Meira um auðlindaákvæðið
Í auðlindaákvæðinu í stjórnarskrárfrumvarpi Stjórnlagaráðs segir svo:
„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða
hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu
gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á
jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða
óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Þetta orðalag er í samræmi
við dóm Hæstaréttar 1998 í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenzka
ríkinu og einnig í samræmi við álit mannréttindanefndar |
„Hinn 24. október 2007 kunngjörði mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna
álit sitt í kærumáli þeirra sjómannanna Erlings Sveins Haraldssonar og
Arnars Snævars Sveinssonar gegn íslenzka ríkinu þar sem 12 nefndarmanna
(af 18) töldu lögin um stjórn fiskveiða brjóta í bága við 26. gr.
Alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti
allra manna. Grein þessi er efnislega samhljóða jafnréttisákvæði 65. gr.
stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944, með síðari
breytingum.
Í hnotskurn er rökstuðningur meirihluta mannréttindanefndarinnar þessi:
Nefndin vitnar til 1. greinar laganna um stjórn fiskveiða nr. 38/1990,
er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku
þjóðarinnar.“ Síðan segir meirihlutinn, að sú mismunun, sem gerð hafi
verið í upphafi kvótakerfisins við úthlutun veiðiheimilda og byggð var á
veiðireynslu tímabilsins 1. nóvember 1980 til 31. október 1983, kunni að
hafa verið sanngjörn og málefnaleg sem tímabundin ráðstöfun. En með
setningu laganna um fiskveiðistjórnun nr. 38/1990 hafi ráðstöfun þessi
ekki aðeins orðið varanleg, heldur breytt hinum upprunalegu réttindum
til þess að nýta opinbera eign í nýtingu einstaklingsbundinnar eignar.
Þeir sem upphaflega hafi fengið úthlutað veiðiheimildum og nýttu þær
eigi, hafi getað selt þær eða leigt á markaðsverði í stað þess að skila
þeim aftur til ríkisins til úthlutunar til nýrra veiðiréttarhafa í
samræmi við sanngjarna og réttláta mælikvarða. Íslenzka ríkið hafi ekki
sýnt fram á, að þessi úthlutunarmáti á veiðiréttarheimildum fullnægi
þeim kröfum, er gera verði um sanngirni.
Mannréttindanefndin taldi sig ekki þurfa að fjalla um það sérstaklega,
hvort úthlutun kvóta á
takmörkuðum auðlindum samræmdist Sáttmálanum almennt, en í þessu
sérstaka kærumáli, þar sem veiðiheimildunum væri úthlutað varanlega til hinna upphaflegu veiðiréttarhafa, andstætt hagsmunum kærendanna, væri ekki unnt að telja, að slíkt kerfi væri byggt á sanngjörnum grundvelli. Af þessum sökum ályktaði meirihluti mannréttindanefndarinnar, að brotið væri gegn jafnréttisákvæði 26. gr. Alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.“ Tilvitnun lýkur.
Álit mannréttindanefndar SÞ er bindandi, en stjórnvöld hafa ekki enn
brugðizt við því. Frumvarpi Stjórnlagaráðs er ætlað að leysa vandann. |
Í lögum um stjórn fiskveiða hefur frá 1990 verið svofellt ákvæði: „Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“ Lokamálslið auðlindaákvæðisins í frumvarpi Stjórnlagaráðs („Slík leyfi ... leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“) er ætlað að tryggja stjórnskipulega stöðu þessarar lagagreinar með því að girða fyrir hættuna á, að hún verði numin brott úr lögum.
Umræðan um þjóðareign íslenzkra náttúruauðlinda hefur staðið í bráðum
hálfa öld. Margir sérfræðingar, sem fjallað hafa um málið, lögfræðingar
og aðrir, voru hafðir með í ráðum við samningu auðlindaákvæðisins í
frumvarpi Stjórnlagaráðs. Ákvæðið er í nánu efnislegu samræmi við
fyrirliggjandi drög að nýrri stjórnarskrá Færeyja, en þar segir svo
efnislega um auðlindir og umhverfi: Þjóðin á auðlindirnar og tekur gjald
fyrir afnot þeirra eða tryggir öllum jafnan aðgang að þeim. Umgengni við
auðlindir og umhverfi verður að vera sjálfbær. |
DV, 26. janúar 2012.