TÖL203M Tölvugrafík

Heimadæmi 5


This page in other languages:
 1. [Próf 2017] Hvers vegna þarf uniform-breytur í liturum? Væri ekki hægt að senda allar upplýsingar sem þarf sem attribute-breytur með hverjum hnúti? Útskýrið.

 2. [Próf 2017] Ein útvíkkun á dýptarminni kallast stigveldis dýptarminni (hierarchical z-buffer). Í þeirri útgáfu eru nokkur lög af dýptarminnum með lægri upplausn "fyrir ofan" venjulega dýptarminni. Útskýrið hvernig hægt er að flýta fyrir ákvörðun sýnilegra yfirborða með þessari útgáfu af dýptarminni.

 3. [Próf 2013]
  1. Í lýsingarlíkani Phong eru í raun þrjár formúlur, ein fyrir hvern af grunnlitunum rauður, grænn og blár (RGB). Það er þó yfirleitt notað sama veldið α í depilendurskininu í öllum formúlunum. Útskýrið hvers vegna. Hvernig myndi depilendurskinið líta út ef notað væri mismunandi α í formúlunum þremur?
  2. Útskýrið hvaða áhrif það hefur í lýsingarlíkani Phong að hafa ljósgjafa í óendanlegri fjarlægð miðað við að ljósgjafi sé í tilteknum punkti. Nefnið tvö atriði.
  3. Ef við slepptum alveg umhverfisendurskininu (e. ambient) í lýsingarlíkani Phong hvernig myndi það koma fram í líkani? Lýsið líkani þar sem greinilega er hægt að sjá mun á því hvort umhverfisendurskin er til staðar eða ekki.

 4. Munið að lýsingarlíkan Phongs byggir á vigrunum l, n, v og r.
  1. Hvernig á yfirborðið að snúa til þess að i) hámarks depilendurskin (e. specular reflection) fari til áhorfanda? og ii) hámarks dreifendurskin (e. diffuse reflection) fari til áhorfanda? Rökstyðjið svör ykkar.
  2. Hvaða áhrif hefur fjarlægð áhorfanda á Phong líkanið? En fjarlægð ljósgjafa? Útskýrið svör ykkar.

 5. Á myndinni hér að neðan er flatt yfirborð með áhorfanda í punktinum v og ljósgjafa í punktinum l. Lýsa á yfirborðið með lýsingarlíkani Phong. Athugið að ljósgjafinn er tvisvar sinnum lengra frá yfirborðinu en áhorfandinn.
  1. Ef aðeins væri notað dreifendurskin (e. diffuse) í lýsingarlíkaninu, hvar myndi þá áhorfandinn sjá bjartasta punktinn á yfirborðinu? Sýnið á mynd og rökstyðjið út frá skilgreiningu dreifendurskins.
  2. Ef aðeins væri notað depilendurskin (e. specular) í lýsingarlíkaninu, hvar myndi þá áhorfandinn sjá bjartasta punktinn á yfirborðinu? Sýnið á mynd og rökstyðjið út frá skilgreiningu depilendurskins.

Skilið PDF-skjali með lausnum ykkar á þessum dæmum fyrir kl. 23:59 laugardaginn 10. mars í Gradescope.com. Hafið hlekki á WebGL forritin í lausnunum ykkar þannig að hægt sé að smella á þau til að keyra þau (ekki ljósmyndir af hlekkjum!).

hh (hja) hi.is, 3. mars, 2018.