TÖL203M Tölvugrafík

Heimadæmi 6


This page in other languages:
  1. [Próf 2017] Lýsið einum áhrifum (effect) sem hægt er að gera í bútalitara (fragment shader), sem ekki er hægt að gera í hnútalitara (vertex shader). Útskýrið og rökstyðjið.

  2. Búið til WebGL forrit sem sýnir tvær Phong litaðar kúlur hlið við hlið. Ljósgjafinn á að vera vinstra megin við vinstri kúluna, þannig að vinstri hliðar beggja kúlanna séu lýstar af ljósgjafanum. Lýsingin á að vera þannig að hún taki tillit til dofnunar (attenuation). Litararnir fá þá inn þrjá nýja stuðla, a, b og c (sem uniform-breytur), þeir reikna út fjarlægð núverandi punkts frá ljósgjafa, d, og margfalda svo rétta þætti í lýsingarformúlu Blinn-Phong með 1/(a + b*d + c*d2). Þið getið byggt kúlurnar á forritinu PhongKula.html (PhongKula.js) með fjölda uppskiptinga sem 4 (eða 5). Það er skynsamlegast að reikna fjarlægðina d í hnútalitara og senda það gildi yfir í bútalitara sem varying-breytu. Leyfið notanda að breyta línulega dofnunarstuðlinum (b) með upp/niður örvalyklum og sýnið núverandi gildi hans á vefsíðunni. Skilið skjáskoti af keyrslu og hlekk á forritið ykkar.

  3. Breytið lausninni ykkar á dæmi 3 í heimadæmum 4 (eða notið sýnislausnina) þannig að bókaskápurinn hafi einn lit, en hann sé lýstur með lýsingarlíkani Blinn-Phong og litaður með Phong litun. Hann ætti samt ekki að vera mjög glansandi (þ.e. glansstuðull á að vera lágur).

  4. Breytið sýnisforritinu VeggurGolf.html, þannig að það hafi 4 veggi og loft. Veggirnir 4 eiga allir að hafa sama mynstur (þið megið gjarnan breyta um mynstur frá sýnisforriti!) og loftið á að hafa annað mynstur, eitthvað ljósleitt. Skilið skjáskoti og hlekk á forritið ykkar.

  5. Skrifið WebGL forrit sem sýnir pýramíta, sem er með mynstur á hliðunum, þannig að hann sýnist vera eins og egypskur pýramíti. Athugið að egypskur pýramíti hefur botn sem er ferningur og fjórar þríhyrndar hliðar. Fyrir mynstrið getið þið annað hvort klippt sýnishorn úr ljósmyndum af pýramítum eða notað mynstur frá Paul Bourke, textures.com, Textures eða öðrum sambærilegum stöðum. Skilið skjáskoti af keyrslu og hlekk á forritið ykkar.

Skilið PDF-skjali með lausnum ykkar á þessum dæmum fyrir kl. 23:59 sunnudaginn 18. mars í Gradescope.com. Hafið hlekki á WebGL forritin í lausnunum ykkar þannig að hægt sé að smella á þau til að keyra þau (ekki ljósmyndir af hlekkjum!).

hh (hja) hi.is, 11. mars, 2018.