Orð skulu standa
Lögþingið í Færeyjum hefur legið yfir frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár
frá 2006, vönduðu frumvarpi, sem ráðgert var, að Færeyingar fengju að
ganga til þjóðaratkvæðis um 2010. Það heit var þó ekki efnt, þar eð
allir þrír stjórnmálaflokkarnir, sem stóðu að loforðinu um þjóðaratkvæði
(Jafnaðarflokkurinn, Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn), sneru baki
við eigin afkvæmi. Ný ríkisstjórn Sambandsflokksins, Fólkaflokksins og
tveggja annarra flokka var mynduð 2011, og hún hefur ekki heldur í
hyggju að leyfa þjóðinni að ráða málinu til lykta. Að lofa þjóðaratkvæði
um tiltekið mál og hætta síðan við er næsti bær við valdarán. |
Forsagan er fróðleg. Færeyska stjórnlagafrumvarpið er skilgetið afkvæmi
hrunsins í Færeyjum 1989-94, þegar landsframleiðsla eyjanna dróst saman
um þriðjung líkt og gerðist í Sovétríkjunum um sama leyti. Það er mesti
samdráttur í framleiðslu, sem sögur fara af í okkar heimshluta á
friðartímum. Stjórnarskrár hafa oft verið endurskoðaðar eða skrifaðar að
loknu hruni eða sambærilegum atvikum. Stjórnarskrár eru sárasjaldan
samdar upp úr þurru.
|
Eftir fáein erfið ár vegna kreppunnar og eftirleiksins, þ.m.t. umdeild
afskipti dönsku stjórnarinnar af endurreisn færeysks efnahagslífs og
gerspillts stjórnmálalífs, var mynduð samsteypustjórn þriggja
aðskilnaðarflokka (Þjóðveldisflokksins,
Fólkaflokksins og Sjálfstýrisflokksins). Allir þessir
flokkar vilja, að Færeyingar taki sér fullt sjálfstæði. Stjórn þessara
flokka tók frumkvæðið 1998 að undirbúningi stjórnarskrár, hinnar fyrstu
handa Færeyjum. Auk fulltrúa allra stjórnmálaflokka skipaði
ríkisstjórnin til setu í stjórnarskrárnefndinni sérfræðinga í lögum,
félagsvísindum og sögu. |
Margir glöggir Færeyingar þóttust sjá strax í upphafi, að aðild
stjórnmálaflokkanna að samningu nýrrar stjórnarskrár bæri dauðann í sér.
Þessi skoðun helgaðist sumpart af aðkomu þeirra stjórnmálamanna, sem
báru ábyrgð á hruninu 1989-94, og sumpart af djúpstæðum og gamalgrónum
ágreiningi milli aðskilnaðarflokkanna og sambandsflokkanna, sem vilja
fyrir alla muni halda sambandinu við Danmörku m.a. til að geta kreist
sem mest fé út úr Dönum. |
Eftir nokkrar atrennur skilaði færeyska stjórnarskrárnefndin 2006
frumvarpi til ríkisstjórnarinnar, verkbeiðandans. Frá þeim tíma hefur
frumvarpið verið rætt þrotlaust í lögþinginu og nefndum þess. Ólíkt
frumvarpi Stjórnlagaráðs hér heima spratt færeyska frumvarpið ekki af
þjóðfundi og þjóðkjöri til stjórnlagaþings. Færeyska frumvarpið skorti
kjölfestu meðal fólksins og varð því að stefnulausu rekaldi í meðförum
lögþingsins. Mörgum sýnist, að færeyska tilraunin hafi frá upphafi verið
dæmd til að mistakast líkt og Alþingi hefur mistekizt að endurskoða í
heild sinni stjórnarskrá Íslands allar götur frá 1944. Þetta er gamall
vandi: þingmenn og stjórnarskrár eru varasöm blanda af þeirri einföldu
ástæðu, að stjórnarskrám er m.a. ætlað að halda aftur af þingmönnum og
öðrum stjórnvöldum og setja þeim reglur. |
Það væri sök sér, ef færeyska lögþingið saltaði frumvarp þingmanna og
sérfræðinga og sviki gefin loforð um að leggja málið í dóm þjóðarinnar
eins og margt bendir til, að verða muni í Færeyjum. Hitt væri mun
alvarlegra brot, ef Alþingi sviki íslenzku þjóðina um þá
þjóðaratkvæðagreiðslu, sem búið er að lofa um frumvarp Stjórnlagaráðs,
óbreytt eða með einhverjum breytingum í samráði við ráðið. Frumvarp
Stjórnlagaráðs er sprottið af löngu lýðræðislegu ferli, ekki bara af
samþykktum Alþingis og starfi stjórnlaganefndar, heldur einnig af þúsund
manna þjóðfundi, kosningu til Stjórnlagaþings og starfi Stjórnlagaráðs,
sem fyrst var kjörið af þjóðinni og síðan skipað af Alþingi og skilaði
Alþingi frumvarpi með einróma samþykkt að baki. Alþingi hefur ekki leyfi
til að sjá nú eftir öllu saman og hætta við að halda
þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið.
|
Alþingi sækir umboð sitt til þjóðarinnar, ekki öfugt. Þjóðin verður að
fá að fjalla um frumvarp Stjórnlagaráðs, ekki aðeins af því að það er
rétt og eðlileg málsmeðferð og 75% þjóðarinnar segjast vilja það, heldur
einnig af því að því hefur verið lofað.
Orð skulu standa.
|
DV, 15. febrúar 2012.