Skotland við vatnaskil
Þegar þetta er skrifað á fimmtudegi, stendur yfir söguleg
þjóðaratkvæðagreiðsla í Skotlandi, þar sem Skotar ákveða, hvort þeir
munu taka sér sjálfstæði eða ekki. Þjóðaratkvæðagreiðslan vekur athygli
um allan heim. Kjörsókn er mikil. Skozki þjóðarflokkurinn hefur nú meiri
hluta í skozka þinginu. Flokkurinn hefur lengi mælt fyrir stofnun
sjálfstæðs ríkis í Skotlandi og var stofnaður um það stefnumið 1934. |
Málflutningur sjálfstæðissinna er reistur á tvennum höfuðrökum.
Viðskiptahagsmunum Skotlands er vel borgið innan ESB, segja þeir, og
efnahagsþörfin, sem knúði okkur til aðildar að brezka konungdæminu 1707,
er því úr sögunni. Þetta er þó ekki alveg rétt, þar eð England er
langmikilvægasta viðskiptaland Skota eftir þeirri gömlu reglu, að þjóðir
kjósa jafnan að skipta mest við næstu nágranna sína. Stuðningurinn við
sjálfstætt Skotland væri mun minni meðal kjósenda, væri Bretland ekki í
ESB. Varnarhagsmunum Skotlands er einnig vel borgið, þar eð ESB tryggir
frið í álfunni. Þörfin fyrir aðild að konungdæminu til að halda friðinn
milli Englands og Skotlands er einnig fortíðarmúsík. ESB er
smáríkjabandalag, segja Skotar: þar eru mörg smáríki innan um fáein
stórríki, og það hentar okkur vel. Ætla má, að sjálfstætt Skotland sæki
um aðild að NATO auk ESB eins og t.d. Eystrasaltslöndin og
Austur-Evrópulöndin gerðu eftir hrun Sovétríkjanna og að umsóknum Skota
verði vel tekið. |
Í annan stað segjast Skotar vera ólíkir Englendingum að ýmsu leyti,
þegar öllu er á botninn hvolft. Það er engin tilviljun, að
Íhaldsflokkurinn á bara einn skozkan þingmann í London, en skozkir
þingmenn Verkamannaflokksins eru 41. Íhaldið á ekki upp á pallborðið í
Skotlandi. Það er engin tilviljun, að skólagjöld eru yfirhöfuð ekki
talin koma til greina í skozkum ríkisháskólum, ekki frekar en t.d. í
Danmörku, Noregi og Svíþjóð, en skólagjöld í ríkisháskólum eru nú alsiða
á Englandi að bandarískri fyrirmynd. Skozkir sjálfstæðissinnar segjast
vilja taka Ísland sér til fyrirmyndar við samningu nýrrar stjórnarskrár,
enda trúa þeir því ekki enn, að Alþingi sé alvara með því að ganga gegn
niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána 2012.
Skozkir sjálfstæðissinnar segja við Englendinga: Við kjósum að sækja
okkur fyrirmyndir til Norðurlanda, en þið lítið heldur til
Bandaríkjanna. Við skulum því skilja, og skilja í góðu, þar eð eitt er
enn betra en gott hjónaband, og það er góður skilnaður. Ef við stofnum
sjálfstætt ríki, segja Skotar við íhaldið, losnum við undan stjórn
ykkar, og þið losnið við okkur af þinginu í London og getið þá ráðskazt
með ykkar kjósendur sunnan landamæranna eins og ykkur lystir. Það verða
að teljast góð skipti. Framkvæmdaratriði varðandi gjaldeyrismál og
skiptingu ríkiseigna og skulda og tekna af olíuauðnum hljótum við að
geta leitt til lykta eins og siðuðu fólki sæmir, segja Skotar.
Englendingar urra á móti.
Sjálfum finnst mér sjálfstætt Skotland, kjósi Skotar það sjálfir, vera
jafnsjálfsagt og sjálfstætt Austurríki, og Þjóðverjar eru sama sinnis um
Austurríki. Mér finnst sjálfstætt Skotland einnig vera jafnsjálfsagt og
sjálfstætt Taívan, en það finnst Kommúnistastjórninni í Kína að vísu
ekki. Þar skilur milli feigs og ófeigs. |
Urrið í Englendingum hlýtur að hjaðna og ólundin að minnka, ef Skotar
kjósa sjálfstæði og Englendingar standa frammi fyrir orðnum hlut. ESB
hlýtur að breiða út faðminn á móti Skotum eins og mörgum öðrum
aðildarríkjum undangengin ár. Efnahagsafleiðingar stofnunar sjálfstæðs
ríkis í Skotlandi þurfa ekki að valda áhyggjum, nema Englendingar ákveði
að refsa Skotum og stofna til illinda, og því verður varla trúað á
Englendinga að óreyndu.
Enskir íhaldsmenn þurfa að gangast við sínum hluta ábyrgðarinnar á
þeirri stöðu, sem upp er komin. Þeir daðra opinskátt við þá hugmynd að
leiða Bretland út úr ESB, m.a. af ótta við Brezka Sjálfstæðisflokkinn
(UKIP), sem sækir í sig veðrið skv. skoðanakönnunum líkt og aðrir slíkir
flokkar í Evrópu, þótt hann eigi ekki enn fulltrúa á þinginu í London.
Skozkir þjóðernis- og sjálfstæðissinnar eru Evrópusinnar og mega ekki
til þess hugsa að hrekjast úr ESB fyrir tilstilli Englendinga. Þeir líta
margir á daður Englendinga við úrsögn úr ESB sem sjálfstætt tilefni til
stofnunar sjálfstæðs ríkis í Skotlandi til að geta haldið áfram veru
sinni í ESB. Það lýsir tvískinnungi enskra íhaldsmanna, að þeir skuli
mæla gegn sjálfstæðu Skotlandi um leið og þeir daðra við að draga Skota
nauðuga út úr ESB.
Fari svo, að Skotar lýsi yfir sjálfstæði, ættu Englendingar að hugleiða
að taka Dani sér til fyrirmyndar og þá m.a. drengilega framgöngu Dana
gagnvart Íslendingum, þegar sjálfstætt ríki var stofnað á Íslandi 1944,
án þess að hernumin Danmörk fengi rönd við reist. Danska stjórnin lét
Íslendinga aldrei gjalda lýðveldisstofnunarinnar, heldur studdi hún
Ísland áfram með ráðum og dáð og skilaði okkur m.a.s. handritunum
aldarfjórðungi síðar. Drengskapur Dana í garð Íslands verður lengi í
minnum hafður. |