Illa komið
Illa er komið fyrir Bandaríkjunum. Þar hefur það nú gerzt öðru sinni á
átján árum, að þingið rekur ríkisstjórnina í greiðsluþrot, svo að
ríkisstarfsmenn hafa verið sendir heim í hundruða þúsunda tali. Margar
ríkisstofnanir hafa lokað dyrum sínum um óákveðinn tíma. Nú eins og 1995
eru það ofstækismenn í röðum repúblikana sem valda uslanum.
Vandinn er sá, að Bandaríkjaþing þarf að heimila aukna lántöku ríkisins
til að gera því kleift að standa við skuldbindingar sínar, og harðdrægir
repúblikanar í fulltrúadeild þingsins standa í vegi fyrir heimildinni.
Þeir segjast þó munu veita heimildina gegn því, að Obama forseti hverfi
frá fyrri ákvörðun um heilbrigðistryggingar að evrópskri fyrirmynd. Þeir
skeyta í engu um þá staðreynd, að heilbrigðistryggingarnar voru
samþykktar í báðum deildum þingsins og Hæstiréttur staðfesti, að þær
standast stjórnarskrána. Heilbrigðistryggingarnar voru eitt helzta
kosningamálið bæði í síðustu forsetakosningum og í þingkosningum. Með
framferði sínu afhjúpa repúblikanar virðingarleysi sitt gagnvart lýðræði
og lýðræðislegum leikreglum. Þeir ögra beinlínis lýðræðinu. Eftir er að
sjá, hvort Repúblikanaflokkurinn klofnar vegna þessarar óhæfu, það væri
óskandi, en þar eru innan búðar margir góðir menn, sem standa agndofa
frammi fyrir yfirgangi ofstækismannanna. |
Hvernig getur annað eins og þetta gerzt í helzta forustulandi hins
lýðfrjálsa heims? Eina skýringuna virðist mér mega rekja til þeirrar
ákvörðunar Hæstaréttar Bandaríkjanna með fimm atkvæðum gegn fjórum að
skipa George W. Bush forseta Bandaríkjanna eftir kosningarnar 2000,
eftir að talning atkvæða hafði verið stöðvuð í Flórída, en Bush fékk
færri atkvæði þar líkt og á landsvísu en keppinauturinn úr hópi
demókrata, Al Gore. Eftir þessa ákvörðun Hæstaréttar, þar sem atkvæði
dómaranna féllu eftir flokkspólitískum línum, lýsti einn dómarinn því
yfir, að fólkið í landinu gæti ekki lengur treyst Hæstarétti. Bandaríkin
féllu í áliti almennings um allan heim. Forsetinn var dreginn sundur og
saman í háði, m.a.s. fyrir heimsku sakir. Slíkt hafði ekki gerzt í
Bandaríkjunum í 80 ár. Friðurinn var úti.
Bush er nú yfirleitt talinn vera einn allra versti forsetinn í
samanlagðri sögu landsins og er nú hvergi sjáanlegur, og fer vel á því,
á meðan fv. forsetar úr röðum demókrata, bæði Bill Clinton og Jimmy
Carter, vinna áfram ötullega um allan heim að hugðarmálum sínum.
Skoðanakannanir sýndu, að 98% íslenzkra kjósenda hefðu greitt Obama
forseta atkvæði sitt í kosningunum 2012, hefðu þeir verið til þess
bærir, og 2% hefðu kosið frambjóðanda repúblikana. |
Það sætir í þessu ljósi nokkurri furðu, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli
undangengin ár hafa kosið að sækja sér fyrirmyndir til bandarískra
repúblikana. Ég lýsti vandanum svo í
Fréttablaðinu 10. júní 2004:
„Sjálfstæðisflokkurinn skeytti ekki um að hlýða kalli allra þeirra, sem
vöruðu árum saman við hagrænum og siðrænum afleiðingum þess að afhenda
fáum útvöldum einkaaðgang að sameiginlegum fiskimiðum þjóðarinnar.
Flokkur, sem heyktist á að hlýða því kalli fyrr en eftir dúk og disk, og
þá með ólund og aðeins að nafninu til, hlýtur að hafa laskazt. Flokkur,
sem hefur reitt fram þjóðareignir á rússnesku silfurfati handa fáum
útvöldum og harðneitar jafnframt að upplýsa, hvernig hann fjármagnar
starfsemi sína, hlýtur að hafa skaddazt. Stjórnmálaflokkur, sem stendur
í illvígri baráttu við einkafyrirtæki um ítök í atvinnulífi landsins,
hlýtur að hafa skemmzt. Flokkur, sem reynir síðan að loka frjálsum
fjölmiðlum með lögboði – öllum nema þeim tveim, sem flokkurinn þykist
hafa í hendi sinni – er kominn langt út fyrir viðunandi velsæmismörk.
Fjölmennur flokkur, sem gerir illskeytta ofstækismenn að málsvörum
sínum, menn, sem leggja flokksmælikvarða á alla hluti og virðast eins og
ýmsir bandarískir repúblíkanar líta svo á, að stjórnmál séu stríð og
allt sé þar leyfilegt, og eiga í sífelldum útistöðum við allt og alla og
mega helzt ekkert aumt sjá án þess að þurfa að traðka á því – þvílíkur
flokkur þarf að fá frið til að hugsa sinn gang. Skuggi siðaveiklunar
grúfir yfir Sjálfstæðisflokknum og markar í auknum mæli störf hans og
stefnu og mun fylgja honum inn í framtíðina. Sjálfstæðismenn geta ekki
kvartað undan því, að þeir hafi ekki verið varaðir við. Þeir fóru í
útreiðartúr á tígrisdýri.“
|
Framferði sjálfstæðismanna og margra framsóknarmanna á Alþingi á síðasta
kjörtímabili var eins og sniðið eftir forskrift ofstækisfullra
repúblikana á Bandaríkjaþingi. Hvergi kom þetta berlegar í ljós en í
stjórnarskrármálinu. Í því máli kúgaði 15-20 manna minni hluti þingmanna
Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar yfirlýstan vilja meiri hluta þingsins
með málþófi og öðrum brögðum til að ganga gegn vilja kjósenda eins og
hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012, þar sem 67%
kjósenda lýstu stuðningi við nýja stjórnarskrá og helztu ákvæði hennar.
Sjálfstæðisflokkurinn greiddi lýðræðinu þungt högg.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn sýna engin merki þess nú á Alþingi, að
ætlan þeirra sé að virða vilja kjósenda í stjórnarskrámálinu. Margt
bendir til, að þessir flokkar ætli þvert á móti að brjóta gegn vilja
kjósenda með því að hafa að engu fyrirmæli þeirra um auðlindir í
þjóðareigu, jafnan atkvæðisrétt, beint lýðræði og fleira, sem nýja
stjórnarskráin kveður á um. Væri hún gengin í garð, hefði Alþingi ekki
komizt upp með að falla frá hækkun veiðigjaldsins á sumarþinginu, og þá
væru nú til peningar til að bjarga Landspítalanum, svo að eitt dæmi sé
látið duga. Er ekki kominn tími til að tengja? |