Þorbjörg Sveinsdóttir
(1827-1903)

 
Inngangur
Lífshlaup
Jafnréttismál
Háskólamálið
Hið íslenska kvenfélag
Hvítabandið
Heimildaskrá
 
Höfundar: Auðbjörg Halla Jóhannsdóttir og Dröfn Sigurbjörnsdóttir
Inngangur

Umfjöllunarefni þessa verkefnis er að kynnast konu sem var uppi á 19. eða 20. öld og lagði eitthvað fram til uppeldis- og/eða menntamála. Sá póll var tekinn í hæðina að skoða konu sem væri okkur algjörlega óþekkt. Fyrir valinu varð Þorbjörg Sveinsdóttir, en þó merkileg sé er ekki að finna mikið efni um hana. Aðallega var það draumur hennar um jafnan rétt kvenna til menntunar sem heillaði.

Segja má að Þorbjörg Sveinsdóttir hafi verið ein af merkustu konum Íslandssögunar. Þegar ævisaga hennar er skoðuð kemur í ljós að hún var ein fyrst kvenna til að vekja athygli á málefnum þeirra, að þær ættu að hafa jafnan rétt á við karlmenn, hefðu löngun og getu til að sækja sér þekkingu sem á þessum tíma var ekki í boði. Þorbjörg vildi að konur gætu sótt sér menntun til að geta barist fyrir mörgum þeim málefnum sem voru í brennidepli, hvort sem það sneri að almennum þjóðfélagsmálum eða málum sem snertu allar konur. Hún taldi konur enga eftirbáta karlmanna, þær gætu vel stundað nám ef þær fengju tækifæri til. Leið hennar til að vekja athygli á þekkingaröflun kvenna og landsmanna allra var að halda fund þar sem hún beindi sjónum að menntun og hvaða gildi hún hefði fyrir allar manneskjur. Aðalumfjöllunarefni þessarar samkomu var að berjast fyrir stofnun háskóla á Íslandi.

Farið verður yfir lífshlaup hennar og helstu afrek. Þorbjörg sótti menntun sína til Kaupmannahafnar þar sem hún lagði stund á ljósmóðurfræði og gegndi hún því starfi til æviloka. Meðfram því var hún mjög öflugur forkólfur í þjóðfélagsmálum og beitti sér fyrir framförum á mörgum sviðum. Ber þar helst að nefna háskólamálið svokallaða, Elliðaármálið og stofnun Hins íslenska kvenfélags.

Harða blíða, heita, sterka sál,
hjarta þitt var eldur, gull og stál,
ólíkt mér, en allt eins fyrir það
ertu gróin við minn hjartastað.

Öllu góðu unni eg sem þú:
einurð, sannleik, drengskap, von og trú;
eins mig píndi þessi botnlaus þraut,
þessi urð, er sligar lífsins braut.

(Þorbjörg Sveinsdóttir, 1908: 27)
Upp
 

Lífshlaup

Þorbjörg Sveinsdóttir er talin hafa fæðst í árslok 1827 eða í byrjun ársins 1828, að Sandfelli í Öræfum. Foreldrar hennar voru Sveinn Benediktsson og Kristín Jónsdóttir. Faðir hennar fæddist 1791, og vígðist til prests að Sandfelli árið 1823. Síðar færði hann sig til Þykkvabæjarklausturs 1827 og árið 1828 til Mýrar í Álftaveri. Kristín var dóttir Jóns Örnólfsssonar, bónda á Skrauthólum á Kjalarnesi. Hún fæddist þar árið 1798. Þorbjörg ólst upp að Mýrum fram til ársins 1853, en þá fluttist hún ásamt móður sinni norður í Skagafjörð. Fjórum árum áður, eða 1849 lést faðir hennar eftir langvarandi heilsuleysi, þá 58 ára gamall. Þorbjörg var fjórða í röðinni af átta systkinum. Einn af bræðrum hennar var Benedikt Sveinsson, alþingismaður, dómari og sýslumaður. Hann var faðir Einars Benediktssonar skálds (Björg Einarsdóttir 1984a: 220-222; Elín Pálmadóttir, Hannes H, Gissurason og Ragnhildur Helgadóttir, 1981: 173; Jónas Jónasson, 1959: 33-35; Þorbjörg Sveinsdóttir, 1908: 7-8).

Presthjónin bjuggu við mikla fátækt og höfðu því lítil sem engin ráð á að senda börn sín í skóla, Benedikt sem lýst var sem bráðskörpum og efnilegum var orðinn tvítugur þegar hann fór loks í skóla, sá eini af bræðrunum. Ekki kom til greina að systurnar fengju menntun. Þorbjörg lét það ekki stoppa sig því árið 1855 hélt hún til Kaupmannahafnar þar sem hún lagði stund á ljósmóðurfræði og útskrifaðist hún með fyrstu einkunn þann 30. apríl 1856, en var hún ein af fyrstu lærðu ljósmæðrunum á Íslandi. Það sama ár fer hún aftur heim til Íslands og starfar sem ljósmóðir í Skagafirði. Dvelur hún mjög stutt í Skagafirðinum eða nokkra mánuði og flyst til Reykjavíkur og hefur þar störf. Þar er hún starfandi sem ljósmóðir í átta ár en árið 1864 var hún skipuð sem embættisljósmóðir í Reykjavík, ásamt annarri ljósmóður. Því starfi sinnti hún fram til ársins 1902. Á þessum árum náði Reykavíkurumdæmi yfir Seltjarnarnes að Gróttu, og inn eftir Grænuborg og Fúlutjörn. Í byrjun voru um 1500 manns í umdæminu en Reykjavík fór ört vaxandi um aldamótin og um það leyti sem Þorbjörg hættir eru íbúarnir þar um 7000 manns. Embættisljósmóðir var þó ekki eina starf Þorbjargar á þessum tíma því samfara þeirri atvinnu sá hún um verklega kennslu nema í ljósmæðrafræðum. Oft bjuggu nemendurnir heima hjá Þorbjörgu og yfirleitt nokkrir samtímis. Ekki er vitað hve mörgum börnum Þorbjörg tók á móti á löngum starfsferli sínum en þau hafa verið mörg. Hún var mjög eftirsótt og þótti hún hafa mikið læknisviti, konurnar treystu henni því hún var snör í snúningum ef á þurfti að halda (Björg Einarsdóttir, 1984a: 222; Elín Pálmadóttir, Hannes H, Gissurason og Ragnhildur Helgadóttir, 1981: 174; Guðjón Friðriksson, 1997: 9-10; Þorbjörg Sveinsdóttir, 1908: 8).

„Skyldusýslu sinni gegndi Þorbjörg með hinni mestu alúð og samvizkusemi. Hún var eftirlæti þeirra mæðra, er í barnsnauð leituðu líknar hennar. Henni lét nærkonustarfið svo lipurlega, að svo mátti segja, að mæður kepptust um að ná þjónustu hennar, þegar leið að hinum tvíhættu tímamótum. Þær dáðust af læknisviti hennar, snarræði þegar því var að skipta, og þegar hughreystandi máli hennar, sem flóði frá sterku, miskunnarheitu hjarta. Yfir sængurkonurnar breiddi hún alla hina vörmu vesælli, og hljóp ótrautt undir bagga með þeim, sem örbirgð gerði hinn litla gest miðlungi velkominn á heimilið.“

Þorbjörg kvæntist aldrei og eignaðist engin börn en tók hins vegar að sér systurdóttur sína Ólafíu Jóhannsdóttur er fæddist 1863 í fóstur, þá fimm vetra. Mjög kært var á milli þeirra og reyndi Þorbjörg að veita Ólafíu gott uppeldi og hvatti hana til menntunar. Móðir Þorbjargar bjó hjá henni til dauðadags, einnig bjuggu feðgarnir Benedikt Sveinsson og Einar Benediktsson hjá henni reglulega í skamman tíma í senn. Fólk leitaði mikið til Þorbjargar og var hún alltaf tilbúin að veita því húsaskjól ef á þurfti að halda. Hún hafði miklar og sterkar skoðanir á hlutunum, og fór oft mikill tími heimafyrir í að ræða hin ýmsu þjóðmál.
Upp
 

Jafnréttismál

Þegar Þorbjörg settist að í Reykjavík áttu margar breytingar sér stað í þjóðlífi Íslendinga. Á þeim tíma stóð Jón Sigurðsson fyrir jafnréttismálum. Það þótti ekki við hæfi að kvenfólk skipti sér af þjóðfélagsmálum, heimilisverkin var nóg hlutverk fyrir þær. Þorbjörg var á undan sinni samtíð, talaði hún um löngun konunnar til að afla sér nægrar þekkingar. Með þekkingu hafði einstaklingurinn rétt til að dæma um hin ýmsu málefni. Á þessum tíma voru það helst eldri konur sem voru hvað harðastar í að halda í gömlu gildin, íhaldssemina, þær töldu að hlutverk konunnar væri aðeins innan veggja heimilsins. Þorbjörg var algjörlega á öndverðum meiði. Hún tók þátt í umræðum um landsmálin sem voru hvað mest í brennidepli hjá þjóðinni. Í frítíma sínum las hún öll þau rit og ræður sem komu frá Jóni Sigurðssyni, einnig lærði hún margt af bróður sínum Benedikti. Á þenhnan hátt varð hún fróð um ýmis málefni (Elín Pálmadóttir, Hannes H. Gissurason og Ragnhildur Helgadóttir, 1981: 175-177; Þorbjörg Sveinsdóttir, 1908: 9-14).

Þorbjörg tók málstað Jóns Sigurðssonar og hjálpaði mjög til þar, á meðan öfugt var farið með andstæðinga hennar. Hún talaði gegn þeim og þeirra málefnum. Þorbjörg var oft fyrirlitin af andstæðingum sínum, en svo fór að menn gerðu sér grein fyrir að hún átti traust almennings. Málefni kvenna, eins og þátttaka þeirra í opinberum málum, voru ekki í umræðunni, og því átti Þorbjörg ekki löglegan rétt til að sitja fundi og taka þátt í umræðum. Brennandi áhugi hennar, vilji til að berjast fyrir hag þjóðarinnar og málsnilld gerðu það að verkum að hún þótti bæði sjálfsagður og í raun nauðsynlegur gestur á þessum fundum. Fundarmenn hefðu frekar slitið fundi og rekið fundarstjórann heldur en að neita henni um setu, því þó hún hefði ekki kosningarétt þá átti hún vissulega erindi þarna og litu fundarmenn á það sem ofbeldi gagnvart konum ef neita átti henni um fundarsetu. Hún hafði líklega meiri áhrif á þingkosningar en nokkur annar og því þótti betra að hafa hana með sér í liði heldur en ekki. Á þessum tímapunkti var Þorbjörg farin, ein kvenna í landinu, að halda ræður jafnt á við karlmenn (Jónas Jónasson, 1959: 37-38; Þorbjörg Sveinsdóttir, 1908: 9-11).

Þorbjörg vildi fullkomið jafnrétti kvenna á við karlmenn og skyldi það byrja strax í uppeldinu, bæði í námi og skólagöngu, með réttindum og þátttöku kvenna í borgaralegu lífi og hvort sem það varðaði erfðir eða atvinnu. Vegna sterkrar réttlætiskenndar Þorbjargar fannst henni óréttlátt og ófyrirgefanlegt að konum væri mismunað á grundvelli kyns hvað varðaði inngöngu í skóla, það voru svo til aðeins karlmenn sem aðgang höfðu að þeim menntastofnunum. Þá fannst henni einnig mjög ósanngjarnt, eins og tíðkaðist á þeim tíma, að konur stæðu ekki jafnfætis körlum í erfðamálum vandamanna (Jónas Jónasson, 1959 : 38).
Upp
 

Háskólamálið

Eitt af þeim málum sem voru Þorbjörgu afar mikilvægt og í raun öllum Íslendingum var hið svokallaða háskólamál, það er að segja, stofnun háskóla hér á landi. Stofnun þjóðskóla hafði verið í umræðunni síðan á fyrsta alþingi eftir endurreisn árið 1845 en þá fjallaði Jón Sigurðsson um málið. Árið 1893 samþykkti alþingi lagafrumvarp Benedikts Sveinssonar um stofnun háskóla, en konungur neitaði að staðfesta það. Fylgismenn frumvarpsins stofnuðu samtök um að stofna svokallaðan háskólasjóð. Ári síðar eða 26. janúar 1894 safnaði Þorbjörg vinkonum sínum saman og ætluðu þær að beita sér í því málefni sem þeim fannst brenna mikið á að koma í verk, en það var velferð sona þeirra og dætra og framtíðarheill landsins. Fram til þessa höfðu margar mæður þurft að horfa á eftir börnum sínum til Kaupmannahafnar til að leita sér menntunar. Þessar konur stofnuðu samtök og heldu fund þar sem um tvöhundruð konur söfnuðust saman til að lýsa yfir stuðningi sínum við stofnun háskóla á Íslandi. Fundarstjóri var Tryggvi Gunnarsson og meðal þess efnis sem rætt var á fundi þessum voru háskóla-stofnanir í nágrannalöndum Íslands. Þorbjörg var meðal ræðumanna og flutti hún erindi um gildi þess að háskólamenntun flyttist inn til Íslands. Útkoma fundarins var sú að stofnuð var nefnd átján kvenna sem áttu að sjá um fjársöfnun til styrktar háskólamálinu og var Þorbjörg ein nefndarkvenna. Meðal þess sem gert var til að safna fé var að halda happadrætti og hlutaveltu og oft safnaðist dágóð upphæð þeirra til handa (Björg Einarsdóttir, 1984a: 230; Elín Pálmadóttir, Hannes H. Gissurason og Ragnhildur Helgadóttir, 1981: 176-177; Ólafía Jóhannsdóttir, 1982: 69-70).

Þorbjörg tileinkaði líf sitt öllu því sem henni fannst gott og göfugt, til dæmis stóð Þorbjörg fast við hlið Benedikts, bróður síns, í baráttu hans fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar (Guðjón Friðriksson, 1997: 165-166).
Upp
 

Hið íslenska kvenfélag

Eitt helsta verk hennar mætti telja stofnun Hins íslenska kvenfélags 26.janúar 1894. Það var einmitt fyrsta fjöldahreyfing kvenna á Íslandi. Stofnun þess má segja að hafi verið bein afleiðing háskólafundarins sem meðal annars Þorbjörg hafði hvatt til. Hann varð til þess að þær konur sem sóttu fundinn ákváðu að stofna samtök til eflingar á félagsskap kvenna víðsvegar um landið. Aðaláhersla félagsins var þó helst aukin réttindi íslenskra kvenna og að efla menningu þeirra með ýmsu móti. Einnig lögðu þær áherslu á að styrkja allar framfarir í landinu. Þorbjörg lagði ríka áherslu á að konur öfluðu sér menntunar þannig að þær gætu af þekkingu krafist réttarbóta og notað þá þekkingu skynsamlega og í þágu kvenna (Björg Einars, 1984a: 230-231; Þorbjörg Sveinsdóttir, 1908: 11).

Í félagslögum kvenfélagsins segir einmitt:

Tilgangur félagsins er sérstaklega að auka réttindi kvenna á íslandi og að glæða áhuga þeirra fyrir því að gæta fenginna réttinda og hagnýta sér þau, enn fremur að efla menningu kvenna með samtökum og félagsskap. Félagið vill einnig styrkja allt það , er horfir til framfara í landinu og ræða þau mál, sem efst eru á dagskrá þjóðarinnar og vinna að framgangi þeirra.
(Björg Einarsdóttir, 1984a: 231)

Árið 1897 tók Þorbjörg við formennsku kvenfélagsins af Sigþrúði Friðriksdóttur og gegndi hún því til dauðadags.
Hið íslenska kvenfélag stofnaði sjúkrasjóð og átti fé það sem safnaðist saman á hlutaveltu að renna til háskólans og styðja konur til náms við hann. Kvenfélagið gaf einnig út ársrit með margvíslegu efni, þar sem hæst bar á góma háskólamál og kvenréttindamál, þar sem þær vildu fá jafnan aðgang að skólum, vildu fá atvinnufrelsi og sömu laun og karlmenn, kostningarétt og kjörgengi, fjallað var um móðurást og móðurskyldu, svo dæmi séu tekin.
Upp
 

Hvítabandið og Elliðaármálið

Þorbjörg, ásamt uppeldisdóttur sinni Ólafíu Jóhannsdóttur, stofnaði Hvítabandsdeild árið 1895. Félagið var kristilegt bindindisfélag og voru meðlimir þess um fimmtíu konur. Félagið starfaði að ýmsum málum, svo sem bindindismálum, friðarmálum, jafnréttismálum, dýraverndun og fræðslu- og líknarmálum. Ólafía varð formaður félagsins og Þorbjörg meðstjórnandi.

Hún sinnti fjölþættum málefnum og meðal annars tók hún vel á móti guðsmönnum, til að mynda voru foringjar Hjálpræðishersins alltaf velkomnir og leituðu þeir oft á tíðum stuðnings hennar. Einnig var hún með þeim fyrstu til að styðja K.F.U.K. og sótti síðar fundi þangað.

Rétt er að minnast á þátttöku Þorbjargar í Elliðaármálinu svokallaða. Málsatvik voru þau að reistar höfðu verið þvergirðingar sem komu í veg fyrir laxinn gengi upp ána. Leiðindi urðu vegna þessa því þeir sem lengra voru upp með ánni fengu engan lax. Málið tengdist í raun erfðarétti en feðgar einir töldu sig hafa einkarétt á veiðum í Elliðará. Benedikt, bróðir Þorbjargar, var einn þessara sem átti eignarjörð við ána og taldi hann að athæfið gengi á móti fornum íslenskum lögum sem enn væru í gildi og bönnuðu þvergirðingar í ám. Þorbjörg, eins og ævinlega, stóð með bróður sínum. Málalok urðu þau að girðingarnar voru brotnar og talið var að Þorbjörg hefði verið forsprakki þessa athæfis. Vildi löggæslumaður einn varpa henni í gæsluvarðhald, fangavörður taldi sig ekki geta lokað þessa þekktu konu inni, til dæmis hafði hún tekið á móti börnum hans, bauðst hann því til þess að lána íbúð sína sem nokkurs konar gæsluvarðhald. Það varð þó aldrei neitt úr þessu varðhaldi því aðkallandi starf hennar gerði það að verkum að hún varð að vera viðstödd fæðingu á þessum tíma. Löngu eftir þeirra lífdaga viðurkenndi Íslensk löggjöf réttmæti aðgerða þeirra systkina (Björg Einarsdóttir, 1984a: 228-230; Elín Pálmadóttir, Hannes H. Gissurason og Ragnhildur Helgadóttir, 1981: 176; Jónas Jónasson, 1959; 38-40).
Upp
 

Heimildaskrá
Björg Einarsdóttir. (1984a). Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. 1. bindi. Reykjavík: Bókrún.

Björg Einarsdóttir. (Ritstj.). (1984b). Íslenskar ljósmæður. 1. bindi. Akureyri: Kvöldvökuútgáfan hf.

Elín Pálmadóttir, Hannes H. Gissurason og Ragnhildur Helgadóttir. (Ritstj.). (1981). Auðarbók Auðuns. Reykjavík: Landssamband Sjálfstæðiskvenna og Hvöt, félag Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík.

Guðjón Friðriksson. (1997). Einar Benediktsson. 1. bindi. Reykjavík: Iðunn.

Jónas Jónasson. (1959). Aldamótamenn: Þættir úr hetjusögu. 1. bindi. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Ólafía Jóhannsdóttir. (1982). Frá myrkri til ljóss. Akureyri: Arthur Gook.

Þorbjörg Sveinsdóttir. (1908). Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir: Minningarrit. Reykjavík: Hið íslenska Kvenfélag.
Upp
 
Til baka á aðalsíðu