Hvað gerðu Grikkir?
Heimurinn tók andköf, þegar herforingjar hrifsuðu til sín völdin í Grikklandi vorið 1967. Hvernig gat annað eins og þetta gerzt í vöggu lýðræðisins? Grikkir höfðu að vísu ekki alveg óflekkaðan lýðræðisferil, en þeir höfðu búið við lýðræði í meira en hundað ár, allar götur frá 1864, þegar ný stjórnarskrá var leidd í lög og allir fulltíða grískir karlmenn fengu kosningarétt. Lýðræði var þó lagt til hliðar árin 1915-25 og 1936-43; heimsstyrjaldirnar tvær tóku sinn toll. |
Sjö ára valdatíð herforingjaklíkunnar hafði kallað vansæmd yfir
Grikkland og rekið fleyg milli Grikkja og náinna bandamanna þeirra.
Hvernig skyldi bregðast við því? Átti þjóðin að fyrirgefa og gleyma? Það
gat hún ekki gert með góðu móti, því að fyrirgefning útheimtir iðrun, og
herforingjarnir voru forherðingin uppmáluð. Málið var leitt til lykta í
gríska þinginu að loknum lýðræðislegum kosningum haustið 1974.
Herforingjarnir og nokkrir undirsátar þeirra voru dregnir fyrir dóm.
Réttarhald var nauðsynlegur liður í hreingerningunni eftir sjö ára
niðurlægingu grísku þjóðarinnar og var talið nauðsynlegt til að draga úr
líkum þess, að sagan endurtæki sig. Auðvitað höfðu herforingjarnir
brotið lög. Þeim reyndist engin stoð í neyðarlögum, sem þeir höfðu
sjálfir sett til að firra sig ábyrgð á brotum gegn eldri lögum. Þessir
menn þurftu að fá makleg málagjöld, svo að herinn mætti skilja, hvað
biði þeirra, sem létu sér koma til hugar að reyna að ræna völdum síðar. |
Valdaræningjarnir fengu þunga dóma 1975. Þrír voru dæmdir til dauða,
einn fékk lífstíðarfangelsi, sjö voru dæmdir í fimm til tuttugu ára
fangelsi, og tveir voru sýknaðir. Dauðadómunum var síðan breytt í
lífstíðarfangelsi. Að auki voru átta menn dæmdir fyrir að bera ábyrgð á
að berja niður mótmæli gegn herforingjastjórninni 1973, þar sem 24
mótmælendur týndu lífi. Dómarnir í því máli náðu frá 25 ára fangelsi upp
í sjöfalt lífstíðarfangelsi. Loks var réttað sérstaklega yfir
pyntingameisturum hersins. Nokkrir þeirra fengu fjögurra til sjö ára
fangelsisdóma öðrum til viðvörunar. Því má bæta við, að George W. Bush,
fyrrum Bandaríkjaforseti, hætti nú í vikunni við að fara til Sviss af
ótta við að vera handtekinn þar fyrir að bera ábyrgð á pyntingum á
föngum í haldi Bandaríkjahers. Lögin ná nú yfir landamæri. |
Fangaverðir hafa vitnað um samskiptasiði grísku herforingjanna innan
fangelsismúranna. Þeir ávörpuðu hver annan með miklum virktum: Má ég
bjóða yður meira kaffi, herra forseti? Má ég biðja ráðherrann að gera
svo vel að rétta mér sápuna? Höfuðpaurinn kaus að snæða kvöldverðinn
einsamall. Ólíkt öðrum föngum voru herforingjarnir geymdir í loftkældum
klefum og höfðu aðgang að sjónvarpi og tennisvöllum. Ríkisstjórnin
hugðist náða herforingjana 1990, en hún hvarf frá þeirri fyrirætlan
vegna harðra mótmæla, meðal annars úr röðum íhaldsmanna, jafnaðarmanna
og kommúnista. Tveim var sleppt vegna heilsubrests, nokkrir dóu í
fangelsinu, einn lifir enn. |
Hvers vegna rifja ég þetta upp núna? Ein ástæðan er, að Arabar hafa nú loksins risið upp gegn kúgurum sínum. Neistinn, sem kveikti bálið, var trúlega hækkun matarverðs vegna loftslagsbreytinga, sem leiddu af sér hitabylgju og uppskerubrest í Rússlandi í fyrra. Fyrst var forseti Túnis hrakinn burt, og flokkur hans, sem hafði áður öll ráð í hendi sér, var leystur upp og bannaður með lögum. Nú er eftir að ná þýfinu af forsetanum og fjölskyldu hans. Næst kom röðin að Egyptalandi. Þar hefur Múbarak forseti ásamt fjölskyldu og vinum auðgazt ótæpilega í 30 ára valdatíð hans. Þegar stjórnmálamenn auðgast, gera þeir það næstum aldrei innan ramma laganna. Múbarak forseti þráast við að víkja til að vernda völd sín og auð. Margt bendir til, að böndin hljóti einnig að berast að Alsír. Ég var þar um daginn. Þar er næstum ekkert eins og það á að vera. Yfirmenn hersins hafa alla þræði í hendi sér og þá um leið olíuauðinn, sem á þó að heita þjóðareign. Lög landsins leyfa vafalaust, að þeim sé stungið inn fyrir spillingu. Það yrði öðrum til viðvörunar. Vilji er allt sem þarf. |
Fréttablaðið, 10. febrúar 2011.