Spunakonurnar þrjár

EINU SINNI var ákaflega löt stúlka, sem nennti ekki að gera neitt handverk. Og það var alveg sama hve oft móðir hennar skammaði hana, hún nennti aldrei að gera neitt. Móðir hennar reyndi þó helzt að fá hana til að spinna, en við það var ekki komandi. Svo var það dag nokkurn, að móðir hennar varð svo reið, að hún gaf stúlkunni rokna löðrung, og fór stúlkan að hágráta. — En þegar hún var að gráta, vildi svo einkennilega til að drottningin í ríkinu keyrði í vagni sínum í sömu svifum fram hjá húsinu og heyrði þá í stúlkunni.

Drottningin var mjög forvitin, og þess vegna fór hún inn í húsið til að grennslast fyrir um hver það væri, sem gréti svona hátt. Drottningin ávarpaði því móður stúlkunnar og spurði hvernig á því stæði, að dóttir hennar greti. Móðir hennar skammaðist sín þá fyrir að segja sannleikann, og sagði því:

„Ég get engan veginn fengið hana dóttur mína til að hætta að spinna. En þannig er mál með vexti, að ég er svo fátæk, að ég get ekki keypt alla þá ull, sem til þarf, því að dóttir mín er enga stund að vinna úr því, sem ég kaupi."

Þá mælti drottningin:' „Ég er nú einu sinni svo gerð, að mér þykir mjög vænt um allar konur, sem eru duglegar að spinna. Ég hefi ekki meiri skemmtan af neinu eins og að sjá rokkhjólið og snælduna snúast," sagði drottningin, svo hélt hún áfram. „Þú skalt nú láta dóttur þína koma heim í höllina til mín, og þá skal hún fá næga ull til að spinna úr." Nú vissi hún, að dóttir sín myndi verða að vinna og það rækilega. Stúlkan fór svo með drottningunni heim í höllina.

Drottningin leiddi nú stúlkuna um höllina og sýndi henni loks inn í þrjú herbergi, sem voru sneisafull af ull. „Ef þú getur spunnið alla þessa ull, skaltu fá elzta son minn fyrir mann. Það skiptir mig engu þótt þú sér fátæk," sagði drottningin. Stúlkan varð hálfsmeyk, því að þótt hún sæti við rokkinn frá morgni til kvólds í margar aldir, þá hefði hún aldrei getað unnið úr þessum feikna ullarforða. Og þegar drottningin var farin út frá henni, fór hún að hágráta. Hún grót samfleytt í þrjá daga og snerti ekki á ullinni.

Að þessum þremur dögum liðnum kom drottningin inn til hennar til að sjá hvernig verkinu liði. En hún undraðist mjög þegar hún sá, að stúlkan var ekki farin að snerta á ullinni. Stúlkan afsakaði sig þá með því, að hún saknaði svo móður sinnar, og þess vegna hefði hún ekkert getað spunnið. Þá sagði drottningin:

„Á morgun verður þú að byrja á verkinu." Síðan kvaddi hún stúlkuna og hélt í burtu frá henni.

Veslings stúlkan vissi nú ekki hvað hún átti til bragðs að taka. í eymdarskap sínum hallaði hún sér einu sinni út um gluggann, og þá sá hún þrjár konur á gangi á götunni. Þær voru allar mjög einkennilegar. Ein þeirra var ákaflega fótstór og flatfætt. Önnur var með svo þykka neðri vör, að hún lafði niður fyrir höku, en þriðja konan var með óvenju stóran þumalfingur á hægri hendi. Þegar konurnar komu auga á stúlkuna, námu þær staðar, kölluðu til hennar og spurðu því hún væri svo miður sín á svipinn. — Stúlkan sagði þeim þá allt frá sínum högum.

Konurnar buðust þá til að hjálpa henni, en með einu skilyrði: Þú verður þá að bjóða okkur í brúðkaupið þitt. Og þú verður að segja gestunum, að við séum frænkur þínar. Ef þú gengur að boði okkar, skulum við ekki vera lengi að spinna úr ullinni."

„Ég skal lofa ykkur því," sagði stúlkan og varð mjög fegin. „En þið verðið að koma strax og hefja verkið, því að ekki veitir af," bætti hún við.

Þessar einkennilegu konur komu nú inn til hennar og settust þær áð í fyrsta herberginu og byrjuðu þegar að spinna. Ein þeirra teygði lopann og steig rokkinn, önnur vætti lopann, en sú þriðja vatt upp á og sló jafnharðan með fingrinum á snælduhausinn, og varð snældan þá á svipstundu full af svo fínu bandi, að ekki var hægt að spinna það fínna.

En þegar drottningin kom að heimsækja stúlkuna, faldi hún spunakonurnar, en sýndi henni bandið, sem búið var að spinna. Hrósaði drottningin henni þá á hvert reipi. Og það liðu ekki nema fáir dagar áður en búið var að spinna úr hverju einasta ullarhári. Spunakonurnar kvöddu þá stúlkuna og báðu hana að gleyma nú ekki því, sem hún hefði lofað þeim.

Þegar drottningin kom næst inn til stúlkunnar var búið að spinna alla ullina. Drottningin hældi þá stúlkunni á hvert reipi fyri dugnað hennar og lét síðan þegar hefja undirbúning að brúðkaupinu. Kóngssonurinn var ekki síður ánægður yfir að eignast svona duglega konu. — Dag nokkurn kom stúlkan að máli við drottninguna og sagði:

„Ég á þrjár frænkur, sem hafa verið mér einkar góðar. Og fyrir góðmennsku þeirra langar mig nú að bjóða þeim í brúðkaupið."

„Ekkert er sjálfsagðara, vina mín," svaraði þá drottningin.

Kóngssonurinn var einnig á sama máli. Svo rann dagurinn upp, sem veizlan átti að haldast. Og þegar veizlan stóð sem hæst, komu þrjár konur inn í salinn. Þær voru mjög sérkennilega klæddar. Brúðurin gekk á móti þeim og sagði: „Verið velkomnar, frænkur mínar." Kóngssyni varð nú allstarsýnt á konurnar, og hann ætlaði varla að trúa því, að þær gætu verið frænkur konunnar sinnar.

Hann gekk nú til einnar þeirra og spurði hví hún væri svo flatfætt. „Fóturinn á mér hefur smám saman orðið svona af því að stíga rokkinn," svaraði hún.

Þá spurði hann konuna með neðrivörina, af hverju sá ofvöxtur stafaði. Hún sagði þá, að vörin á sér hefði orðið svona þykk og stór áf því að væta lopann.

„En af hverju hefur þumalfingurinn á þér orðið svona stór?" „Af því að vinda upp á," svaraði þá hin þriðja.

Kóngssyni varð þá svo mikið um þessar upplýsingar, að hann hét því, að konan sín skyldi aldrei fá að snerta rokk eða band upp frá þessu.

ENDIR.

(ævintýri þetta birtist í barnalesbók Morgunblaðsins 1953 en er til á mörgum tungumálum og er eitt Grimmsævintýra og heitir þar Die drei Spinnerinnen The Three spinners