Stórt lán? Til hvers?
Efnahagsástandið er í ólestri eina ferðina enn. Verðbólgan æðir áfram, þótt ríkisstjórnin hafi sett sér það höfuðmarkmið að halda henni í skefjum. Bankar og ýmis fyrirtæki segja upp fólki í stórum stíl. Skuldir þjóðarinnar hanga á bláþræði yfir höfði hennar, erlendar skuldir jafnt sem innlendar. Innlendu skuldirnar halda áfram að þyngjast vegna verðbólgunnar, enda er mikill hluti þeirra verðtryggður. Erlendu skuldirnar þyngjast einnig sjálfkrafa, þegar krónan fellur. Laun almennings eru hvorki verðtryggð né gengistryggð. |
Ríkisstjórnin, einkum fyrri stjórn, en
einnig hin, sem tók við völdum fyrir ári, ber höfuðábyrgð á ástandinu.
Stjórn ríkisfjármála hefur verið veik. Ríkissjóður kemur nær tómur út úr
uppsveiflu undangenginna ára. Stjórn peningamála hefur einnig verið í
molum, úr því að Seðlabanki Íslands er enn sem fyrr eins og herfang í
sjálftökubraski stjórnmálastéttarinnar án tillits til þess, að bankinn
hefði ella getað haldið aftur af verðbólgunni og stuðlað að stöðugleika
fjármálakerfisins, hefði honum verið sæmilega stjórnað. Enginn
stjórnmálaflokkur andmælti sjálfsráðningu núverandi aðalbankastjóra
fyrir fáeinum misserum, og enginn þeirra hefur heldur mótmælt
ofurlaunakjörum bankastjóranna, en þeir þrír kosta skattgreiðendur meira
fé á hverju ári en öll hagfræðimenntun í Háskóla Íslands.
Aðalbankastjórinn á samkvæmt eftirlaunalögunum frá 2003 kost á fullum
eftirlaunum í ofanálag eftir langan ráðherradóm. Engin árangurstenging
þar.
|
Óstjórn efnahagsmálanna lýsir sér
meðal annars í því, að ítrekuðum tillögum til Seðlabankans og
ríkisstjórnarinnar um að efla gjaldeyrisforðann í góðærinu var ekki
sinnt. Nú loksins eftir dúk og disk rjúka menn upp til handa og fóta og
kunna þá ekki önnur ráð en að taka lán í útlöndum til að auka forðann.
Seðlabankinn veitti fyrir fáeinum vikum rangar upplýsingar um aðgang
bankans að lánsfé frá norrænum seðlabönkum og hefur nú viðurkennt
ósannindin í verki með því að gera eða láta gera fyrir sig sérstakan
samning um slíkan aðgang. Nýr samningur hefði verið óþarfur, ef fyrri
yfirlýsing bankans um málið hefði reynzt rétt. |
Fréttablaðið, 22. maí 2008.