GUÐRÚN MARTEINSDÓTTIR , Kennsla
  09.51.30. Fiskalíffræði, 4e. (L). 3 misseri. 4f+5v.
Kennsla: Guðrún Marteinsdóttir, Sigurður Snorrason, Skúli Skúlasson.

Þróunarsaga og flokkunarfræði fiska. Bygging fiska og aðlögun þeirra að ytra umhverfi þar sem lögð verður áhersla á líkamsbyggingu, lögun og hreyfingu, blóðrás, öndun, seltujafnvægi, skynjun, fæðuöflunarfæri, meltingarfæri, kynkerfi, tímgun og atferli. Stofnar og stofngerð fiska. Fjölbreytileiki afbrigða- og tegundamyndun í fiskasamfélögum. Yfirlit yfir helstu ættbálka og tegundir fiska í vötnum, ám og sjó á norðurhveli jarðar. Verkleg kennsla er fjölbreytileg. Meðal þess sem kynnt verður eru aðferðir til að rannska og bera saman breytileika í útliti og lögun líkamshluta, vefjafræðilegar athuganir, helstu aðferðir til að greina á milli stofna og tegunda, og aðferðir við að rannsaka atferli fiska. Verkleg kennsla fer fram á rannsóknarstofum, fiskmörkuðum, tilraunaeldistöðvum og um borð í rannsóknarskipum. Hluti af kennslunni fer fram við Hólaskóla.

Námsbækur: P. B. Moyle og J. J. Cech. "Fishes: An introduction to Ichthyology" eða G. S. Helfman og félagar. "The Diversity of Fishes"

09.51.40. Fiskavistfræði, 4e. (L). 6 misseri. 4f + 5v.
Kennari: Guðrún Marteinsdóttir, prófessor.

Helstu þættir í lífsferlum fiska: Æxlun/hrygning, klak, afkoma ungviðis, útbreiðsla og rek seiða, botntaka og dánartíðni á fyrsta vetri, nýliðun, stofn/nýliðunarsambönd, vöxtur, kynþroski, fæðunám, val búsvæða, samspil tegunda m.a. með tilliti til samkeppni og afráns. Útbreiðsla, göngur, stonfstærðarbreytingar og helstu aðferðir til að meta þær. Yfirlit yfir helstu vistkerfi N.- Atlantshafsins með sérstöku tilliti til umhverfisþátta og breytilegrar afrakstursgetu. Yfirlit yfir gerð líkana er tengja saman umhverfisáhrif og mikilvæga þætti í lífsferlum fiska. Fiskveiðar við Ísland. Fiskveiðisagan - veiðarnar í dag. Yfirlit yfir helstu aðferðir við fiskveiðar. Verkleg kennsla verður mjög fjölbreytileg. Nemendur munu framkvæma tilraunir á rannsóknarstofum og í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunarinnar að Stað í Grindavík. Gögnum verður einnig safnað úr lönduðum afla á fiskmörkuðum og um borð í rannsóknarskipum á sjó. Fjallað verður um uppsetningar tilrauna og farið verður yfir helstu aðferðir við úrvinnslu á fiska- og fiskifræðilegum sýnum og gögnum.

Námsbækur: R. J. Wooton. Ecology of Teleost Fishes og annað efni skv. Ábendingum frá kennara.