Rannsóknir á hestum

English

 

Verkefni

Sumarexem

Gammaherpesveirur

Lífssýnabanki
íslenska hestsins

Hitasótt

 

Greinar

 

Fyrirlestrar

 

Hestur með sumarexem

 

Sumarexem ofnæmi í hrossum gegn smámýi (Culicoides spp)

Rannsóknir á sumarexemi í hrossum er samstarfsverkefni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Háskólans í Bern í Sviss. Rannsóknirnar hafa staðið frá árinu 2000 og eru styrktar af Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Rannís,Vísindasjóði Háskóla Íslands, Svissneska Vísindasjóðnum og WETSUISSE.

Sumarexem er ofnæmi gegn prótínum sem berast í hross við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides (smámý), en tegundir af þeirri ættkvísl lifa ekki hér á landi. Hross af öllum kynjum geta fengið ofnæmið en það er sérstaklega algengt í íslenskum hrossum sem flutt hafa verið úr landi. Um helmingur útfluttra hrossa sem hafa verið 2 ár eða lengur á flugusvæðum fá sumarexem ef ekkert er að gert til að verja þá flugnabiti. Íslensk hross sem fædd eru erlendis virðast ekki í meiri hættu á að fá sumarexem en hross af öðrum kynjum.

Markmið rannsóknanna er þríþætt: 

  • Finna og greina prótínin sem valda ofnæminu (ofnæmisvakana)
  • Rannsaka ónæmissvarið og feril sjúkdómsins
  • Þróa ónæmismeðferð það er bólusetningu eða afnæmingu

 

Gammaherpesveirur
Rafsjármynd stækkun:

Gammaherpesveirur í hrossum

Í tengslum við rannsóknir á smitandi hitasótt í hrossum 1998 ræktaðist veira í samrækt á hvítfrumum úr blóði og hestafósturnýrnafrumum. Eðli frumubreytinganna benti til að um herpesveiru væri að ræða. Var það staðfest við rafeindasmásjáskoðun og með sértæku DNA-mögnunarprófi sem komið var upp en prófið greinir á milli þeirra tveggja afbrigða af gammaherpesveirum sem nú eru þekktar í hrossum þ.e. Equine herpesvirus 2 (EHV-2) og EHV-5. Ekki var áður vitað að hross hérlendis væru sýkt með gammaherpesveirum. Ómögulegt er að segja til um hvenær þessar sýkingar bárust hingað til lands. Í ljósi þess hvernig herpesveirur viðhaldast í stofnum með dulsýkingum má að ætla að þessar veirur gætu hafa borist með hrossum sem voru flutt inn til Íslands í upphafi byggðar.

Við höfum ræktað veirurnar í hárri tíðni bæði frá sjúkum hrossum og heilbrigðum. Rannsóknir okkar sýna að mikill meirihluti hrossa hérlendis er sýktur með veirunum.

Markmið rannsóknanna er:

  • Skoða breytileika í erfðaefni innlendra innlendra stofna og bera saman við erlendra stofna
  • Skoða ónæmisviðbrögð við sýkingum með veirunum
  • Búa til bólusetningarferju úr EHV-2 til að DNA bólusetja hross

Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís og Vísindasjóði Háskóla Íslands

 

 

Glámur frá Hofsósi
Hjálmskjótt, sjaldgæfur litur á íslenskum hestum

Lífsýnabanki íslenska hestsins

Skipulegt ræktunarstarf íslenska hestsins hófst hérlendis á fyrrihluta síðustu aldar. Síðan þá hefur almennur áhugi fyrir ræktun íslenska hestsins farið vaxandi bæði hér heima og erlendis. Íslenski hesturinn hefur lifað við erfðafræðilega einangrun í u.þ.b. 1000 ár og fátt er vitað um erfðabreytileika innan stofnsins. Með auknu ræktunarstarfi  hefur breytileiki stofnsins eðlilega minnkað og sýnt hefur verið fram á að virk stofnstærð (effective population size) hefur minnkað þrátt fyrir að stofninn hafi verið að stækka. Erfðabreytileiki er forsenda ræktunarstarfs. Þegar ströngu úrvali er beitt er sú hætta fyrir hendi að dragi úr erfðabreytileika og verðmætir eiginleikar glatist.

Frá árinu 2000 hefur lífsýnum (erfðaefni og blóðvökva) úr stóðhestum og völdum hrossum sem gefa þverskurð af stofninum hverju sinni með tilliti til erfðafjölbreytileika og smitsjúkdómastöðu.

Markmið lífsýnabankans er að geyma sýni sem nýtast til ýmissa rannsóknarverkefna íslenska hestinum.

 

Höfundur síðu:
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (sibbath@hi.is)