Leiðrétting?
Tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu húsnæðisskulda heimilanna
vekja áleitnar spurningar.
Skoðum verklagið fyrst. Ríkisstjórnin felur einkafyrirtæki, Analytica,
að meta áhrif fyrirhugaðrar leiðréttingar. Með því er ríkisstjórnin í
reyndinni að lýsa því yfir, að hún vantreysti stjórnkerfi ríkisins.
Ríkisstjórnin hefði getað aflað tillögum sínum trausts með því t.d. að
leggja strax fram umsögn AGS, sem hefur lagt drjúgan skerf til
hagstjórnarinnar frá hruni auk lánsfjár, eða umsagnir annarra óháðra
sérfræðinga, en ríkisstjórnin virðist ekki heldur treysta AGS eða óháðum
sérfræðingum. Það er ekki traustvekjandi verklag. |
Ekki er annað að sjá en að 80 milljarðar króna lendi á skattgreiðendum
næstu fjögur ár, þar eð ekkert segir í tillögunum um fjármögnun lækkunar
höfuðstóls húsnæðislána um þessa 80 milljarða, þ.e. 20 milljarða á ári
2014-2017. Þessir 80 milljarðar hljóta að þurfa að skila sér til
heimilanna með auknum niðurskurði ríkisútgjalda, aukinni skattheimtu eða
aukinni skuldsetningu ríkisins, og er þó ekki á neitt af því bætandi
eins og sakir standa.
Því vekur eftirtekt, að í skýrslu Analytica stendur:
„Skv. tillögum sérfræðingahópsins er gert ráð fyrir að
skuldaleiðréttingarhluti aðgerðanna verði ekki fjármagnaður með
peningaprentun og að ekki myndist halli á ríkissjóði beinlínis vegna
þessara aðgerða. Hins vegar verður ríkissjóður af framtíðartekjum af
úttekt séreignarsparnaðar sem nú rennur til höfuðstólslækkunar lána.
Ekki er gert ráð fyrir að til þurfi að koma ríkisábyrgð eða sérstök
skuldsetning ríkissjóðs vegna aðgerðanna.“ |
Þessar forsendur Analytica fá ekki staðizt, hvort sem 80 milljarðarnir
skila sér eða ekki utan úr heimi, t.d. frá erlendum vogunarsjóðum í
gegnum þrotabú bankanna í samræmi við kosningaloforð Framsóknar í vor
leið, en um það er þó ekkert sagt í gögnum málsins.
Analytica virðist sjást yfir það lykilatriði, að fjármögnun ríkissjóðs
gegnum þrotabú bankanna er tæknilega ígildi peningaprentunar af hálfu
Seðlabanka Íslands og því ávísun á aukna verðbólgu og viðskiptahalla
eins og Gunnar Tómasson hagfræðingur hefur ítrekað bent á.
Mat Analytica á áhrifum leiðréttingarinnar (engin teljandi áhrif á
verðbólgu, gengi o.s.frv.) er því ekki trúverðugt. Fróðlegt væri að sjá
mat AGS á þessum atriðum – og ekki vanþörf á, úr því að Þjóðhagsstofnun
var lögð niður fyrir meira en áratug.
|
Kynningu á tillögum ríkisstjórnarinnar fylgir óljóst tal um
skattlagningu bankanna. Þetta tal er ábyrgðarlaust, úr því að
ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram neinar tillögur um framtíðarskipan
bankamálanna. Bankarnir standa í rauninni á brauðfótum vegna afskrifta,
vanskila og lögbrota á liðinni tíð, en þeir græða samt sem stendur á tá
og fingri, þar eð þeir þurfa ekki nú frekar en endranær að sæta erlendri
samkeppni. Þeir græða með gamla laginu, þ.e. á kostnað viðskiptavina
sinna með því að greiða innstæðueigendum hverfandi vexti og taka háa
vexti af útlánum undir verndarvæng ríkisins. Bankaskattur er því að
óbreyttu fyrirkomulagi bankamálanna skattur á venjulegt fólk og
fyrirtæki í innlyksa viðskiptum við bankana.
|
Að hluta snýst fyrirhuguð leiðrétting um að leyfa skuldugum heimilum að
létta á skuldum sínum í þrjú ár með því að greiða þær niður frekar en að
byggja upp séreignarsparnað. Þennan hluta leiðréttingarinnar þurfa
heimilin sjálf að bera, þar eð þau munu þá eiga minni lífeyri en ella
þegar fram í sækir. Þessu fylgir þó svolítil meðgjöf frá ríkinu að því
leyti, að væri séreignarsparnaðurinn leystur út jafnharðan til annarra
nota, þyrfti skv. lögum að greiða af honum tekjuskatt. Ríkið verður því
af skatttekjum sem þessu nemur í framtíðinni, og bilið þarf að brúa með
nýrri skattheimtu, skuldasöfnun eða niðurskurði útgjalda. Umfang þess
hluta fjármögnunarinnar er ekki auðvelt að meta löngu fyrir fram. |
Ríkisstjórnin hefði getað reynt að afla trausts á tillögum sínum með því
að leggja einnig fram tillögur um framtíðarskipan bankamála,
verðtryggingar, afnám gjaldeyrishafta o.fl., svo að fólkið og fyrirtækin
í landinu þyrftu ekki að óttast, að allt sæki aftur fljótlega í gamla
farið. Engum slíkum tillögum er þó til að dreifa. Enn hallar mjög á
lántakendur í bankaviðskiptum. Þessa slagsíðu þarf að leiðrétta án
frekari tafar eins og m.a. Lýðræðisvaktin lagði til fyrir kosningar. Sé
það ekki gert, getur aukin verðbólga með óbreyttri verðtryggingu á
skömmum tíma étið upp allan hugsanlegan ávinning heimilanna af
fyrirhugaðri leiðréttingu, komi hún til framkvæmda fyrir tilstuðlan
Alþingis án nauðsynlegra viðbótarráðstafana. Fari svo, mun leiðréttingin
reynast skammgóður vermir. |