Háreistar hallir
Hvers var að vænta fyrir 40 árum af örlitlu eyðimerkurlandi, lítilli
spildu, þar sem aðeins 25 karlar höfðu lokið háskólanámi? – og engar
konur. Varla mikils. En nú er öldin önnur í Dúbaí og öðrum borgum við
sunnanverðan Persaflóa. Þar ber nú háreistar hallir úr marmara, stáli og
gleri við heiðbláan himininn líkt og í Singapúr og Sjanghæ. Dúbaí státar
af hæsta húsi heims, Burj Khalifa, sem er 163 hæðir borið saman við 103
hæðir í Empire State byggingunni á miðri Manhattan. Úr Burj Khalifa er
innangengt í iðandi mannhafið í stærstu verzlunarmiðstöð heims. Aðeins
sjöttungur íbúa í Dúbaí, sem eru um tvær milljónir talsins, er
innfæddur. Hinir fimm af hverjum sex heimsækja landið nokkur ár í senn,
einkum frá Indlandi, Pakistan og Bangladess. Innfæddir hugsa sem svo:
Hví skyldum við vinna verkin, ef við getum fengið aðra til þess gegn
vægu gjaldi? Hugsunarháttur Evrópumanna leiðir yfirleitt til annarrar
niðurstöðu: Hví skyldum við greiða öðrum fyrir að gera það, sem við
getum gert sjálf? |
Dúbaí er borgríki, ekki olíuland, eitt sjö ríkja í Sameinuðu
furstadæmunum. Annað ríki í sambandinu er olíulandið Abú Dabí, næsti bær
við, en hin sambandsríkin fimm þekkja fáir í okkar heimshluta með nafni.
Séu Sameinuðu furstadæmin skoðuð sem ein heild, stendur olíuframleiðsla
á bak við fjórðung af landsframleiðslu, þrjá fjórðu hluta
gjaldeyristekna og fjóra fimmtu hluta tekna ríkisins, sem veitir 85% af
mannaflanum vinnu.
Aðeins Katar, Singapúr og Noregur bjóða þegnum sínum meiri tekjur á mann
en Sameinuðu furstadæmin. Næst á eftir þeim koma Sviss, Hong Kong,
Bandaríkin og Sádi-Arabía skv. nýjum tölum Alþjóðabankans. Þar næst koma
Svíþjóð, Þýzkaland og Danmörk. Átta efstu sæti listans skipa sem sagt
fjögur olíulönd (Katar, Noregur, Sameinuðu furstadæmin og Sádi-Arabía)
og þrjú önnur lönd gersneydd olíu og öðrum náttúruauðlindum (borgríkin
Singapúr og Hong Kong og einnig Sviss) auk Bandaríkjanna. Þessi
upptalning minnir okkur á, að náttúruauðlindir eru ekki upphaf og endir
alls efnahagslífs. Listinn að framan kann að breytast vegna mikillar
lækkunar olíuverðs að undanförnu.
Lykillinn að lífskjarabyltingunni í
Dúbaí er hinn sami og í Singapúr og Hong Kong: borgarlíf, verzlun og
viðskipti, ekki bara við nálæg olíulönd, heldur við heiminn eins og hann
leggur sig. Sviss og Bandaríkin hafa þá sérstöðu í hátekjuhópnum að gera
hvorki út á auðlindir né þéttbýli. |
Fólkið í Dúbaí er að jafnaði ríkara en íbúar Sameinuðu furstadæmanna í heild mælt í tekjum á mann alveg eins og París er ríkari en Frakkland og Sjanghæ er ríkari en Kína. Borgir eru yfirleitt hagkvæmar rekstrareiningar. Þéttbýli borgar sig. Borgríki þurfa ekki að bera kostnað, sem fylgir ýmsum smárekstri í dreifðum byggðum. Þetta er ein höfuðskýringin á þeim umskiptum, sem hafa átt sér stað í Dúbaí og Abú Dabí. Í eyðimerkurlandi, þar sem aðeins 25 karlar höfðu lokið háskólanámi um 1970, vafra nú níu af hverjum tíu um netið að staðaldri, næstum jafnhátt hlutfall og hér heima. Yfirvöldin sjá að vísu til þess, að tölvunotendur komast ekki hvert sem er á netinu, enda er lýðræði verulega ábótavant einnig að öðru leyti ekki bara í Sameinuðu furstadæmunum, heldur í Arabaheiminum öllum. | Arabar hafa margir næman skilning á nauðsyn þess að auka fjölbreytni í
efnahagslífinu og gera ekki einungis út á olíu, þar eð það er of áhættusamt.
Hygginn maður setur ekki eggin sín öll í eina körfu. Því leggja stjórnvöld kapp
á að umbreyta náttúruauðnum í mannauð með því m.a. að efla menntun. Ekki er til
að dreifa að sama skapi næmum skilningi á gildi þess að efla fjölræði í
stjórnmálum og leyfa ólíkum sjónarmiðum að keppa um hylli kjósenda frekar en að
láta fámennum hópi eftir öll völd. Rökin fyrir fjölbreyttu efnahagslífi og fyrir
lýðræði eru sömu ættar. Málið snýst í báðum dæmum um áhættudreifingu. Einhæft
efnahagslíf teflir of miklu valdi upp í hendurnar á einum atvinnuvegi. Einræði í
stjórnmálum teflir með líku lagi of miklu valdi upp í hendurnar á einum hópi
manna, jafnvel einum manni.
Eina landið í Arabaheiminum, sem hefur tekið umtalsverðum framförum í lýðræðisátt að undanförnu, er Túnis. Þar gáfu mótmæli almennings á götum úti af sér nýja, nútímalega stjórnarskrá. Stjórnmálamenn í Túnis voguðu sér ekki að standa í vegi fyrir vilja fólksins. |