Úr inngangi greinarinnar:

Rannsóknir á fölsuðum málverkum

SKÍRNIR vorhefti 2008, bls 121-132.

Á tíunda ártug liðinnar aldar vakti Ólafur Ingi Jónsson, forvörður hjá Morkinskinnu, nú hjá Listasafni Íslands, máls á því að sennilega væri allnokkur hluti verka þeirra, sem gengu kaupum og sölum á uppboðum, fölsuð, og jafnvel væri um skipulagða og umfangsmikla fölsun listaverka að ræða. Þrátt fyrir tortryggni yfirvalda og töluvert andstreymi lagði Ólafur Ingi fram kæru og í framhaldi af henni tók embætti Ríkislögreglustjóra málið til meðferðar.

Haustið 1997 fór embætti Ríkislögreglustjóra þess á leit við Listasafn Íslands að það veitti sérfræðiaðstoð í málverkafölsunarmáli sem væri til rannsóknar hjá embættinu. Ólafur Ingi hafði þá í umboði Listasafns Íslands lagt fram kæru vegna einnar vatnslitamyndar í eigu listasafnsins og hafði jafnframt kært vegna fleiri verka í umboði Listasafns Reykjavíkur og nokkurra einstaklinga og fyrirtækja.

Óskað var aðstoðar við rannsókn meintra falsaðra málverka og tillagna um hvaða aðferðum skyldi beitt við rannsóknina. Viktori Smára Sæmundssyni, þá forverði Listasafns Íslands, var falið að móta tillögur um hvernig rannsóknunum yrði best hagað. Eftir frumathuganir á allmörgum olíumálverkum taldi hann raunhæfast að beina rannsókninni einkum að bindiefnum málningarinnar, en hafa einnig til hliðsjónar litar- og fylliefni, gæfist þess kostur. Einnig var ákveðið að leita álits listfræðinga sem best hefðu kynnt sér verk þeirra listamanna sem myndirnar voru eignaðar.

Í framhaldi af athugunum Viktors Smára var haft samband við Raunvísindastofnun Háskólans, og var Sigurður Jakobsson fenginn til að annast efnafræðilegar greiningar á málningarsýnunum.

Alls urðu olíumálverkin sem til rannsóknar komu 56 að tölu og sýni sem athuguð og greind voru nálguðust þúsundið. Af þessum 56 verkum komu 38 verk til dóms í tveim dómsmálum sem báðum var skotið til Hæstaréttar.

Í fyrra málinu var ákærður dæmdur í héraði og Hæstarétti fyrir fjársvik og merkjabrot vegna þriggja málverka, en í seinna málinu voru tveir kærðir fyrir skjalafals og fjársvik vegna rösklega eitt hundrað verka. Þeir fengu dóm í héraði en voru sýknaðir fyrir Hæstarétti vegna aðkomu Viktors Smára Sæmundssonar að málinu.

Viktor Smári var þá starfsmaður Listasafns Íslands, en listasafnið var kærandi vegna tveggja verka. Hæstiréttur vísaði öllum álitsgerðum hans frá og „Gilti þá einu hvort um væri að ræða myndverk, sem listasafnið hafi lagt fram kæru um, eða verk sem því væru óviðkomandi. Var ekki talið að þau sönnunargögn, sem eftir stæðu, nægðu til þess að ákæruvaldið gæti talist hafa axlað þá sönnunarbyrði, sem á því hvíli.“

Enginn hefur enn verið kærður fyrir málverkafalsanir, og verk sem talin voru fölsuð voru að loknum málaferlum afhent eigendum, sem þess óskuðu, en heimild virðist skorta í lögum um förgun eða merkingu falsaðra listaverka.

Munaðarlaus verk eru í vörslu Listasafns Íslands.

________________