.
Great Economists before Keynes, Mark Blaug, Wheatsheaf Books, 1986.

Félag hagfræðinema

mánudagur, janúar 16, 2006

Spekingaspjall #4

Ég heiti Sara Jóna Stefánsdóttir, a.k.a. Sara Jay for my buddies;) ,ég er fædd 12. september 1983, semsagt 23 á þessu ári. Fædd og uppalin hér í Reykjavík en báðar ættir mínar eru frá Vestfjörðum, þá aðallega Ísafirði. Hef alltaf verið breiðholtsmær þar til nýlega, er semsagt núna miðbæjarrotta og ég fíla það í botn!

Maki?
Hjalti Kristjánsson, hæfileikaríkasti maður í heimi!!

Helstu áhugamál?
Vó það er svo mikið, hummmm.....alveg í toppsætinu er að skemmta mér með vinum mínum og vera með Hjalta. Góður öllari í einni og spil í hinni er líka alltaf rosa gaman, hestamennskan hefur alltaf skipt mig miklu máli, stundaði hana af hörku hér áður fyrr en nýlega hefur bara ekki gefist tími til þess, söngurinn í sturtunni og bílnum er meira en skemmtilegt, hver elskar ekki að góla eins og fáviti í sturtunni;), kisurnar mínar, Tanya og Ljúfa a.k.a feita kisan og mjóa kisan. Svo má auðvitað ekki gleyma hversu skemmtilegt er að keyra sportarann sem Hjalti sæti á. Svo er það Grikkland sem ég dýrka, vann þar þrjú sumur, og woo það er sko gaman, reyni að fara þangað á hverju ári. Já þetta er svona það helsta.

Menntaferill áður en nám við hagfræðiskor hófst?
Var í Hólabrekkuskóla og það var svo æðislegur skóli að ég vildi aldrei hætta í honum en fór svo í Verzlunarskóla Íslands og það var eins með hann, vildi aldrei hætta í honum en lauk þar svo stúdentsprófi á hagfræðibraut. Svo er ég komin í þennan yndisfagra skóla núna, og já, get ekki sagt það sama núna, en get sagt eitt, vil ekki hætta að fara í vísindaferðir, wooohoo.

Hversvegna valdir þú hagfræði?
Hmm, því ég var á hagfræðibraut í verzlo og fannst það bara rosa fínt, því ákvað ég bara að klára málið, svo finnst mér gegt gaman að reikna, I know, crazy!

Hvert er þitt uppáhalds fag í hagfræði og kennari ? Af hverju?
Ég mundi segja að það hafi verið Stærðfræði 2, og Marías sem kenndi það í fyrra. Ástæðan er nú einföld, fannst gaman í því fagi, skemmtileg dæmi o.fl. og stór ástæða þess var að ég var með góðan kennara og ég skildi hvað hann var að tala um og sofnaði ekki í neinum tíma, sem er gott;)

Hver er stefnan eftir grunnnám í hagfræði?
Vó nú er stórt spurt, fer bara allt eftir árangri mínum, kannski meistaranám í London eða blahblíhblúh..... Pass! Kemur í ljós þegar þar að kemur. Hef ekki hugmynd eins og er.

Leggur þú það í vana þinn að hámarka nyjar og lágmarka kostnað þegar þú mætir í vísó? Auddað maður, ef einhver gerir það ekki þá er hann ekki með allar sellur í lagi;) neee segji svona en já það er nú ein af aðalástæðum fyrir að maður mætir í vísó, eða skiluru eftir áhuganum að hlusta á fyrirlestrana, huhummmm *Sara ræskir sig*

Hvert er þitt lífsmottó?
Live like theres no tomorrow, love like you've never been hurt, dance like no one´s watching... and **** like you´re being filmed….. held að ekkert sé betra en þetta motto;)

Hvernig ferðu að því að vera alltaf í góðu skapi?
Jáhá, get svarað þessu með klisjunni: taka lífinu á léttu nótunum, láta ekki minnstu hlutina fara í taugarnar á þér og hugsa að þú hefur allt lífið framundan og því nógan tíma til að bæta þig..........og solleis, en já ég held samt að svarið sé bara að vera hamingjusamur.

Hvar verður þú eftir 10 ár?
Hugmynd 1:Komin með 3 börn, gift, og bý í höll á Arnarnesinu.... uhm nei held ekki en hver veit. Hugmynd 2: Bý í London, er í rosalega successful vinnu, með trúlofunarhring á hendinni, á 4 hunda og bý á herragarði.... uhh já rosa bjartsýn;) en nei maður á ekki að hugsa svona langt, ég veit hvar ég verð á næsta ári... enn hér í skólanum.... hugsa ekki lengra en það;)

Og að lokum: Hvort meturðu meira hákarl eða súrsaða hrútspunga?
AAAAAAAAA ekki spurja mig að svona, en já ég skal svara hákarl þar sem ég hef smakkað þann viðbjóð og veit um fólk sem finnst það algjört lostæti, en ojj ekki finnst mér það, get alveg lifað án þess að sjá annað eins það sem eftir er af lífinu. Ég kýs PIZZU,takk fyrir.

Viðtal tók: Anna Sigríður, formaður Ökonomiu.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Alfred Marshall

Alfred Marshall fæddist árið 1842 í London og voru foreldrar hans millistéttarfólk. Þau ætluðust til þess að hann gerðist prestur en Marshall streyttist gegn því og hélt til Cambridge til þess að leggja stund á stærðfræðinám og útskrifaðist hann þaðan árið 1865 með láði.
Marshall starfaði við skólann í ein 12 ár eða allt þar til hann giftist fyrrum nemanda sínum, Mary Paley, en þau áttu síðan eftir að starfa nokkuð saman. Í breskum skólum á þessum tíma máttu kennarar ekki giftast og þurfti Marshall því að gefa kennsluna upp á bátinn allt þar til að þessi siður var afnuminn. 1885 tók Marshall við prófessors­stöðu í Cambridge og gegndi henni allt þar til ársins 1908. Sá sem tók við stöðu Marshalls var einn besti nemandi hans, Pigou.
Þrátt fyrir að Marshall væri feikigóður stærðfræðingur þá var stærðfræðin ekki nema hjálpartæki hagfræðingsins að hans mati. Hann útskýrði flestar kenningar sínar með hjálp stærðfræðinnar en þó ekki nema í neðanmálsgreinum og viðaukum. Ástæðan var sú að hans sögn að hann vildi að fólk í viðskiptalífinu gæti skilið kenningar sínar.
Marshall var hógvær maður og taldi að hann væri eingöngu að útfæra kenningar sem hagfræðingar fyrri tíðar hefðu lagt grunn að. Honum hafa hins vegar verið eignaðar margar nýjungar innan hagfræðinnnar, þar á meðal að verð sé alltaf ákvarðað af framboði og eftirspurn, að munur sé á markaði til lengri og skemmri tíma, mikilvægi eftirspurnarferla, verðteygni eftir­spurnar, kenningin um neytenda- og framleiðenda­ábata og margt, margt fleira.
Marshall var 48 ára þegar hann gaf út merkustu bók sína og eina merkustu bók sem skrifuð hefur verið um hagfræði, Principles of Economics, árið 1890. Sú bók hélt nafni Marshalls hæst á lofti allra hagfræðinga Bretlands allt fram á fjórða áratug þessarar aldar. Hvorki fyrir né eftir útgáfu þessarar bókar gaf Marshall út rit sem merkileg þykja í dag. Enda hafði hann lagt gríðarmikla vinnu í gerð bókarinnar.
Marshall trúði statt og stöðugt á mikilvægi einkaréttarins og kosti markaðshagkerfis en því er hins vegar ekki að leyna að hann hafði samúð með verkalýðsfélögum og jafnvel sósíalisma að margra mati.
Eitt það mikilvægasta sem aðgreindi Marshall frá hagfræðingum hans tíðar og undangenginna ára var viðhorf hans til tækniframfara og annarra þátta sem áður voru taldir vera fastar óhagganlegar stærðir. Hann taldi að fæðuframboð, fólksfjölgun og tækniþróun væru þættir sem tækju breytingum með tíð og tíma.

Félag hagfræðinema

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Spekingaspjall #3

Agnar Freyr Helgason hefur nú bæst í hóp spekinga Ökonomiu. Agnar Freyr er fæddur 8. apríl 1982 klukkan 23.56. Agnar Freyr er aldrei kallaður neitt annað en Aggi (nema af aldraðri frænku sinni) og gremst honum það mikið að vera ekki eini Agginn í hagfræðinni enda einungis 286 Agnarar á öllu landinu. Hann hefur þó auðmjúklega gefið hagfræðinemum leyfi til að kalla sig Agga F. til aðgreiningar.
Aggi er ghettóbarn af lífsnáð og hefur búið í Breiðholtinu frá eins árs aldri. Hann hóf skólagöngu sína í Ölduselsskóla, þar sem hann náði þeim stórmerkilega árangri að verða fjórfaldur skólameistari í skák (þó ekki bjórskák...) og skellti sér svo í hinn mjög svo ágæta Menntaskóla við Hamrahlíð. Þaðan lá leiðin í véla- og iðnaðarverkfræði í HÍ í eitt ár, sem reyndist mjög góður undirbúningur undir hið mun skemmtilegra og meira krefjandi nám sem hagfræðin er.
Á myndinni má sjá Agga að tefla við Runóinn í bjórskák.

Gælunafn?
„Er nú yfirleitt kallaður því einfalda og augljósa gælunafni Aggi... ég hef hins vegar reynt mikið að koma Sódómu Reykjavíkur nafninu “Aggi Flinki” í notkun, en það virðist ekki ætla að bera árangur sem erfiði.
Heyrðu jú, síðan eru ennþá nokkrir hressir einstaklingar sem kalla mig Agnarögn – hvar man ekki eftir Agnarögn og Dindli úr Stundinni okkar! “


Hver eru þín helstu áhugamál?
„Áhugamálin eru mörg og margvísleg. Ég er forfallinn sófasportisti, mikill kvikmyndaspekúlant og er einstakur áhugamaður um góðan mat. Ég fylgist mikið með þjóðmálum og hef ríkulegar skoðanir á þeim og tek mikinn þátt hinum ýmsu félagsstörfum og sit meðal annars í Stúdentaráði þetta árið. Síðan reynir maður náttúrulega alltaf að fylgjast með gangi efnahagsmála... með misgóðum árangri þó. Eftir ævintýralega ferð til Eystrasaltslandanna í sumar er ég líka kominn með all verulega ferðabakteríu og er stefnan sett á að skoða króka og kima Austur-Evrópu næsta sumar, ásamt því að kíkja að sjálfsögðu í há hagfræðilega ferð með útskriftarhópnum“.

Hver finnst þér vera mest sexy kennarinn innan hagfræðiskorar?
„Gylfi Zoega hámarkar klárlega nytjafallið mitt“.

Hvaða vísindaferð haustannar fannst þér standa upp úr og af hverju?
„Af mörgum mjöööög góðum ferðum þá verð ég nú samt að segja að MP standi uppúr. Skotflaska, frelsisstyttan og gosbrunnurinn... þarf að segja meira? “

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?
„Liggjandi við sundlaugabakkann á hótelinu mínu, nýbúinn að rústa Jóa Run í bjórskák“.

Hvert er þitt lífsmottó?
„Ég fékk einu sinni lyklakippu sem stóð á “I’m always right, don’t bother to fight” og tileinkaði ég mér þau orð lengi vel. Ég er hins vegar orðinn frekar óskeikull á þessum síðustu og verstu og er því í einhverskonar lífsmottó-eyðimerkurgöngu. Tillögur eru vel þegnar“.

Af hverju í fjáranum valdiru hagfræði?
„Góð spurning... mjög góð spurning. Ég sé allavegana ekki eftir því, get sagt svo mikið!“

Vandræðalegasta augnablik í lífinu?
„Þegar ég læsti mig inn á klósetti á hverfisbensínstöðinni og þurfti að banka á hurðina til að fá afgreiðslumanninn til að hleypa mér út. Esso tapaði viðskiptum mínum í tvö ár eftir þetta“...

Og að lokum:
Elskaru einhvern það mikið að þú tímdir að fórna seinasta rólómolanum?
„Nei, enda væri það algjör óráðsía. Ég myndi kannski leyfa mömmu að hnusa af honum áður en ég gleypti hann í mig... bara kannski“.


Viðtal tók Helga Guðmundsdóttir, ljósmyndari Ökonomiu.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

John Maynard Keynes

Flestir, ef ekki allir sem einhverja hugmynd hafa um hagfræði, vita án efa hver hagfræðingurinn John Maynard Keynes er. Hann er líklega sá hagfræðingur sem einna mest hefur verið deilt um í sögu hagfræðinnar, en nútíma hagfræði byggir meðal annars á honum og hinum svokölluðu klassísku hagfræðingum.
John Maynard Keynes fæddist 5. Júní árið 1883. Faðir hans hét John Neville Keynes og var hann frægur rökfræðingur og skrifaði um aðferðafræði hagfræðinnar. Móðir hans hét Florence Ada Keynes og hafði hún einnig í mörgu að snúast. Oft hjálpaði hún atvinnulausum og var hún ein af þeim fyrstu til að setja á stofn vinnuskiptamarkað fyrir unglinga. John Maynard átti tvö systkini Geoffry og Margaret og var hann elstur þeirra. Heimili Keynes fjölskyldurnar var í Cambridge á Englandi og var það í Viktorískum stíl. Þrátt fyrir að Keynes hjónin hefðu alltaf mikið fyrir stafni, höfðu þau alltaf mestan áhuga á heimilinu. Faðir Maynards las Dickens fyrir fjölskylduna og Maynard las sjálfur ljóð fyrir systur sína. Fjölskyldan fór oft til London í þeim tilgangi að sjá leikrit og hafði John Maynard mikinn áhuga á þeim upp frá því.

John Maynard gekk í barnaskóla herra Goodchilds og framan af var ekki hægt að sjá að hann væri neinn snillingur, stundum var sagt að hann væri meira að segja kærulaus. En þess má þó geta að algengt var með gáfumenni eins og til dæmis Einstein, að á æskuárum bæri ekkert á þessum undraverðu hæfileikum. Þegar John Maynard var átta ára fór að bera á því að hann væri góður í reikningi og algebru og að hann hefði mikinn orðaforða. En í heildina gekk lærdómurinn hægt fyrir sig og veikindi settu strik í reikninginn. Það má sjá í skrifum hans til foreldra sinna að skólinn væri ákaflega erfiður fyrir hann og var það ekki fyrr en hann var ellefu ára að hann var fremstur í sínum bekk. Hann var síðar tólfti af tuttugu sem fengu styrk til að fara í Eton-skóla og var hann bestur í stærðfræði. Maynard hafði mikinn áhuga á klassískum bókmenntum, rökfræði, stærðfræði og leiklist en þess má geta að hann lék eitt sinn Hamlet. Síðar gekk Maynard í Kings-skóla í Cambridge. Einnig hafði Maynard áhuga á hagfræði og gerðist hann lærlingur hjá hinum fræga hagfræðingi Alfred Marshall. Marshall segir sjálfur að hann hafi verið afburðar nemandi og sagði hann að Maynard gæti ef til vill orðið hagfræðingur að atvinnu sem síðar kom í ljós að var auðvitað hárrétt.

Síðar meir fékk Keynes vinnu hjá „Indian Office“ en fékk fljótt leið á því og eyddi miklum tíma í að rannsaka líkindafræði. Árið 1911 gerðist Keynes aðstoðarritstjóri, „Economic Journal“ og var það allt til 1945. Árið 1913 gaf hann út rit um alþjóðafjármál sem fjallaði um gullmarkaðinn og hét það, „Indian Currency and Finance“. Keynes gekk í fjármálaráðuneytið 1915 vegna kunnáttu sinnar um peninga. Hann var síðan fjármálafulltrúi Breta á Versalaráðstefnunni en hann sagði sig reyndar úr því hlutverki og árið 1919 gagnrýndi hann skilmála sáttmála Versalafundsins í „The Economic Consequences of Peace“. Á þriðja áratugnum kenndi hann við Kings-skóla í Cambridge og árið 1925 giftist hann balltetdansmærinni Lydiu Lopokovu. Eftir giftinguna fór hann að einblína á hagfræðileg málefni og 1930 gaf hann út tveggja binda verk sem bar titilinn „Treatise on Money“. Það tók Keynes 5 ár að fullkomna verkið og er það í raun aðeins „kyrrmynd af hugmyndum hans á þeim tíma, en hann vildi sjálfur að bókin myndi setja saman æviverk sitt á sviði peninga.“ Ásamt því að skrifa „Treatise on Money“ skrifaði Keynes margt annað. „Essays in Persuasion“(1931) og „Essays in Biography“(1933).
Árið 1940 kom svo út bók sem hét „How to Pay for the War“. Hann var svo settur í embætti varaforseta Alþjóða bankans árið 1946. Enn hefur ekki eitt verk verið nefnt til sögunnar en það kom út árið 1936 og er hans frægasta bók. Hún heitir „The General Theory of Employment, Interest and Money“.

John Maynard Keynes var mikill bókasafnari og vinur rithöfunda og listamanna, enda var hann mikill listunnandi eins og áður hefur komið fram. Hann var heillandi maður sem lifði fjölbreytilegu og viðburðarríku lífi og þekkti fjöldan allan af frægu fólki. Keynes vissi sjálfur að hann var stórmenni og strax í æsku vissi hann að Keynes rímaði við „brains“. Um það leyti sem hann varð þrítugur gat hann fengið marga á sitt band með heillandi framkomu sinni. Keynes var mjög duglegur við að skrifa, eins og áður hefur komið fram, og það mætti segja að hann hafi aldrei hætt því. Hann sagði sjálfur að hann hefði skrifað um þúsund orð á dag en magn verka hans sýnir að hann hafi farið yfir þúsund orðin. Frá 1920-1930 hefur hann líklega skrifað eina grein á viku, eða þar um bil.

Áhugi Keynes á hagfræðikenningum var næstum eingöngu praktískur. Hann hafði lítinn áhuga á hreinum kenningum og einkenndi þetta ekki einungis hans eigin verk heldur einnig nemenda hans. Austin Robinson minnist Keynes sem kennara síns með þessum orðum: „[Við] lærðum dálítið öðruvísi hjá Keynes [en frá Robertson og Pigou]- það að við þyrftum að hugsa um heiminn- við þyrftum að bera umhyggju fyrir heiminum; það að ef við ætluðum að leiðrétta vandamál heimsins þyrftum við að gera það með einhverri ákveðinni grundvallar hugsun; ef við hugsuðum ekki um heiminn myndi enginn annar gera það“.

Kenning Keynes var bylting á sínum tíma og voru hugmyndir hans andstæða við það sem áður hafði komið fram, það er að segja kenningar klassísku hagfræðinganna. Það sem er einkennandi fyrir John Maynard Keynes er það að hann sagði að eftirspurn væri það sem máli skipti. Framboðið kæmi í kjölfar hennar, og að jafnvægi væri þegar heildarframleiðsla væri jöfn heildarútgjöldum. Hann sagði einnig að fjárfesting færi ekki aðeins eftir vaxtastiginu heldur einnig mörgum öðrum þáttum, svo sem sölu í dag, og framtíðarsölu, og að neysla færi eftir ráðstöfunartekjum. Enn fremur ályktaði Keynes, að peningastefna væri ekki leið til að leysa vandamál kreppu og atvinnuleysis, virk og skipulögð fjármálastefna væri nær lagi.
John Maynard Keynes var sextíu og þriggja ára þegar hann lést og átti hann í mörgu að snúast um ævina, eins og meðal annars er hægt að sjá á magni verka hans. Þrátt fyrir að menn séu ekki á sama máli um skoðanir hans og kenningar, geta samt allir verið sammála um það að hann var án efa einn merkilegasti hagfræðingur sögunnar.

Félag hagfræðinema

þriðjudagur, október 25, 2005

Spekingaspjall # 2

Spekingaspjallshornið náði í skottið á nýnemanum Örnu Varðardóttur. Arna er nýnemafulltrúinn okkar, full lífsorku og lagði götu undir fót er hún uppgötvaði heim hagfræðinnar.

Arna er fædd 18. júní 1984 í Reykjavík og er elst þriggja systra. Hún er ættuð að norðan og á sínum yngri árum var hún send norður í sveit svo hún yrði ekki algjört borgarbarn.
Arna ólst upp í Grafarvogi þar sem hún gekk í Foldaskóla. Þaðan lá leiðin í Verzló og útskrifaðist skvísan af stærðfræðibraut vorið 2004.
Eitthvað villtist Arna fyrsta árið sitt í H.Í. því hún ákvað að halda í heim Stærðfræðinnar. Sem betur fer áttaði hún sig á því að trítla yfir Suðurgötuna og sér klárlega ekki eftir því, þó svo það hafi verið erfitt að kveðja fólkið í Stærðfræðinni.

Hver eru þín helstu áhugamál?
„Mér finnst fátt jafn skemmtilegt og að vera í góðra vina hópi og elska hreinlega að fara út að skemmta mér með vinkonum mínum. Ég hef alltaf stundað einhverjar íþróttir og mér er það lífsnauðsynlegt að fá útrás með því að hreyfa mig, æfði listskauta og dans hér á árum áður en nú fer ég bara í Laugar. Ég hef einnig mikinn áhuga á stjórnmálum og hef alltaf verið frekar pólitísk í mér, svo hef ég auðvitað áhuga á því sem tengist náminu, elska að ferðast, bæði hér heima og erlendis, svo er ég líka algjör bókaormur“.

Hvert er þitt uppáhaldsfag og kennari í hagfræðinni? Af hverju?
„Uppáhaldsfagið er Þjóðhagfræði og Þorvaldur Gylfason er klárlega uppáhaldskennarinn. Þjóðhagfræðin er bara svo skemmtileg og full af áhugaverðum pælingum og Þorvaldur er svo lúmskt fyndinn að maður kemst ekki hjá því að njóta þess að hlusta á hann. Svo er líka mjög gaman að fylgjast með Tór í tímum þótt það sé ekki jafn gaman og að horfa á hann í ræktinni, hann tekur sig svo vel út á skíðavélinni!!!“

Hvernig finnst þér félagslífið í hagfræðinni vera?
„Hér er ofurhresst fólk sem hefur gaman af lífinu og gaman af að skemmta sér saman og útkoman getur því ekki annað en verið góð“

Ert þú þessi típa sem reiknar út fórnarkostnað þess að fara í bíó eða sitja heima og reikna rekstrarhagfræðidæmin?
„Ég hef nú þótt vera frekar hagfræðilega þenkjandi þegar kemur að ákvarðanatöku um hina ýmsu hluti en ég veit þó ekki hvort það gangi svo langt. Skemmtileg bíóferð í góðum félagsskap er náttúrulega ómetanleg og því er fórnarkostnaðurinn fljótur að hverfa í samanburði við það sem maður færi á mis við með því að sitja heima og reikna sig út í horn“.

Ef þú fengir tækifæri til að breyta einhverju varðandi kennslu í hagfræðinni, hverju myndir þú vilja breyta?
„Það væri nú stundum ágætt fyrir okkur sem búum austan Elliðaánna ef hægt væri að fylgjast með fyrirlestrum á netinu og komast þannig hjá því að sitja föst í umferðarþvögunni í hálftíma til þess að mæta kannski í einn tíma“.

Hvert er þitt lífsmóttó?
„Vá, ég á svo mörg, ég reyni að vera samkvæm sjálfri mér og tel mig vera mjög trausta og ábyrga og reyni að gera það vel sem ég tek mér fyrir hendur. Ég er vinur vina minna og finnst góðir vinir og fjölskylda vera það mikilvægasta í lífinu. Ég fylgi eigin sannfæringu og reyni að hafa gaman að lífinu, því það er það sem þetta snýst jú allt um! Svo reyni ég að hafa hugfast að það verður ekki bæði átt og út borið, sem er umorðun á því að við verðum að velja og hafna og höfðar því vel til hagfræðinga“.

Og að lokum: Hvort er það Þjóðarbókhlaðan eða Oddi?
„Þjóðarbókhlaðan, ekki spurning. Reyndar finnst mér best að læra heima“.

Nú fer klukkan að nálgast eitt sem þýðir bara eitt:
Tími hjá skíðavélamanninum Tór sem enginn vill missa af!!!!
Við þökkum Örnu kærlega fyrir spjallið og skilum ástarkveðjum til Tórs.


Viðtal tók: Helga Guðmundsdóttir, ljósmyndari Ökonomiu.