Er kreppan liðin hjá?
Við venjulegar kringumstæður duga hagtölur um landsframleiðslu og
kaupmátt hennar langleiðina til að leggja mat á gang efnahagslífsins,
hæðir og lægðir, skin og skúrir. Það stafar af því, að við venjulegar
aðstæður eru eignir og skuldir fólks og fyrirtækja og þjóðarbúsins í
heild tiltölulega stöðugar og breytast lítið frá ári til árs. En ef
eignir og skuldir eru á fleygiferð, þarf einnig að taka þær með í
reikninginn. Þá birtist önnur, fyllri og gagnlegri mynd.
Þetta þekkja allir, sem reka fyrirtæki. Rekstrarreikningurinn, sem sýnir
tekjur og gjöld, segir ekki alla söguna um afkomu fyrirtækisins.
Efnahagsreikningurinn, sem lýsir eignum og skuldum, skiptir einnig
miklu. Bankarnir virtust til dæmis ganga vel á meðan verið var að tæma
þá.
Sama máli gegnir um efnahagslífið í heild sinni. Ef landsframleiðslan
vex ört vegna þess, að þjóðin gengur á eigur sínar eða safnar skuldum,
þá erum við ekki að tala um hagvöxt í venjulegum skilningi, því að
slíkur vöxtur er ekki varanlegur og ekki heldur sjálfbær.
Framleiðsluaukning vegna aukinnar vinnu eða aukinna vinnuafkasta vitnar
um raunverulegan vöxt. En ef tekjuaukningin sprettur af eignasölu eða
söfnun skulda, er ekki um raunhæfan vöxt að ræða, heldur skammvinna
tekjuaukningu. Vöxturinn í efnahagslífi landsins var þessu marki
brenndur árin fram að hruni eins og margir bentu á, áður en hagkerfið
hrundi með kunnum afleiðingum. |
Nú eru ekki uppi venjulegar kringumstæður á Íslandi. Það stoðar lítt að
segja fólki, sem hefur orðið fyrir stórfelldu eignatjóni og séð skuldir
sínar hlaðast upp, að kreppan sé liðin hjá. Af sjónarhóli sumra í þessum
hópi er kreppan nú rétt að byrja.
Þúsundir fjölskyldna, sem áttu 5-10 mkr. í húseignum sínum umfram
skuldir fyrir hrun, skulda nú 5-10 mkr. í húsum sínum umfram andvirði
húseignarinnar. Hrein eignastaða þessa fólks hefur því versnað um 10-20
mkr. á hvert heimili. Seðlabankinn segir í nýrri skýrslu, að tveim árum
eftir hrun hafi hlutfall húseigenda með neikvæða eiginfjárstöðu – þ.e.
með húseign, sem er minna virði en áhvílandi skuld – í aldurshópnum 18
til 39 ára náð frá nærri helmingi (18-24 ára) upp í tvo þriðju (30-39
ára). Til samanburðar var hlutfallið innan við 10% í öllum aldurshópum
2007. Þetta eru gríðarleg umskipti. |
Þegar eignir hrynja í verði og skuldir hrannast upp, segir tekjuöflun
heimilisins ekki nema hluta sögunnar um afkomu þess. Sama á við um
þjóðarbúið í heild. Landsframleiðslan vex nú að nýju, og það er gott, en
fleira hangir á spýtunni. Hinu má ekki gleyma, að skuldir ríkissjóðs
hafa vegna hrunsins vaxið úr 29% af landsframleiðslu fyrir hrun upp í
93% af landsframleiðslu. Stóraukin skuldabyrði ríkisins er ávísun á
þunga skattbyrði fólks og fyrirtækja fram í tímann og skert lífskjör af
hennar völdum.
Við bætist, að lágt gengi krónunnar ásamt rammgerðum gjaldeyrishöftum
veldur miklu um viðsnúning framleiðslunnar með því að draga úr
innflutningi og ýta undir útflutning á vörum og þjónustu, þar á meðal
vaxandi fjölda ferðamanna til landsins. Á móti kemur, að gengisfall
krónunnar þyngir erlenda skuldabyrði fólks, fyrirtækja og ríkisins og
rýrir kaupmátt þjóðartekna, þar eð meira en helmingi af útgjöldum
heimilanna er varið til kaupa á innfluttri vöru og þjónustu. Gengisfall
krónunnar um helming frá hruni hefur tvöfaldað verðið á innfluttri vöru
og þjónustu í krónum talið. Það eru mikil viðbrigði. Þótt
landsframleiðslan nálgist nú aftur fyrra horf í krónum talið, munu
allmörg ár enn þurfa að líða, áður en landsframleiðslan og lífskjörin
komast aftur í fyrra horf mælt í evrum eða dölum og í svipað horf og
annars staðar um Norðurlönd. Hversu mörg ár getur enginn vitað með
vissu.
|
Eins og Gylfi Zoëga prófessor bendir réttilega á í nýju hefti vikuritsins Vísbending, vantar enn mikið á, að Ísland hafi náð sér til fulls. Gylfi segir: „... viðskiptabankar starfa undir eftirliti ríkisvaldsins sem aftur starfar í umboði þjóðarinnar. Það að íslenskir viðskiptabankar hafi með starfsemi sinni valdið stórfelldu tjóni erlendis og verið tæmdir að innan af eigendum sínum getur varla talist tilefni til sjálfshóls. Hinir erlendu bankar sem hér verða fyrir tjóni hafa margir hverjir þjónað íslensku atvinnulífi um áratugaskeið. Missir lánstrausts landsins felur í sér umtalsvert tjón. ... þótt greiðist úr skammtímavandamálum, á enn eftir að leysa mörg langtímavandamál. Eitt slíkt er að hanna peningakerfi sem ekki brotnar í fyrstu vindhviðum.“ Annað óleyst mál er stjórnarskrármálið. Lausn liggur fyrir í fullbúnu frumvarpi Stjórnlagaráðs, sem er ætlað að leysa marga hnúta í einu, þar á meðal kjördæmamálið og auðlindamálin. Við kjósum um frumvarpið 20. október. |