1

Hagkvæmni og réttlæti

 

1. Rauður þráður

Hagkvæmni og hagræðing eru rauður þráður í rannsóknum hagfræðinga á aðskiljanlegum fyrirbærum efnahagslífsins. Hagfræðingar halda áfram að leita nýrrar þekkingar á lögmálum þjóðarbúskaparins og heimsbúskaparins í heild ekki aðeins þekkingarinnar vegna, heldur líka í því skyni að finna leiðir til að efla hagkvæmni í efnahagslífinu með ýmiss konar hagræðingu. Áhugi hagfræðinga á frjálsum viðskiptum innan lands og út á við allar götur síðan á dögum Adams Smith er ekki bundinn eingöngu við aðdáun okkar á fegurð kenningarinnar um kosti viðskiptafrelsis eða vitneskjuna um ný lögmál, sem okkur voru hulin áður, heldur er okkur líka umhugað um hagnýtt gildi kenningarinnar. Áhugi okkar á frjálsum viðskiptum helgast meðal annars -- sumir myndu jafnvel segja fyrst og fremst -- af vitneskju okkar um það, að viðskiptafrelsi eykur almannahag.

Hið sama á við um flestar greinar nútímahagfræði. Rannsóknir hagfræðinga á vettvangi ríkisfjármála þjóna þeim tilgangi meðal annars að finna leiðir til að koma skattheimtu ríkis og sveitarfélaga fyrir á hagkvæman hátt. Verðbólgurannsóknir helgast með sama hætti ekki aðeins af áhuga okkar á verðbólgunni sjálfri, heldur einnig af áhuga okkar á áhrifum verðbólgu á aðrar stærðir, þar á meðal atvinnuleysi og hagvöxt og almannahag um leið. Rannsóknir í þróunarhagfræði beinast að miklu leyti að því að leita leiða til að leysa blásnauðar þriðjaheimsþjóðir úr fjötrum fátæktar. Þannig mætti lengi telja. Áhugi okkar á hagkvæmni og hagræðingu sem verðugum vísindalegum viðfangsefnum er með öðrum orðum nátengdur umhyggju okkar fyrir almannahag. Hagnýtt gildi hagfræðirannsókna er fólgið í þessu fyrst og fremst.

 

2. Réttlæti

Skoðum þetta betur. Hugsum okkur eitt andartak, að við byggjum í samfélagi, þar sem leikreglur, lög eða jafnvel stjórnarskrá kvæðu á um það, að allur hagur af betra búskaparlagi félli fámennum hópi í skaut. Hugsum okkur til einföldunar, að ávextir allrar hagræðingar rynnu óskiptir til Ímeldu Marcos.

Nú vaknar spurning: Hefðu hagfræðingar brennandi áhuga á að kanna kosti og galla frjálsra og heilbrigðra viðskiptahátta, ef viðskiptahagurinn rynni allur til Ímeldu? Hefðum við mikinn hug á að rannsaka hagræðingarkosti í ríkisrekstri, ef forsetafrúin fyrrverandi á Filippseyjum fengi að hirða ávinninginn óskiptan? Hefðum við hug á að leita leiða til að draga úr verðbólgu og atvinnuleysi og efla hagvöxt, ef Ímelda ein nyti góðs af öllu því og aðrir þyrftu að gera sér að góðu þá mola, sem hrytu af borði hennar? Hefðum við yfirhöfuð nokkurn áhuga á hagfræði við þessar kringumstæður? Ég leyfi mér að efast um það. Og ég leyfi mér líka að efast um, að margir vildu leggja stund á læknisfræðirannsóknir, ef allar framfarir í þeim fræðum væru ætlaðar til þess eins að halda lífinu í Ímeldu Marcos eða yngja hana upp.

Þessu einfalda dæmi er ætlað að skýra þá skoðun mína, að hagfræðingar geta ekki með góðu móti leitt réttlætissjónarmið hjá sér undir öllum kringumstæðum. Vissulega er það rétt, að hagkvæmni og hagræðing eru okkar ær og kýr og að við getum allajafna stundað fræði okkar án skírskotunar til hugmynda um réttlæti og ranglæti, ekki síður en eðlis- og efnafræðingar til dæmis. Hagfræðingur verður að gera skýran greinarmun á staðreyndum og stefnum. Hann verður að haga rannsóknum sínum og fræðilegum málflutningi með þeim hætti, að enginn geti leitt líkur að skoðunum hans á stjórnmálum eða þjóðmálum almennt á þeim grundvelli. Með þessu er samt ekki sagt, að réttlæti og ranglæti hljóti alltaf og alls staðar að vera utan við rannsóknavettvang hagfræðinga. Nei, ranglæti getur verið svo nátengt viðfangsefnum hagfræðinga og annarra félagsvísindamanna og svo hróplegt, að við getum ekki leitt það hjá okkur með góðu móti -- allsendis óháð því, hvaða skoðanir við kunnum að hafa á stjórnmálum og þjóðmálum.

Hagfræði er hlutlaus, eða á að minnsta kosti að vera það að minni hyggju, ekki síður en til að mynda læknisfræði. En hagfræðingar hljóta samt ekki síður en læknar að gera tilteknar lágmarkskröfur um réttlæti, enda hefðu fræði okkar harla lítið hagnýtt gildi ella. Hér er ég auðvitað ekki að gefa það í skyn, að hagfræðingar þurfi að taka afstöðu til hversdagslegra ágreiningsefna í stjórnmálum, þar sem einum þykir það ranglátt, sem öðrum finnst réttlátt. Nei, öðru nær, hér á ég fyrst og fremst við þess konar þjóðfélagsmisrétti, sem er hafið yfir skynsamlegan ágreining eins og í dæminu af Ímeldu Marcos að framan. Hagfræðingur, sem kærir sig kollóttan um þess háttar þjóðfélagsranglæti, er ekki hlutlaus, heldur siðlaus.

 

3. Þrjú dæmi

Þessar vangaveltur vekja spurningar um það, hvar mörkin liggi á milli augljóss og hróplegs ranglætis, sem er hafið yfir skynsamlegan ágreining, og ranglætis, sem skynsamir og sanngjarnir menn líta ólíkum augum. Ég ætla mér ekki að reyna að draga þau mörk hér, enda eru heimspekingar og siðfræðingar miklu betur til þess fallnir. Þessum bollaleggingum er fyrst og fremst ætlað að skýra þá skoðun mína, hvers vegna hagfræðingar geta undir vissum kringumstæðum leyft sér að taka afstöðu til réttlætis og ranglætis án þess að fara út fyrir eðlilegan fræðavettvang sinn.

Ég fæ til dæmis ekki séð, hvernig hægt er að fjalla rækilega um gengis- og vaxtastefnu íslenzkra stjórnvalda og afleiðingar hennar fyrir þjóðarbúskap okkar gegnum tíðina án þess að nefna það þjóðfélagsranglæti, sem þessi stefna olli einkum áður fyrr, þegar fólki og fyrirtækjum var mismunað gróflega í skjóli skömmtunar á erlendum gjaldeyri og lánsfé. Ég lít líka svo á, að enginn hagfræðingur geti fjallað af skynsemd og sanngirni um tilskipanabúskap kommúnistaríkjanna fyrrverandi í Austur-Evrópu og hörmulegar afleiðingar hans fyrir fólkið í þessum löndum án þess að fjalla jafnframt um þá ofboðslegu mismunun, sóun og spillingu, sem eru óhjákvæmilegir fylgifiskar þvílíkra búskaparhátta. Og ég hef með svipuðu hugarfari ekki heldur talið mér fært að fjalla um núverandi sjávarútvegsstefnu íslenzkra stjórnvalda án þess að greina frá því, að ég tel þessa stefnu ekki aðeins óhagkvæma, heldur einnig óréttláta, þótt ég hafi að vísu lagt höfuðáherzlu á hagkvæmnishlið málsins hingað til án þess að reyna að gera réttlætishliðinni viðhlítandi skil.

Hvað um það, þessi þrjú dæmi eru hafin yfir skynsamlegan ágreining í mínum huga. Enginn hagfræðingur, sem ég þekki, er hlynntur þeirri mismunun, sem felst í skömmtun gjaldeyris, lánsfjár eða veiðiheimilda, af réttlætisástæðum. Þeir hagfræðingar, sem verja eða styðja núverandi sjávarútvegsstefnu, virðast gera það af því, að þeir telja hana hagkvæmari í einhverjum skilningi en aðrar færar leiðir að settu marki þrátt fyrir það ranglæti, sem hún hefur í för með sér. Þeir virðast líta svo á, að stefnubreyting sé óframkvæmanleg í ljósi ríkjandi styrkleikahlutfalla á stjórnmálavettvangi.

Ég er á öðru máli. Ég er þeirrar skoðunar, að sala veiðileyfa eða álagning veiðigjalds í einhverri mynd ásamt frjálsum viðskiptum með veiðiheimildir á opnum og heilbrigðum markaði væri bæði hagkvæmari og réttlátari en núverandi skipan. Ég tel, að ný sjávarútvegsstefna sé nauðsynlegur hlekkur í þeirri hagstjórnarbót, sem við þurfum á að halda í þessu landi, ef við eigum ekki að halda áfram að dragast aftur úr öðrum Evrópuþjóðum á næstu árum. Ég spái því, að meiri hluti Alþingis með fólkið í landinu að bakhjarli muni komast að sömu niðurstöðu í fyllingu tímans.

 

4. Ríkisfjármál

Mikilvægasta hagkvæmnisröksemdin fyrir veiðigjaldi í mínum huga varðar fjármál ríkisins og mikilvægi þeirra í þjóðarbúskapnum. Stjórnvöldum ber sjálfsögð skylda til að gæta ýtrustu hagsýni í meðferð almannafjár. Þetta á ekki aðeins við um útgjaldahlið ríkisfjármálanna, heldur tekjuhliðina líka. Stjórnvöldum ber að gæta almannahags með því að taka hagkvæma skattheimtu fram yfir óhagkvæma skattheimtu, hvenær sem þess er kostur. Þetta er sérstaklega brýnt við núverandi aðstæður hér heima. Hér hefur halli á búskap ríkis og byggða í víðum skilningi verið ein helzta uppspretta verðbólgu, óhóflegrar skuldasöfnunar erlendis og meðfylgjandi ófremdarástands í þjóðarbúskapnum í heild árum saman. Stjórnvöld hafa engu að síður drýgt alvarlegar vanrækslusyndir í mörgum mikilvægum málum, til dæmis í velferðarmálum og í mennta- og menningarmálum, eins og samanburður ellilífeyris og kennaralauna hér á landi við lífeyri og laun annars staðar á Norðurlöndum ber órækt vitni um.

Ég eygi enga leið til þess að koma fjárreiðum ríkis og byggða í eðlilegt horf til frambúðar, draga varanlega úr verðbólgu og erlendum skuldum og snúa vörn í sókn í þeim málaflokkum, sem almannavaldið hefur vanrækt á liðnum árum, án þess að hagræða bæði útgjalda- og tekjumegin í ríkisbúskapnum í víðum skilningi. Hagræðingin útgjaldamegin á að felast í uppskurði og skipulagsbreytingum fyrst og fremst í stað þess óhyggilega handahófsniðurskurðar, sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðizt í. Hagræðingin tekjumegin á að felast í að rýma fyrir lækkun eða jafnvel afnámi tekjuskatts eða fyrir lækkun virðisaukaskatts með álagningu veiðigjalds í einhverri mynd vegna þess, að veiðigjald er eins og önnur rentugjöld hagkvæmasta tekjuöflunarleið, sem almannavaldið á völ á. Yfirburðir veiðigjalds eru þeir, að það hefur æskileg hliðaráhrif ólíkt flestum öðrum sköttum og skyldum: veiðigjald dregur úr sókn á miðin, sem er æskilegt, því að fiskiskipaflotinn er allt of stór, en tekjuskattur og virðisaukaskattur draga úr framleiðslu og atvinnu, þótt hvorugt sé gott. Þessi röksemd er óháð því, hvort veiðigjaldið rynni til almennings í gegnum ríkissjóð eða ekki.

Nú kann einhver að spyrja, hvers vegna við getum ekki vænzt þess að ná traustum tökum á ríkisfjármálum okkar án veiðigjalds. Hefur öðrum þjóðum ekki tekizt það? Svarið er nei, yfirleitt ekki. Flestar nágrannaþjóðir okkar hafa verið þjakaðar ýmist af óhóflegri skattheimtu eða þá ríkishallarekstri og vaxandi skuldum. Ríkisbúskapurinn er erfiður viðfangs í nútímalýðræðisríki, þar sem öflugir þrýstihópar knýja í sífellu á um aukin útgjöld ríkis og byggða til verkefna, sem ættu að réttu lagi heima í höndum einstaklinga og einkafyrirtækja. Þennan þrýsting þurfa stjórnvöld að reyna að standast eftir fremsta megni. Ríkisstjórn, sem á kost á því að afnema tekjuskatt og taka upp rentugjald í staðinn að öðru jöfnu, hlýtur að sjá sér hag í að fara þá leið á endanum.

 

5. Gengismál

Önnur mikilvæg röksemd fyrir veiðigjaldi varðar stefnu stjórnvalda í gengismálum. Hingað til hefur gengisskráning krónunnar verið miðuð við þarfir og óskir sjávarútvegsins að miklu leyti. Þessi tilhögun hefur bitnað á öðrum atvinnuvegum, því að sjávarútvegurinn hefur þolað og þolir enn hærra raungengi en aðrar atvinnugreinar, sem eiga ekki kost á ókeypis hráefni eins og útvegurinn. Þess vegna hafa iðnaður, verzlun og þjónusta átt erfitt uppdráttar hér á landi, þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar stjórnvalda um nauðsyn þess að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið í landinu. Og þess vegna hefur verið þrálátur halli á viðskiptum við útlönd árum saman, þannig að hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu okkar Íslendinga er nú orðið hærra en í nokkru nálægu landi. Þessi gengisstefna hefur þar að auki stuðlað að því, að við Íslendingar bindum mun meira vinnuafl og fjármagn við óhagkvæma matvælaframleiðslu en nokkur nálæg þjóð.

Álagning veiðigjalds skapar skilyrði til að lagfæra gengisskráninguna, bæði til að koma erlendum viðskiptum í varanlegt jafnvægi og stöðva skuldasöfnun þjóðarinnar í útlöndum með því móti og til að búa í haginn fyrir iðnað, verzlun og þjónustu, sem yfirgnæfandi hluti þjóðarinnar hefur framfæri sitt af. Það er að vísu rétt, að nauðsynleg raungengislækkun í kjölfar veiðigjalds gæti átt sér stað sjálfkrafa í skjóli aukinnar framleiðni og lægri framleiðslukostnaðar, en mér virðist þó, að sú breyting gæti tekið langan tíma og valdið verulegu framleiðslutjóni á meðan, þar eð framleiðslukostnaður fyrirtækja, einkum launakostnaður, er yfirleitt tregur niður á við.

Mikill og þrálátur halli á viðskiptum við útlönd nú og áframhaldandi skuldasöfnun þjóðarinnar erlendis bera vitni um það, að gengi krónunnar er enn of hátt skráð eins og jafnan fyrr. Gengisfelling getur verið nauðsynleg til að komast upp úr þessu fari, en þá þarf að gæta þess mjög vandlega að fylgja henni eftir með nægilega öflugum aðhaldsaðgerðum til mótvægis til að koma í veg fyrir hækkun verðlags og kauplags í kjölfar gengisfalls. Ég eygi enga leið til að koma þessu í kring, eins og nú háttar, nema með því að leggja veiðigjald á og nota tekjurnar af gjaldinu fyrsta kastið til að lækka virðisaukaskatt til að halda verðlagi og kauplagi í skefjum. Það væri hins vegar óðs manns æði að fella gengið með gamla laginu við núverandi aðstæður, það er án öflugs aðhalds til mótvægis, því að þá er næsta víst, að verðbólgan færi aftur á fulla ferð. Samband veiðigjalds og gengis er þess vegna tvíþætt í mínum huga: gengisfelling er nauðsynlegur liður í þeirri skipulagsbreytingu, sem felst í álagningu veiðigjalds, og gjaldið er að sínu leyti forsenda árangursríkrar gengisbreytingar.

 

6. Evrópumál

Svo er ein röksemd enn, og hún varðar samskipti okkar Íslendinga við Evrópubandalagið. Nú bendir margt til þess, að við Íslendingar verðum einir Vestur-Evrópuþjóða utan Evrópubandalagsins um eða eftir miðjan þennan áratug, nema við vendum okkar kvæði í kross og ákveðum að fylgja hinum Norðurlandaþjóðunum inn í bandalagið, eins og við fylgdum þeim inn í EFTA á sínum tíma og eins og við fylgdum Dönum og Norðmönnum inn í Atlantshafsbandalagið 1949. Finnar hafa nú ákveðið að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Þeim eru skógar landsins mikið hjartans mál ekki síður en okkur eru fiskimiðin umhverfis Ísland, en Finnar eru samt staðráðnir í að finna lausn á þeim vanda, sem kann að koma upp í sambandi við hugsanlegan aðgang annarra bandalagsþjóða að finnsku skóglendi í almenningseign. Finnum hrýs hugur við því að hafna utan Evrópubandalagsins einir ásamt Íslendingum, meðal annars í ljósi þess að varnarsamstarf Evrópubandalagsþjóðanna mun væntanlega leysa Atlantshafsbandalagið af hólmi smám saman. Þessu ættum við Íslendingar að velta fyrir okkur fordómalaust.

Hvað um það, ef við Íslendingar vendum okkar kvæði í kross og ákveðum að sækja um inngöngu í Evrópubandalagið einhvern tíma fyrir aldamót, verðum við að ná samkomulagi við bandalagið um fyrirkomulag fiskveiða við landið meðal annars. Ég hef fært rök að því áður, að álagning veiðigjalds gæti styrkt samningsstöðu okkar gagnvart Evrópubandalaginu, því að þá gætum við hugsanlega veitt bandalagsþjóðum formlegan aðgang að íslenzkum aflakvótamarkaði eins og að öðrum mörkuðum með gagnkvæmum réttindum og skyldum í samræmi við lög og reglur bandalagsins án þess að veita þeim ókeypis aðgang að auðlindinni, enda kemur það alls ekki til greina. Þess konar tilboð af okkar hálfu væri þó nánast formsatriði að mínum dómi, þar eð framleiðni í íslenzkum sjávarútvegi er svo miklu meiri en í öðrum bandalagslöndum (hugsanlega að Spáni undanskildum), að fyrirtæki þaðan væru yfirleitt alls ekki samkeppnisfær við íslenzk útvegsfyrirtæki á frjálsum og heilbrigðum aflakvótamarkaði hér heima. Það, sem á kynni að vanta, að yfirburðastaða okkar Íslendinga á okkar eigin aflakvótamarkaði væri tryggð, gætum við áreiðanlega samið um við bandalagið. Þannig gætum við haldið fiskveiðum við landið í höndum okkar sjálfra að langmestu leyti, ef við vildum, án þess að bandalagið þyrfti að víkja frá settum grundvallarreglum. Þennan möguleika tel ég, að íslenzk stjórnvöld ættu að kanna gaumgæfilega í stað þess að fljóta sofandi að hugsanlegri einangrun Íslands frá þeim Evrópuþjóðum, sem við höfum átt nánust samskipti og mest viðskipti við frá stofnun lýðveldisins. Þar að auki værum við Íslendingar í aðstöðu til að hafa áhrif á sameiginlega fiskveiðistefnu bandalagsins innan frá í krafti reynslu okkar og sérþekkingar, en utan bandalagsins værum við áhrifalausir.

Nú kann einhver að spyrja: getum við ekki boðið útlendingum einhverjar veiðiheimildir til kaups, ef þess skyldi þurfa til að fá inngöngu í Evrópubandalagið, án þess að leggja gjald á innlend útvegsfyrirtæki? Svarið er nei. Reglur bandalagsins leggja blátt bann við hvers konar mismunun eftir þjóðerni. Þetta er grundvallaratriði í Rómarsáttmálanum, sem samstarf bandalagsríkjanna hvílir á. Ef við bjóðum fyrirtækjum frá öðrum bandalagslöndum veiðileyfi til kaups, megum við ekki afhenda íslenzkum fyrirtækjum sams konar leyfi án endurgjalds. Hér er í rauninni ekki verið að stinga upp á gagngerri stefnubreytingu, þótt svo kunni að virðast. Við eigum nú þegar töluverð aflakvótaviðskipti við aðrar þjóðir. Þessi viðskipti byggjast á gagnkvæmum skiptum á veiðiheimildum, án þess að kvótarnir séu metnir til fjár. Þvílíkir viðskiptahættir eru óhagkvæmir eins og önnur vöruskipti yfirleitt.

 

7. Ranglæti dregur úr hagkvæmni

Nú víkur máli mínu aftur að réttlæti og ranglæti. Ég færði rök að því fyrr, að hagkvæmni og hagræðing séu því aðeins verðug viðfangsefni handa hagfræðingum, að ákveðnum, ótilgreindum lágmarkskröfum um dreifingu ávaxtanna af hagræðingunni sé fullnægt. Hagkvæmni útheimtir réttlæti.

Þar að auki geta réttlæti og ranglæti haft áhrif á hagkvæmni. Margt bendir til að mynda til þess, að landlæg óhagkvæmni í þjóðarbúskap margra Suður-Ameríkuríkja á liðnum árum og áratugum eigi rót sína að rekja að nokkru leyti til þess þjóðfélagsmisréttis, sem hefur viðgengizt í þessum löndum, þar sem mikil fátækt meðal fjöldans og mikið ríkidæmi fámennrar forréttindastéttar hafa haldizt í hendur í skjóli ójafns eignarhalds á landi meðal annars. Sár fátækt innan um allsnægtir hefur skapað togstreitu og úlfúð, sem hafa truflað efnahagsstarfsemina, spillt lífskjörum almennings og dregið úr hagvexti, þótt ýmislegt fleira, þar á meðal röng gengisstefna, hafi að sönnu lagzt á sömu sveif. Svipuðu máli virðist gegna um kommúnistaríkin fyrrverandi í Austur-Evrópu. Mikill ójöfnuður, sem lýsti sér meðal annars í miklum forréttindum spilltrar valdastéttar á kostnað almennings, átti trúlega drjúgan þátt í því almenna framtaks- og áhugaleysi, sem einkenndi efnahagslífið í þessum löndum.

Nýjar rannsóknir hagfræðinga á uppsprettum hagvaxtar virðast renna stoðum undir þessa túlkun. Þær benda til þess til dæmis, að skerfur menntunar til batnandi lífskjara almennings sé ekki aðeins fólginn í auknum mannauði, heldur einnig í meðfylgjandi lífskjarajöfnun, sem virðist að sínu leyti geta leitt til aukins hagvaxtar í skjóli friðsamlegrar þjóðfélagsþróunar. Eignarréttur virðist auk þess yfirleitt njóta meiri verndar í lögum og leikreglum, þegar þokkalegur jöfnuður í skiptingu auðs og tekna hefur náðst á milli ólíkra þjóðfélagshópa. Með þessu er þó auðvitað ekki verið að gefa það í skyn, að fullkominn jöfnuður sé forsenda örs hagvaxtar. Nei, þvert á móti virðist reynsla margra þjóða benda til þess, að of mikil ríkisafskipti í því skyni að jafna skiptingu auðs og tekna geti truflað efnahagsstarfsemina og slævt hagvöxt. Hér er einungis verið að benda á það, að mikið þjóðfélagsmisrétti getur dregið úr hagvexti.

 

8. Auði fylgir vald

Þetta leiðir hugann hingað heim. Ókeypis afhending framseljanlegra veiðiréttinda til hlutfallslega fárra útvegsmanna í skjóli núverandi sjávarútvegsstefnu felur að mínum dómi í sér svo gríðarlega tilfærslu eigna og skulda og svo mikla mismunun á milli þjóðfélagsþegna, að hún fullnægir ekki þeim lágmarksréttlætiskröfum, sem mér finnst eðlilegt að gera til stjórnvalda og til þjóðfélagsins í heild. Hvað sem því líður, er ég líka þeirrar skoðunar, að mikill hluti þjóðarinnar muni ekki sætta sig við þessa skipan mála, þegar á reynir. Ég lít svo á, að stjórnvöld séu að leika sér að logandi glóð með því að halda núverandi stefnu til streitu. Misréttið, sem leiðir af óbreyttu ástandi, býður alvarlegri hættu heim: það getur valdið svo megnri óánægju og úlfúð meðal almennings, að af því hljótist harðvítugri átök um skiptingu auðs og tekna í þjóðfélaginu en við höfum kynnzt áður. Þvílík átök gætu dregið þrótt úr efnahagslífi þjóðarinnar og jafnvel hleypt því í bál og brand.

Það kann að vísu að villa sumum sýn, að viðtakendur verðmætra aflakvóta hafa hingað til notað sölutekjur af kvótum fyrst og fremst til að greiða niður skuldir í stað þess að byggja upp eignir. En tilfærslan er söm fyrir því. Gríðarleg skuldasöfnun í sjávarútvegi á liðnum árum er til marks um óhagkvæman rekstur margra fyrirtækja, þótt ýmis önnur útvegsfyrirtæki séu prýðilega vel rekin sem betur fer. Skuldir útvegsins nema nú um tvöföldum árstekjum í greininni að meðaltali. Enginn atvinnuvegur getur borið slíka skuldabyrði til lengdar. Eigendur fyrirtækjanna ættu að réttu lagi að sæta fullri ábyrgð á þessum skuldum, sem þeir hafa sjálfir stofnað til. Þeim er þó hlíft við því, að svo miklu leyti sem ríkið greiðir skuldirnar fyrir þá óbeint með því að afhenda þeim ókeypis aðgang að fiskimiðum, sem eru almenningseign samkvæmt lögum. Með þessu móti spillir ríkisvaldið fyrir hagræðingu og eigendaskiptum, sem eru forsenda nauðsynlegrar nýsköpunar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

Það getur verið hættulegt að afhenda tiltölulega fámennum hópi mikinn auð í skjóli forréttinda, því að óréttmætum auði fylgir yfirleitt óréttmætt vald yfir öðrum. Eisenhower Bandaríkjaforseti skildi þetta. Hann varaði almenning og stjórnvöld þar vestra við því á sinni tíð að hlaða um of undir hergagnaframleiðendur í landinu, þar eð ofurveldi þeirra gæti ógnað almannahag. Ég sakna þess, að sambærileg varnaðarorð skuli ekki heyrast úr Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Nú þegar er farið að votta fyrir því, að nýríkir útvegsmenn búist til að hasla sér völl í stjórnmálum til að tryggja hagsmuni sína beint eða óbeint á þeim vettvangi. Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess, að kosningabarátta stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu Alþingiskosningar kostaði þá á annað hundrað milljónir króna samtals. Samt liggur engin kvöð á flokkunum um að gera almenningi grein fyrir fjárreiðum sínum. Um þetta gilda engar reglur. Flokkarnir gætu þess vegna þegið allt kosningafé sitt af hagsmunasamtökum. Þennan brunn þarf að byrgja.

 

9. Hagsmunir almennings

Lýðræðisþroska þjóðfélags er hægt að ráða að miklu leyti af því, hversu vel stjórnvöld gæta hagsmuna almennings gagnvart kröfuhörðum sérhagsmunahópum. Einn höfuðkostur lýðræðis yfirhöfuð er einmitt sá, að löggjafarvaldið tryggir hag almennings gagnvart þröngum sérhagsmunum. Þetta blasir við, þegar við hugsum um lög og rétt. Einn aðaltilgangur lagasetningar er að vernda þjóðfélagsþegnana hvern fyrir öðrum og ekki sízt að vernda þá, sem minnst mega sín, gagnvart hinum sterku. Víðtæk velferðarlöggjöf í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku og víðar um heim hvílir á þessari hugsun. Samkeppnislöggjöf þjónar svipuðum tilgangi, svo að annað dæmi sé tekið: henni er ætlað að vernda almenning gagnvart afleiðingum einokunar. Það er einn helzti kostur frjálss og heilbrigðs markaðsbúskapar í lýðræðisríki, að hagsmunir neytenda sitja í fyrirrúmi.

Valdhafar í fyrrverandi einræðisríkjum kommúnista í Austur-Evrópu sneru þessu við: þar var hlaðið undir sérhagsmuni valdastéttarinnar á kostnað almennings, og hagsmunir neytenda voru látnir víkja fyrir hagsmunum framleiðenda, enda var ríkið yfirleitt eini framleiðandinn á ,,markaðinum", ef markað skyldi kalla. Afleiðing þessarar stefnu blasir nú við: framleiðslukerfi þessara landa er stórskaddað í þeim skilningi, að vörurnar, sem verksmiðjurnar hafa að bjóða, eru illseljanlegar eða jafnvel óseljanlegar á heimsmarkaði.

Íslenzk stjórnvöld hafa vanrækt hagsmuni neytenda á liðnum árum af illa grundaðri tillitssemi við framleiðendur. Landbúnaðarstefna stjórnvalda er skýrt dæmi um þetta. Kostnaðurinn, sem núverandi landbúnaðarstefna leggur á skattgreiðendur og neytendur, nemur nálægt 250.000 krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu á hverju ári. Þessi fjárhæð jafngildir nú um 400.000 krónum á mánuði á hvert bændabýli í landinu. Allt þetta fé skilar sér að sjálfsögðu ekki til bænda, heldur er því sóað á altari óhagkvæmra búskaparhátta að austur-evrópskri fyrirmynd. Þessi sóun er sannkölluð vitfirring á sama tíma og stjórnvöld stefna bæði heilbrigðis- og menntakerfi þjóðarinnar í háska með harkalegum og handahófskenndum niðurskurði fjárveitinga. Landbúnaðarstefna Evrópubandalagsins kostar bandalagsþjóðirnar miklu minna fé á hvert heimili í álfunni, en þó ríkir almennur skilningur á því meðal þarlendra stjórnvalda, að núverandi stefna er komin í þrot. Íslenzk stjórnvöld sýna hins vegar engin merki þess enn, að þau hafi skilning á þeim skaða, sem ríkjandi landbúnaðarstefna hefur valdið hér heima og veldur enn. Þau eiga eftir að biðjast afsökunar.

Það er ráðgáta og verðugt rannsóknarefni, hvernig það hefur getað gerzt, að svo mikil sóun, sem raun ber vitni um, skuli hafa verið látin viðgangast í þjóðfélagi, sem hefur rambað á barmi hengiflugs með reglulegu millibili á undanförnum árum og áratugum og stundum farið fram af vegna átaka um kaup og kjör vinnandi fólks. Vissulega á misvægi atkvæðisréttar í skjóli ójafnrar kjördæmaskiptingar mikinn þátt í þessu, en mér virðist fleira hafa lagzt á sömu sveif. Lýðveldi okkar Íslendinga er ungt og óþroskað að ýmsu leyti í samanburði við langa lýðræðishefð flestra nálægra þjóða. Afleiðingar þessa teygja anga sína víða. Hér er ekki rúm til að rekja það, en mér sýnist til dæmis, að óeðlilegt veldi stjórnmálaflokkanna á mörgum sviðum þjóðlífsins hér langt umfram það, sem tíðkast í nálægum löndum, eigi einnig verulegan þátt í því, hvernig stjórnvöld hér hafa fórnað dreifðum hag almennings á altari fámennra, en harðsnúinna hagsmunahópa. Þessu ofurveldi er nú smám saman að linna, eins og ráða má af því, að stjórnmálaflokkarnir eru smátt og smátt að missa tökin á fjölmiðlum, bönkum og sjóðum, jafnvel þótt formaður og framkvæmdastjóri tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins hafi nýlega tekið sæti í bankaráði stærsta ríkisbankans líkt og í kveðjuskyni. Mér sýnist margt benda til þess, að stjórnmálaflokkarnir muni neyðast til þess að láta undan kröfum almennings um aukna valddreifingu og víðtækari, heilbrigðari og markvissari markaðsbúskap í landinu á næstu árum í samræmi við öra þróun efnahagsmála í umheiminum. Þannig mun fólkið í landinu smám saman losna undan oki óeðlilegra og óæskilegra afskipta stjórnmálamanna og flokka af efnahagslífinu og á öðrum sviðum þjóðlífsins. Þá munu stjórnvöld sjá sig knúin til að hverfa frá núverandi stefnu í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Þá loksins munu hagsmunir framleiðenda verða að víkja fyrir hagsmunum neytenda.


Vísbending
, 10. árgangur, 25., 26. og 27. hefti, 25. júní og 6. og 13. júlí 1992.


Til baka