GREINASAFN
Mál- og ritþjálfun

Kristján Árnason

Landið, þjóðin, tungan - og fræðin

1. Fræði og 
stjórnmál
4. Tungur, trúarbrögð og bókmenntir
7. Hagnýt 
hreintungustefna
2. Hvað 
er þjóð?
5. Rétt mál 
og rangt
8. Staða tungunnar og málstefnan
3. Hvað er tunga?
6. Málvillur og vísindi
9. Lokaorð

Fræði og stjórnmál

Á síðum Skírnis og víðar hefur farið fram umræða um íslenskt þjóðerni og því verið haldið fram að grundvöllur þjóðríkisins sé brostinn.1 Og grunsemdir hafa vaknað um að á ferðinni sé það sem kalla mætti samsæri fræðimanna og stjórnmálamanna.2 Þjóðir, sem lengi hafa verið aðskildar með nokkuð ströngum landamærum, vinna nú náið saman í Evrópubandalaginu og meira frelsi ríkir í viðskiptum milli landa en áður var. Þessu aukna frelsi fylgir þörf fyrir endurskilgreiningu á fullveldi þjóða, og stjórnmálamenn taka því með velþóknun að fræðimenn veita þessari hugsýn fræðilega réttlætingu. Hér á landi, þar sem þjóðernishyggja hefur verið landlæg um aldir,3 hafa hugmyndir um yfirvofandi hrun þjóðríkisins valdið nokkrum úlfaþyt, sem eðlilegt má teljast.

Mörgum mun þykja nóg komið af þjóðernisumræðu, og að það sé að bera í bakkafullan læk að bæta þar nokkru við. En þar sem málefni íslenskrar tungu tengjast þjóðernisumræðunni þykir mér ástæða til að leggja orð í belg. Hin viðtekna skoðun hefur verið að tungan og menningin sé kjarni íslensks þjóðernis, en nú heyrast raddir sem segja að, að svo miklu leyti sem þjóðernisvitund sé vakandi með þjóðinni, þá vegi þar aðrir þættir þyngra, svo sem ást á landinu og náttúru þess4. Þótt menn geti lagt misjafnt mat á vægi tungunnar í sjálfskennd þjóðar eins og Íslendinga, hygg ég að varla verði um það deilt að málpólitík sé og verði veigamikill þáttur í stjórnmálum hér á landi, og raunar hvar sem er í heiminum. Og hér er vettvangur þar sem fræðimenn og stjórnmálamenn hljóta að bera saman bækur sínar. Þetta er meira að segja bundið í lögum um Íslenska málnefnd, því þar stendur að nefndin skuli "veita opinberum stofnunum og almenningi leiðbeiningar um málfarsleg efni á fræðilegum grundvelli". Tilgangur þessarar greinar er annars vegar að árétta mikilvægi tungunnar í stjórnmálum (íslenskum jafnt sem öðrum) og hins vegar að benda á það að samband stjórnmála og fræða sem þessu fylgir er mjög vandmeðfarið. Fræðimenn þurfa að gæta sérstakrar varúðar og misnota ekki fræðikenningarnar til framdráttar stjórnmálaskoðunum eða beinum hagsmunum.
 

Hvað er þjóð?

Sú skilgreining sem nefnd hefur verið í sagnfræðilegri umræðu um þjóðerni, og virðist í rauninni ósköp sjálfgefin, er að þjóð sé hópur manna sem kýs að fylkja liði undir þeim formerkjum sem hann gefur sér.5 Þjóð er því einhvers konar stækkaður klúbbur eða knattspyrnufélag, sem getur farið í stríð, ef hann á her. Menn hafa notað um þetta hugtakið "ímyndað samfélag". (E.t.v. má spyrja hvort samfélagið þjóð sé eitthvað frekar ímyndað en önnur félög sem menn skipa sér í). Þjóðfélög, eins og önnur félög þarfnast einhvers til að sameinast um, úr því að þau eru ekki fótboltafélög eða barnahjálparsamtök. Þau búa sér til enhvers konar markmið eða hugsjónir, hvort heldur það eru yfirráð yfir fiskimiðum eða ræktun andlegra dyggða. Og klúbburinn þarf að eignast fána, einhver konar sameiningartákn.

Misjafnt er hvað þjóðir nota sem sameiningartákn, og þær skilgreina sig á ýmsan hátt. Fyrir Íslendinga liggur beinna við að nota tunguna í þessum tilgangi en fyrir marga aðra. Íslenska hefur verið að heita má eina tungumálið sem notað hefur verið hér sem móðurmál, og við höfum verið svo til einir um hana. Vilji Íslendingar hlutgera sitt "ímyndaða samfélag", og gera sig að þjóð, safnast saman undir einhverjum fána, er tungan einna handhægust. Hér hefur menningararfurinn einnig gegnt mikilvægi hlutverki, allt frá tímum Arngríms lærða. En tungan og bókmenntirnar hafa ekki verið ein um hituna, því landið, sagan og náttúran hafa einnig verið talin móta íslenska þjóðernisvitund. Ég hygg að erfitt sé að vega og mæla slíka hluti, en íslensk náttúra með sérkennum sínum hefur auðvitað löngum verið nátengd ættjarðarást okkar og þjóðernisvitund. Til að sýna að tungumál eru ekki ein um hituna þegar að því kemur að sameina þjóðir, nægir að benda á að bæði eru til þjóðir án tungu og tungur án þjóðar. Tungur sem ekki eru þjóðtungur eru gelíska á Írlandi og í Skotlandi og katalónska á Spáni (raunar eru katalónar, að ég hygg, allt að því tilbúnir að kalla sig þjóð). Tungur sem eiga þjóðir en eru ósjálfstæðar í öðrum samfélögum eru t.a.m. franska í Belgíu, rússneska í Eistlandi, sænska í Finnlandi, finnska í Svíþjóð og spænska í Bandaríkjunum. Þeir sem vilja gera lítið úr vægi tungunnar í þjóðerninu benda á dæmi eins og þessi. Það eru líka til þjóðir sem ekki mynda sjálfstæð ríki. Samar í Skandinavíu vilja telja sig þjóð, þótt þeir eigi ekki sjálfstætt ríki. Einsleit þjóðríki, eins og Ísland hefur verið á þeirri öld sem er að líða, eru í rauninni undantekningar, því í flestum ríkjum eru fleiri en eitt tungumál notað sem móðurmál og í mörgum ríkjum eru fleiri en eitt opinbert mál.

Hugmyndir um land og misheilög landsréttindi geta auðvitað verið ríkur þáttur í að búa til klúbba, sem kalla sig þjóðir. Ísraelsmenn telja sig eiga heilög heimkynni, þótt þeir hafi farið á flakk. Og þetta á líka við okkur Íslendinga, því gera má ráð fyrir að við yrðum heimarík ef aðrir gerðu tilkall til landsins sem við búum á, og í hugum Vestur-Íslendinga skipar "gamla landið" háan sess jafnvel þótt þeir séu hættir að tala íslensku. En þjóðflutningar, eins og þegar germanar lögðu undir sig stóran hluta Evrópu, sýna líka að þjóðir eru ekki bundnar við land. Það er einmitt samruninn sem gerir þrenninguna, land, þjóð og tungu, sem Snorri Hjartarson talar um og svo oft er vitnað til.
 

Hvað er tunga?

Meðal þess sem stundum er notað til að vekja áhuga nemenda á málfræði og spurningum um eðli tungumáls er að leggja fyrir þau þá þraut að skilja á milli tungumáls og mállýsku. Hér duga skilgreingar illa, rétt eins og þegar skilgreina á þjóðarhugtakið nákvæmlega. En samt gera menn tilraunir, og ein hnyttin skilgreining er sú að tungumál sé mállýska með her. Augljóslega uppfyllir íslensk tunga þetta ekki í bókstaflegum skilningi, því Íslendingar eru vopnlaus þjóð (nema þá að herstöðin í Keflavík teljist slá borg um íslensku um leið og hún er mikilvægur útvörður enskunnar!). En í þessu felst það mikilvæga sannleikskorn að málaafbrigði sem þjóna sjálfstæðum ríkjum eru líklegri til að flokkast sem tungumál en málaafbriði sem ekki styðjast við neitt yfirvald. Hér er nærtækt að líta á skandínavísku málin, dönsku, sænsku og norsku. Frá hreinu málfræðilegu sjónarmiði eru þessi mál svo lík að margt mælir með því að líta á þau sem mállýskur af einni og sömu tungunni. Hin augljósa ástæða fyrir því að nú er talað um þrjár tungur á Skandínavíuskaganum er hins vegar sú að ríkin eru þrjú, og þau þurfa hvert sitt opinbera mál. Þau geta ekki verið þekkt fyrir að nota staðal hvers annars. Norðmenn lögðu áherslu á það, eftir að þeir hlutu sjálfstæði, að losa sig við dönskuna. Gallinn er sá að þeir höfðu engan sjálfstæðan innlendan staðal. Til að leysa þennan vanda var annars vegar lögð áhersla á að greina danska ritmálið í Noregi frá því sem tíðkaðist í Danmörku, og búa til svokallað bokmål, og hins vegar var búið til nýtt ritmál á grunni mállýsknanna sem talaðar voru vítt og  breitt um landið (landsmål); sá staðall sem þannig varð til kallast nýnorska. Niðurstaðan er sú að í Noregi eru tvö opinber mál.

Það sem þetta sýnir er að sjálfstætt ríki krefst opinbers staðals, og ástæða er til að huga að þessu lögmáli þegar menn ræða það hvaða pólitíska þýðingu tungan hefur. Ef hér, eða hvar sem er annars staðar, á að vera sjálfstætt ríki eða einhvers konar stjórnunareining þarf sú eining að hafa opinbert stjórnsýslumál. Spurningin er þá hvert það mál er. Ég geri ráð fyrir að fáum detti annað í hug en að það eigi að vera og verði íslenska. En hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér? Í lögum um loftferðir, sem Alþingi samþykkti fyrir skömmu, segir að reglur sem fylgja beri í flugi skuli vera á ensku eða íslensku "eftir því sem við á".

Skilgreiningin á hugtakinu "tungumál" tengist því stjórnmálum náið. Nýlegt dæmi sem nefna má eru þeir atburðir sem hafa verið að gerast á Balkanskaga við klofning Júgóslavíu. Þar hafa verið að myndast sjálfstæð ríki, og sérlega athyglisverður er aðskilnaður Serba og Króata. Þessar frændþjóðir greina sig hvor frá annarri á grundvelli trúarbragða og rithefðar en tala serbó-króatísku, sem málfræðilega er venjulega talið eitt tungumál. Þegar ríkin slitu samvistir og króatar urðu sjálfstæðir, var eitt að af því fyrsta sem þeir gerðu að hreinsa tungu sína af "serbismum", sem þeir nefndu svo, og á sama hátt hafa Serbar viljað losa sitt mál við "króatisma". Það er hluti af hinu pólitíska sjálfstæði að hafa sjálfstæða tungu, sem ekki þiggur neitt að láni frá annarri tungu. Þetta minnir auðvitað mjög á þann þátt í hreintungustefnu Íslendinga á 19. og 20. öld, sem sneri að því að hreinsa tunguna af dönskuslettum í tengslum við sjálfstæðisbaráttuna.

Annað nýlegt dæmi er það að meðal svartra Bandaríkjamanna hafa komið upp raddir um að gera þá ensku sem þeir tala að sérstöku tungumáli, ebonics, sem e.t.v. mætti kalla íbenholtsku (enn hreintungulegri þýðing væri svartviðarmál!) á íslensku. Mállýska blökkumanna í Bandaríkjunum hefur viss einkenni sem skilja hana frá annarri ensku sem þar er töluð, og munurinn er ekki meiri en svo að hingað til hefur mönnum þótt eðlilegt að tala um þetta sem enska mállýsku. En rétt eins og Norðmenn vildu að sú danska sem notuð var í Noregi yrði önnur en sú sem notuð var í Danmörku vilja sumir blökkumenn gera þessa mállýsku að sérstöku tungumáli. Þetta telja þeir að auki sjálfsvirðingu svartra og muni bæta stöðu þeirra, og betra sé að tala um mállýskuna sem sérstakt tungumál en sem ófínt afbrigði af ensku. Það sem bak við stendur í þessum dæmum er pólitík og þau sýna að stjórnmál geta haft áhrif á málsöguna, ekki síður en málsagan á stjórnmálasöguna, þótt þessi áhrif séu ekki alltaf jafn heppileg eða jákvæð.
 

Tungur, trúarbrögð og bókmenntir

En stjórnmál eru ekki einu samfélagsþættir sem hafa áhrif á málsöguna. Trúarbrögð og trúarstofnanir geta gengt svipuðu hlutverki og ríki. Hebreska er mál Gamla testamentsins, og hefur verið endurvakin sem opinbert mál í Ísrael, klassísk arabíska er málið á Kóraninum og kirkjuslavneska var fyrsta slavneska málið sem ritað var, þegar Biblían var þýdd. Notkun tungumáls með þessum hætti í trúarritum hefur svipuð áhrif og notkun þess sem opinbert ríkismál. Til verður staðall, eins konar fyrirmynd, eða viðmiðun, sem heldur saman samfélögum og hópum mállýskna sem miða sig við staðalinn. Það er jafnan talið hafa ráðið miklu um  íslenska málsögu að Biblían var þýdd á 16. öld. Í Noregi, þar sem þetta var ekki gert, varð þróunin önnur og ítök dönskunnar urðu mun meiri, eins og minnst hefur verið á.

Á ritöld hefur það að sjálfsögðu úrslitaþýðingu fyrir tungumál hvort það er yfirleitt ritmál eða ekki. Tungumál sem ekki er til á prenti má sín lítils sem staðall. Og e.t.v. má heimfæra þetta upp á nútímann og segja að tungumál sem ekki er til í upplýsingatæknimiðlum nútímans eigi ekki framtíð fyrir sér. Íslenska varð ritmál fyrr en margar aðrar Evróputungur, og samhengið í málþróuninni, hin mikla íhaldsemi og einsleitni miðað við frændtungurnar, á rætur að rekja til bókmenntanna fyrst og fremst. Þáttur fornbókbókmenntanna í mótun og viðhaldi íslenskrar tungu á síðari öldum verður seint ofmetinn. Mál fornbókmenntanna er fyrirmyndin að staðli íslensks nútímamáls. Hreintungustefnan sækir þangað innblástur sinn, og í rauninni má halda því fram með réttu að Snorri Sturluson og Halldór Kiljan Laxness hafi skrifað á sama tungumáli, þ.e. að samhengið í íslensku ritmáli sé óslitið en ekki markað af tímabilsskiptum eins og í ensku máli sem greinist í fornensku, miðensku og nútímaensku. Sá ritstaðall sem við búum við varð til á 12. og 13. öld, svo að íslenska er með elstu lifandi ritmálum heimsins.
 

Rétt mál og rangt

Þeir þættir sem hér hafa verið nefndir leiða til stöðlunar, en stöðlun fylgja hugmyndir um rétt mál og rangt, gott og miður gott. Lagatextar og opinber fyrirmæli eru "rétt" í einhverjum skilningi; trúartextar eru réttir, og bókmenntaformin skapa formúlur og staðla sem skáldin og lesendurnir ganga út frá. Þótt stöðlunaráhrif bókmenntanna séu e.t.v. ekki alveg jafnaugljós og áhrif lagatextanna, hafa þær eigi að síður mjög mikil áhrif. Bókmenntirnar skapa reglur og venjur sem fylgt er, eins og hinn íslenska sagnastíl, og þá ekki síður skáldskaparmálið og bragreglurnar.

En hugtökin rétt mál og rangt eru býsna margslungin. Í fyrsta lagi eru orðin rétt og rangt auðvitað afstæð í sjálfu sér. Forsendurnar ráða því hvaða útkoma telst rétt í hverju reikningsdæmi. Breytist forsendurnar, breytist hið rétta svar. Og þetta á við þegar gildin rétt og rangt eru notuð um mál og málaafbrigði ekki síður en aðra hluti. Það sem er rétt (eða viðeigandi) mál við þessar aðstæður, getur verið rangt við aðrar aðstæður. Það sem einum þykir fagurt þykir öðrum ljótt. Þetta gildir um hið smáa jafnt sem stóra í mannlegu máli.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að skilja á milli þess sem hinn almenni málnotandi telur, og þess sem fræðimenn og málræktarmenn hugsa um þetta atriði. Hinn almenni málnotandi lítur á málið sem staðal sem hann leggur sig eftir að fylgja. Fyrir hann er það málfar sem hann temur sér rétt, af þeirri einföldu ástæðu að hann velur sér það sem fyrirmynd. Það er því yfirleitt ekki hægt að hugsa sér boðskipti með tungumáli án þess að til séu einhvers konar reglur sem segja til um rétta eða ranga málnotkun.

Fræðimenn velta fyrri sér reglum málsins frá öðru sjónarmiði en málnotandinn sjálfur. Þeir leitast við að skýra eðli reglnanna og skilja hvernig á því stendur að þær eru svona eða hinsegin. Í seinni tíma málfræði er stundum gerður greinarmunur á málkerfislega tækum og ótækum formum. Sá mælikvarði sem málfræðingar nota er að því leyti hlutlausari en dómar málhafanna um hvað sé rétt og rangt, að málfræðingarnir reyna að losa sig við eigin fordóma sem málnotendur (ef þeir rannsaka móðurmáls sitt) og byggja á dómum "óspilltra" málhafa um það hvað sé tækt eða ótækt og fylgi reglum málsins. En það sem telst tækt eða ótækt í þessum prófum byggist á dómum málhafa um það hvað sé viðeigandi og hvað ekki. Í þessum tilraunum líta sumir á málið sem sálfræðilegt fyrirbrigði og spyrja hvernig einstaklingarnir nái valdi á því flókna kerfi sem tungumálin búa yfir. Aðrir horfa meira til henna félagslegu þátta. Hvernig mótast reglur tungumála, og hvað er það sem skilur á milli vel formaðra (félagslega viðurkenndra) segða og segða sem ekki fylgja reglunum?

Vinsæl hugmynd í nútímasálfræði, runninn frá Noam Chomsky, er sú að þegar málhafi dæmir setningar ótækar sé það af sálfræðilegum orsökum, vegna þess að þær brjóti í bága við sálfræðileg lögmál, sem annað hvort eru meðfædd eða málhafinn hefur mótað með sér þegar hann lærði málið. Hin leiðin er að líta á málið sem eins konar leikreglur um boðskipti. Félagslegar aðstæður ráða því hvað telst rétt eða rangt, gott eða vont mál. Allt mál er venja, og málvenjur geta verið breytilegar, þannig að einn er vanur að segja þetta en annar tekur öðru vísi til orða. Íslensk tunga er sú málvenja sem tíðkast á Íslandi og hefur þau formlegu einkenni sem henni fylgja. Í málsamfélaginu verður til samkomulag um það hver hin réttu form eru, hin góðu og miður góðu.

En mál, eins og aðrar reglur og siðir, hafa tilhneigingu til að breytast, og breytileiki er landlægur í tungumálum, svo sem eftir landssvæðum eða stéttum. Dæmi um þetta er munurinn á harðmæli og linmæli, og rödduðum og órödduðum framburði. Harðmæli og raddaður framburður einkenna norðlensku en linmæli og óraddaður framburður einkenna mál á öðrum svæðum, og á grundvelli breytileikans er hægt að flokka menn og þekkja í sundur. Málvenjurnar öðlast með öðrum orðum félagslega merkingu. Og mállýskurnar fá mismunandi stimpil og eru flokkaðar sem góðar eða vondar, jafnvel sjúklegar, og þá færist flokkunin yfir á málhafana. Sá sem talar svona tilheyrir þessum hópi manna og sá sem talar hinsegin tilheyrir öðrum hópi, og þá er orðið stutt í fordómana. Hér á landi hefur það að nota úfmælt r (segja fa-ga í stað fa-ra) verið kallað að skrolla eða vera gormæltur og þeir sem svo tala jafnvel taldir miður greindir en þeir sem nota tungubrodds-r.
 

Málvillur og vísindi

Hér á landi hafa hugmyndir manna um hvað sé rétt mál eða rangt, gott eða vont, mjög mótast af afstöðu til fornmálsins, eins og áður er minnst á. Allt sem kemur fyrir í texta sem er eldri en siðaskipti er gjarna talið rétt eða til fyrirmyndar. Einnig er rétt mál það sem góðskáldin kveða. Í þessu sambandi verða til hugmyndir um málvillurnar, en það eru málleg einkenni sem af einhverjum ástæðum hljóta sérstaka fordæmingu samfélagsins. Þágufallssýkin svonefnda er sú málvilla sem mest hefur verið vitnað til hér á landi. Það að segja mér langar frekar en mig langar er frá málfræðilegu sjónarmiði mjög smávægilegur munur á málvenju. Þessi munur er ekki stórvægilegri en það t.a.m. að sögnin þora tekur í máli sumra með sér andlag í þolfalli, þannig að sagt er: þora eitthvað, en í máli annarra tekur þessi sögn andlag í þágufalli: þora einhverju. Sá dómur hefur fallið að það að segja mér langar sé ljótt, og jafnvel sjúklegt, en hinn mállýskumunurinn er talinn meinlaus á hvorn veginn sem talað er.

Önnur málvenja sem sætt hefur svipuðum dómi og þágufallssýkin er flámælið svokallaða, sem var algengt víða um land á fyrri hluta 20. aldar. Þessi framburðarmállýska, sem er fólgin í því að sérhljóðin i og u fjarlægjast og taka að líkjast e og ö í framburði, var talin ljót og óæskileg, og barist var gegn henni á fimmta og sjötta áratugnum, meðal annars með sérstakri herferð í skólum, þar sem flámælt born voru leituð uppi og óskað eftir samþykki hjá foreldrum þeirra til að uppræta hjá þeim flámælið. Hvað svo sem segja má um þetta frá siðferðilegu sjónarmiði, þá er það samfélagið í heild, almenningsálitið, sem dæmir í þessarri sök. Það verða til um það dómar í samfélaginu hvað telst fagurt eða ljótt. Og einstaklingarnir eru vegnir og metnir eftir málfari sínu. Sá sem notar vont mál er ófínni, heimskari, eða jafnvel verri maður en sá sem notar gott mál. Sá sem er "ósýktur" af þágufallssýki getur leyft sér að líta niður á þann sem er "þágufallssjúkur".

Það er hins vegar nokkuð útbreiddur misskilningur, ekki síst meðal sumra fræðimanna, að málfordómarnir eigi eingöngu rætur að rekja til sjálfskipaðra málræktarpostula eða "málveirufræðinga", sem hafi það að atvinnu og séu til þess lærðir að skipa fólki fyrir um málfar og hræða það með smásmugulegri leit að málvillum. Málræktarpostularnir hafi með þessu móti, segja sumir, skapað málótta með þjóðinni, þannig að hún þori ekki að opna munninn. Vafalaust eru til málfræðingar sem gera sér mat úr þessum fordómum, og hafa sjálfsagt einhverjir tilhneigingu til að gera lítið úr hinum óbreytta málnotanda í krafti sérþekkingar sinnar. (Það þarf til dæmis talsverðan lærdóm, ekki síst kunnáttu í dönsku, til þess að þekkja margar dönskuslettur, og þeir sem eru fundvísastir á þær eru oft íslenskir fræðimenn sem starfað hafa í Danmörku.) En slíkt á ekki síður við þá fræðimenn sem þykjast sjá í gegnum íslenska málstefnu á hinn veginn og segja að hún sé uppspuni og tilbúningur sjálfsskipaðra málræktarpostula. Þeir sem taka þessa frjálslyndisstefnu segja sem svo að einstakllingurinn þurfi sem mest frelsi til að tjá sig, og opinber afskipti af því hvernig hann geriri það séu siðferðilega röng. Að sjálfsögðu er slík samúð með hinum óbreytta málhafa góðra gjalda verð, en hún er ekki fræðilega réttari en afstaða þeirra fræðimanna sem finna hjá sér hvöt til að berjast fyrir íhaldsemi og varðveislu íslenskrar tungu og menningarverðmæta.

Hægt er að halda því fram að hinn "fræðilegi" skilningur hinna mannúðarsinnuðu andpostula sé af nákvæmlega sömu rót og hinna, sem belgja sig út í krafti lærdóms til varnar tungunni, þ.e.a.s. þeir vilji sýna fram á að þeir og fræðigrein þeirra hafi eitthvað nýtilegt fram að færa. Hér má vitna í Gísla Pálsson, en hann ritaði árið 1979 í grein í Skírni sem oft er vitnað til.6 Í þessari grein gerði Gísli harða hríð að þeim sem hann kallar "málveirufræðinga" sem gengju með logandi ljósi um málsamfélagið í leit að málvillum. Yfirbragð umfjöllunarinnar er vísindalegt, og Gísli segir:

Gögnin sem fjallað er um, svo sem yfirlýsingar íslenskra málvísindamanna, eru athuguð í ljósi mannfræðilegrar vitneskju um tilurð goðsagna. (bls.173, leturbreytingar mínar)
Gísli segir að myndast hafi goðsögn um hreinleik íslenskrar tungu og jafnrétti þegnanna vegna lítils mállýskumunar og stéttamunar í málfari og heldur áfram:
Sérhver tilraun til að skerpa sýn manna á tengsl félagsstöðu og málfars í þjóðfélagi samtímans hefur [...] í för með sér tilfinningalegt og pólitískt umrót, ekki einungis á meðal íhaldssamra afla, sem leitast við að halda við þjóðsögunni um jafnréttið, heldur engu síður meðal þeirra hópa sem taldir eru aðhyllast róttækari þjóðfélagssýn. (bls. 179)
Gísli lét að því liggja að stéttamunur og kynjamunur í málfari væri meiri en menn hefðu viljað vera láta og taldi að málhreinsunarstefnan væri óæskileg. Þessu fylgdu þó litlar sem engar staðtölulegar sannanir í umræddri grein, og ekki hefur síðar verið sýnt fram á að málfar sé hér stéttbundið með þeim hætti sem þekkist (eða þekktist) með mörgum öðrum þjóðum, svo sem Bretum. Að sjálfsögðu er ekki ástæða til að ætla annað en einhver munur sé á málfari eftir félagslegum breytum (svo sem menntun, starfi, kyni) hér á landi sem annars staðar, enda styðja rannsóknir það að nokkru leyti.7 En enn sem komið er virðist félagsfræðileg flokkun íslensk samfélags í skýrt afmarkaðar stéttir varla nógu ljós til að hægt sé að meta sambandið milli slíkrar flokkunar og málfars. Meðan svo er verða fullyrðingar um að málfarslegur stéttarmunur sé meiri en aðrir telja jafn ósannaðar og "goðsögurnar" um hið gagnstæða.

Metingur fræðimanna, hvers undir merkjum sinnar fræðigreinar, án þess að sannað verði hver hefur rétt fyrir sér, er harla marklaus. Og í rauninni er mergur málsins sá að ekki er hægt að færa fræðileg rök sem sanna að eitt málfarslegt gildismat sé öðru betra eða að umburðarlyndi sé betra en fordómar. Málfarsleg íhaldssemi á nákvæmlega jafn mikinn rétt á sér og málfarslegt frjálslyndi gagnvart fræðunum. Fordómar um málfar eru dómar nágrannans, og málræktarpostular mættu sín lítils með sínar málvillur, ef þeir hefðu ekki stuðning af dómum samfélagsins. Og það er harla ólíklegt að hinum "frjálslyndu" andpostulum muni takast að útrýma málfordómum.
 

Hagnýt hreintungustefna

Á það var minnst að sjálfstæðisbarátta Íslendinga gegn Dönum hafi meðal annars komið fram í hreintungustefnu, sem beindist gegn dönskuslettum og bar að sjálfsögðu pólitískan svip. Flestir Íslendingar sem komnir eru á miðjan aldur eða meir hafa alist upp í ótta við dönskuslettur og forðast að nota orð sem virðast fengin að láni úr dönsku. Einnig var minnst á hreintungustefnu Serba og Króata, sem vilja losa mál sitt hvorir við "slettur" frá hinum. Hreintungustefna er margslungið fyrirbrigði og á henni eru fleiri hliðar en hér verða ræddar. Sú hlið, sem lýtur að því að losa tunguna við óhreinindi sem menga hana, getur auðvitað minnt á kynþáttastefnu, þar sem haldið er fram að sjálfur hreinleikinn sé hið eina rétta, og að slettur og tökuorð sé eins og óværa á hinum vel skapaða og hreinræktaða menningarlíkama. Þetta minnir á hugmyndir um æðri kynstofna sem ekki mega blandast óæðri kynstofnum. Hreintungustefna sem byggir einungis á þessum forsendum er mjög ógeðfelld í sinni ströngustu mynd, en sem betur fer sækir íslensk hreintungustefna ekki megininnblástur sinn í sjónarmið af þessu tagi, þótt slíkar athugasemdir hrjóti með. Hér má vitna í Guðmund Finnbogason í Skírni 1928,8 en hann segir að útlensk orð fari íslenskunni illa "fyrst og fremst fyrir þá sök, að hún er hrein - óblönduð öðrum málum. Þau [þ.e. útlensku orðin] valda ósamræmi".9 En neðar á sömu síðu segir hann að "þessi hreinleiki málsins [valdi] mestu um það, að íslenzkan er svo gagnsæ sem hún er fyrir hugsunina. Nálega hvert innlent orð á sér mörg frændsystkin í málinu, með sama ættarmóti, sama anda, svo að hvert bregður ljósi yfir annað og skýrir það.“ Vissulega má efast um að íslenskan sé betri til að hugsa á en t.a.m. enska. En ekki verður því þó á móti mælt að íslensk orðmyndun er oft gagnsærri en orðmyndun mála eins og dönsku og ensku, þar sem mikið er um tökuorð sem ekki greinast í  orðhluta sem koma fyrir í skyldum orðum. Þannig er orðið sjónvarp gagnsærra að orðmyndun en enska orðið television, þótt merking orðanna sé vætanlega jafnskýr í hvoru tungumáli um sig.

Hreintungustefna Íslendinga birtist meðal annars í þeirri áráttu að búa til orð með innlendu formi í stað þess að nota tökuorð um nýjungar í tækni og vísindum. Þegar menningarlegar, fræðilegar og tæknilegar nýjungar berast hingað til lands fylgir þeim orðaforði sem nauðsynlegt er að taka inn í málið, eigi á annað borð að fjalla um hlutina á íslensku. Þegar nýtt orð kemur inn í málið getur það gerst þannig að það er tekið úr láni úr öðru máli. Hér er um að ræða tökuorð eins og t.a.m. prestur og biskup. Önnur leið er að búa til nýtt orð á íslenskum grunni. Dæmi um þetta eru orð eins og útvarp og sjónvarp um radio og television. Enn önnur aðferð við að finna innlent orð um erlent hugtak er það þegar gömlu orði er gefin ný merking, svo sem þegar orðið skjár, sem upphaflega merkir gluggi, er notað um sjónvarps- eða tölvuskjá. Halldór Halldórsson talar um orð eins og útvarp sem nýgerð orð, en um nýmerkingar þegar orðið skjár fær nýja merkingu.10 Íslensk hreintungustefna á meðal annars rætur að rekja til þess að það er oft talinn betri kostur að smíða nýtt orð á grunni orða og orðhluta sem fyrir eru í málinu, eða ljá gömlu orði nýja merkingu, en að taka inn tökuorð. Eins og ég hef bent á á öðrum stað er það oft beinlínis hentugra og auðveldara, þegar ný orð eru tekin inn í málið, að smíða þau úr innlendum efniviði, heldur en að taka inn framandi orð, sem erfitt getur reynst að aðlaga íslensku beygingarkerfi, hljóðkerfi og rithætti.11 Það er ekki hlaupið að því að aðlaga orð eins og jet lag að íslenskri beygingu og rithætti, en sá vandi er úr sögunni ef notað er orð eins og flugþreyta.
 

Staða tungunnar og málstefnan

Ég hef nú lýst lauslega aðstæðunum sem hafa mótað hina íhaldsömu hreintungustefnu, sem verið hefur kjarninn í íslenskri málstefnu á 19. og 20. öld. Ég hef bent á að hún er nátengd stjórnmálasögunni, auk þess sem hún lýtur tilteknum félagslegum lögmálum, sem ekki verða svo auðveldlega umflúin, né hjá komist að horfast í augu við. Við þetta bætist að það er að mörgu leyti auðveldara að smíða nýtt orð með orðhlutum sem fyrir eru en að laga erlend tökuorð að íslensku rit- og beygingarkerfi. Í ljósi athugananna hér á undan vil ég ljúka þessu máli á nokkrum hugleiðingum um stöðu íslenskrar tungu í lok þessa árþúsunds og velta ögn fyrir mér þeirri spurningu hvort líklegt sé (eða æskilegt) að íslensk málstefna verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna.

Það er býsna algengt að menn lýsi yfir áhyggjum af stöðu tungunnar um þessar mundir (og raunar er þetta sífellt áhyggjuefni sumra). Mönnum verður starsýnt á ógnun ensku og engilsaxneskrar menningar og stöðugt er kvartað yfir því að málfar sé óvandað og að því fari aftur. Talað er um að nýjar kynslóðir séu óskrifandi og að sóðaskapur í fjölmiðlum, ekki síst ljósvakamiðlum, fari í vöxt. Enda þótt eitthvað af þessum barlóm megi flokkast undir allt að því lögmálsbundna svartsýni þeirra sem betur þykjast vita, um að allt sé á leiðinni til fjandans - og slíkar raddir eru fastur liður í samfélagsumræðu - verður ekki horft framhjá því að aðstæðurnar nú á dögum eru óvenjulegar. Breytingar eru örar, og ný tækni í fjölmiðlum og boðskiptum öllum skapar allt aðrar aðstæður en þær sem ríktu fyrr á öldinni.

Íhaldsmenn, og þeir sem lýsa yfir mestum áhyggjum, sækja innblástur sinn annars vegar í þessa innbyggðu svartsýni og hins vegar í þá grundvallarforsendu að íslensk málstefna eigi að vera íhaldsöm hreintungustefna, þ.e. sporna eigi gegn nýjum erlendum áhrifum á tunguna, og að allar breytingar frá hinum klassíska staðli séu neikvæðar, og að ný orð verði að fylgja formreglum þess, ef ekki á illa að fara. Að sjálfsögðu hefur hver sem er leyfi til þess að véfengja þessar forsendur, ef hann færir fyrir því gild rök. Og það getur verið fróðlegt að hyggja að röksemdum þeirra sem telja að málstefnan sé of íhaldsöm eða taugaveiklunin of mikil. Þetta eru þeir sem stundum hafa verið nefndir "reiðareksmenn" af hinum íhaldssamari, því þeim er borið á brýn að þeir vilji láta reka á reiðanum, í stað þess að hafa stjórn á siglingu hinnar fornu tungu í gegnum hættur nútímans.

Röksemdir reiðareksmanna gegn málflutningi íhaldsmannanna virðast vera tvenns konar. Annars vegar segja þeir sem svo að það eigi ekki að vera áhyggjuefni hvernig tungan þróast, þ.e. að opinber afskipti af málfari eða málefnum tungunnar séu röng (t.a.m. af siðferðilegum ástæðum, eins og þeim að aðgerðirnar skapi málótta hjá fólki og komi í veg fyrir að menn geti tjáð sig á eðlilegan hátt). Hin skoðunin er að það sé að vísu almennt séð ástæða til að fylgjast með framgangi tungunnar, og stundum geti verið þörf á að "grípa í taumana", en tungan sé svo öflug, að ekki sé ástæða til að gera það við þær aðstæður sem nú eru. Styrkur tungunnar sé nægur til að standa af sér hret eins og það sem nú geisar.

Eðli málsins samkvæmt eru þessir hlutir matsatriði, og sú stefna sem verður ofan á byggist á því mati sem samfélagið eða stjórnvöld leggja á stöðuna hverju sinni. Sem dæmi um frjálslynda málstefnu sem byggist á því að hafa sem minnst afskipti af daglegu máli og leyfa "þúsund blómum að blómstra" er dönsk málstefna, og er fróðlegt að skoða hana örlítið nánar. Stjórnsýsluleg skipun málræktar í Danmörku er reyndar svipuð og sú skipun sem við þekkjum hérlendis. Lögin um Íslenska málnefnd eru að verulegu leyti sniðin  eftir lögum um Danska málnefnd og nefndirnar eru líkt settar í stjórnkerfinu. Báðar nefndir hafa sterka stöðu og eru stjórnvöldum til ráðuneytis, og nýleg löggjöf í Danmörku um skipan stafsetningarmála styrkir stöðu málnefndarinnar sem stjórnvalds frekar en áður var. Inntak danskrar málstefnu hefur hins vegar verið talsvert ólíkt inntaki íslenskrar málstefnu. Margir danskir málræktarmenn hafa talið strangar og íhaldsamar reglur um gott og vont mál eigi ekki rétt á sér, heldur eigig að ríkja frelsi, svo að einstaklingarnir fái að tjá sig að þeirra eigin smekk, lausir við þann málótta sem sumir halda fram að fylgi íhaldssamri stefnu eins og þeirri íslensku. Reyndar má benda á að þótt þetta sé stefna sumra þeirra sem mestu hafa ráðið í Danskri málnefnd, og frjálslyndi í þessum efnum sé mörgum Dönum í "blóð borið", hafa heyrst raddir meðal almennings sem heimta meira aðhald og íhaldssemi, og um það hafa verið  stofnuð félög. (Raunar virðast stóraukin ensk áhrif á seinni árum hafa haft þau áhrif að kröfur um meira aðhald hafa orðið háværari innan málnefndarinnar sjálfrar).

Svo vikið sé að hinni íhaldsömu íslensku málstefnu, þá er matsatriði nú (raunar er þetta stöðugt matratriði), hvort henni skuli haldið fram    óbreyttri. Sem dæmi um hin eilífu álitamál má hér nefna allskemmtilega ritdeilu sem fram fór í Tímariti Máls og menningar árið 1997 milli Ólafs Halldórssonar og Böðvars Guðmundssonar.12 Sá fyrrnefndi amast við dönskuslettum í bókmenntaviðtali, en sá síðarnefndi ber Ólafi á brýn að vera mállögreglumaður og finnur hreintungustefnunni ýmislegt til foráttu. Böðvar vill taka danska málstefnu til fyrirmyndar, að því er virðist. Meðal þess sem hann nefnir er að nýyrðasmíð leiði til þess að orð verði allt of löng, og að nær sé að  stytta þau. Hann heldur því fram að "rassmiklar fallendingar íslenskunnar séu til engra bóta, enda [séum] við löngu hætt að treysta þeim og grípum meir og meir til forsetninga ásamt fallendingum, erum bæði með belti og axlarbönd, eins og Danir segja". Hann telur að orð séu því betri sem þau eru styttri og mælir með fegrandi hljóðbreytingum og styttingum. Hér er Böðvar Guðmundsson í hlutverki "reiðareksmannsins" og Ólafur Halldórsson í hlutverki "málveirufræðingsins".

Þegar á heildina er litið sýnist mér að þrátt fyrir ýmsar upphrópanir um frjálslyndi, ekki síst meðal fræðimanna og menntamanna, hafi hér ríkt samstaða um grundvallaratriði, hreintungustefnuna og íhaldssemina sem henni fylgir, og spurningin er þá hvort ástæða sé til að breyta þessari grundvallarstefnu, t.a.m. í þjósi þeirrar alþjóðahyggju sem virðist ríkjandi. Að vísu eru þeir til sem telja það óþarfa fyrirhöfn t.a.m. að þýða tölvuforrit, og tímaeyðslu og kostnaðarauka að setja íslenskt tal eða texta við erlent sjónvarpsefni og kvikmyndir. Spurningin er hvort þessi tregða innflytjenda (af ótta við að gera varninginn dýrari eða missa spón úr aski sínum) verður til að þess að meira og meira af íslensku mannlífi fer fram á ensku. Og þá vakna kannski spurningar um hvort það eru hömlur á viðskiptafrelsi að krefjast þess að efni ljóvakamiðla sé á íslensku eða að þessir miðlar styrki íslenska menningu. Einnig er hugsanlegt að það færist í vöxt að einstaklingar telji hagkvæmara að veðja á alþjóðatungumálið ensku, og leggi þess vegna lítið upp úr því að tryggja að afkomendur þeirra læri góða íslensku. Enn sem komið er eru þessar raddir þó ekki háværar, að því er virðist. Að minnsta kosti hafa stjórnmálamenn enn ekki tekið undir slíkan málflutning.
 

Lokaorð

Tungumál er grundvöllur mannlegra samskipta og menningarlífs í víðum skilningi. Nútímasamfélag krefst miðils til umræðna og stjórnunar. Stöðlun er óhjákvæmilegur fylgifiskur þessa. Þetta krefst opinbers máls, opinberrar stafsetningar, og óhjákvæmilegt er að þessu fylgi hugmyndir um rétt mál og rangt, og þá verða málvillurnar til. Þær eru næstum að segja óhjákvæmilegir fylgifiskar menningarsamfélaga.

Aukin samskipti við erlendar þjóðir og meiri notkun erlendra tungumála, ekki síst ensku, vekja alvarlegar spurningar um stöðu íslenskrar tungu. Hugsanlegt er að hlutur íslensku í daglegu lífi minnki, og að hluti íslensks mannlífs fari fram á öðru tungumáli en íslensku. Og af "hagkvæmnisástæðum" gæti það orðið ofan á að stjórnsýslan og hluti atvinnulífs og menntakerfis fari fram á öðru máli, væntanlega ensku, og ekki er gott að segja hvern enda það tæki á tímum meiri og meiri alþjóðahyggju. Reynslan sýnir hins vegar að menningarleg þjóðernishyggja er býsna lífsseig, og það getur kostað blóðug stríð að murka lífið úr þjóðarbrotum sem ekki hlýða hinu alþjóðlega kalli. Og í rauninni er ekki margt sem bendir til þess, enn sem komið er, að íslenskan fari sömu leið og keltnesku málin, bretónska, velska og gelíska, og dæmin frá Júgóslavíu sýna að tungumál og aðrir siðir sem því tengjast náið eru áhrifamiklir þættir í stjórnmálum.

Ég vil árétta sérstaklega í lokin, að vafasamt getur verið að taka of mikið mark á fullyrðingum fræðimanna um það að íslensk málstefna sé fræðilega röng. Málstefna er pólitík og byggist á því á hagsmunum og hugsjónum en ekki fræðilegum niðurstöðum. Í rauninni ber ekkert frekar að taka mark á fullyrðingum fræðimanna um það að íslensks málstefna sé of íhaldsöm, en þeim fræðimönnum eða öðrum sem setja sig á háan hest í krafti þekkingar um málsögu eða bókmenntum og gerast dómarar yfir öðrum um rétt mál eða rangt. Þetta hvort tveggja, fræðilega ígrundað frjálslyndi eða fræðilega ígrunduð málveirufræði, eins og það hefur verið kallað í háðungarskyni, eru af sömu rót, þ.e. tilhneiging þess sem þykist vita betur. Hin sanna fræðimennska er hlutlaus og gerir ekki upp á milli niðurstaðna á grundvelli hagmuna fræðimannsins eða þeirra sem greiða honum laun. Og ekki er hægt að reikna út eftir fræðilegum formúlum hina einu réttu málstefnu fyrir Íslendinga. Málstefna er miðlægur þáttur í íslenskri pólitík, ekki síst utanríkispólitík og þjóðréttarpólitík, þ.e. um samskipti landa og sjálfstæði. Hvort sem þjóðríkið er dautt eða lifandi verða Íslendingar að gera það upp við sig hvort þeir ætla að halda þeirri stefnu sem fram að þessu hefur verið óumdeild, að íslensk tunga, íslensk menning og íslensk stjórnsýsla tengist saman á þann hátt sem var á þeirri öld sem nú er að líða.

Önnur spurning sem hafa verður í huga er hversu traust tengslin verða við eldri málstig. Hversu lengi verður hægt að halda því fram með sanni að hvert mannsbarn á Íslandi, sem á annað borð er læst, geti lesið fornsögurnar sér til ánægju, eins og stendur í ferðamannabæklingunum? Hugsanlegt er að Böðvari Guðmundssyni verði að ósk sinni áður en varir, því framburður sem gæfi nafni hans myndina Bör Gumsson er algengur meðal ungmenna og gæti orðið ofan á með allra næstu kynslóðum, sérstaklega ef framburðurinn hefur ekki stuðning af stöðluðu ritmáli.
 
 

Neðanmálsgreinar

1 Sbr. Ummæli Guðmundar Hálfdánarsonar í Vikublaðinu, 5. nóvember 1993 sem Þórarinn Hjartarson hefur eftir honum í Skírni 173 (vor 1999) bls. 192.
2 Sbr. Þórarinn Hjartarson: "Endurskoðuð endurskoðun. Bændastéttin og þjóðernishyggja á tímum hnattvæðingar". Skírnir 173 (vor 1999), bls. 187-208.
3 Sbr. t.a.m. Ragnheiði Kristjánsdóttur: "Rætur íslenskrar þjóðernisstefnu". Saga XXXIV (1996), bls. 131-75 og Gunnar Karlsson: "Íslensk þjóðernisvitund á óþjóðlegum öldum". Skírnir 173 (vor 1999), bls. 141-78.
4 Sbr. viðtal við Guðmund Hálfdánarson í Morgunblaðinu, 22. september 1996.
5 Guðmundur Hálfdánarson: "Hvað gerir Íslendinga að þjóð?". Skírnir 170 (vor 1996), bls. 7-31.
6 Sbr. Gísla Pálsson: "Vont mál og vond málfræði". Skírnir 153 (1979), bls. 175-201.
7 Sbr. Ástu Svavarsdóttur, Gísla Pálsson og Þórólf Þórlindsson: "Fall er fararheill. Um fallnotkun með ópersónulegum sögnum". Íslenskt mál 6 (1984), bls. 33-55.
8 Guðmundur Finnbogason. "Hreint mál". Skírnir 102 (1928), bls. 145-55.
9 Tilvitnað rit, bls. 148.
10 Halldór Halldórsson (ritstj.): Þættir um íslenskt mál eftir nokkra íslenska málfræðinga. Almenna bókafélagið. Reykjavík 1964, bls. 110-11.
11 Kristján Árnason: "Eru Íslendingar að verða tvítyngdir?". Málfregnir 13 (1997), bls. 14-15.
12 Ólafur Halldórsson: "Íslenska með útlendu kryddi". Tímarit Máls og menningar 2 (1997), bls. 94-98; Böðvar Guðmundsson: "Gamanbréf til góðkunningja míns Ólafs Halldórssonar". Tímarit Máls og menningar 3 (1997), bls. 94-106; Ólafur Halldórsson: "Lítið svar við löngu bréfi". Tímarit Máls og menningar 4 (1997), bls. 107-11.

(Kristján Árnason. 1999. Landið, þjóðin, tungan - og fræðin. Skírnir 173: 449-466.)


© 2002 Guðmundur Sæmundsson, BláSkógar ehf
Vefhönnun: Guðmundur Sæmundsson, gsaem@ismennt.is